Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Páll Valur Björnsson sækist eftir 3.-4. sæti hjá Samfylkingu
Þriðjudagur 24. febrúar 2009 kl. 16:13

Páll Valur Björnsson sækist eftir 3.-4. sæti hjá Samfylkingu

Lýðveldið Ísland stendur á tímamótum og við blasir gífurlega krefjandi verkefni að reisa það úr þeim rústum sem nýfrjálshyggjan, sú stefna sem rekin hefur verið hér á síðustu tveimur áratugum hefur skilið það eftir í. Kjósendur og samfélagið allt kallar á breytingar í stjórnmálum landsins og kallað er eftir nýju fólki sem hlustar á raddir almennings og tekur tillit til óska þess. Það er í ljósi þessara óska fólksins í landinu sem ég hef tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér í 3-4 sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi þann 7. mars næstkomandi. Það geri ég líka í ljósi þess að mér hefur fundist vanta rödd verkalýðsins á Alþingi og alla mína tíð hef ég verið verkamaður og unnið margvísleg störf bæði til sjós og lands.

 Ég trúi á frelsi, jafnrétti og bræðralag og tel að undir merkjum jafnaðarstefnunnar náum við að ýta þjóðarskútunni aftur á flot og hér geti ríkt sátt og samlyndi manna í millum. Það er engum blöðum um það að flétta að í mínum huga er það langbrýnasta verkefnið sem býður okkar allra  að bjarga heimilum og fyrirtækjum þessa land frá gjaldþroti. En einnig verðum við að líta til framtíðar og ákveða hvar við viljum standa í samfélagi þjóðanna og tel ég það eitt að forgangsmálum þjóðarinnar að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið.  Þann samning sem út úr þeim viðræðum kemur á síðan að leggja fyrir þjóðina sem í atkvæðagreiðslu ákveður hvort við förum inn eða ekki.

Á síðustu árum hafa manngildi lotið í lægra haldi fyrir peninga og gróðahyggju og það er staðreynd sem verður að breyta.  Í sameiningu eigum við íslendingar að hefja til vegs og virðingar samfélag sem einkennist af samhug, virðingu og kærleik. Íslendingar eru jaxlar, harðduglegt fólk sem ekki kalla allt ömmu sína og það er enginn efi í mínum huga að við verðum fljót að ná okkur aftur á strik, við höfum nú vakað eina vorvertíð áður.

Ég er Vopnfirðingur að upplagi en hef búið  í Grindavík rúma tvo áratugi, er giftur Huldu Jóhannsdóttur leikskólastjóra og eigum við tvö börn. Eins og áður kom fram hef ég verið verkamaður alla mína tíð en síðustu tvö ár hef ég notið þeirra forréttinda að sitja á skólabekk, fyrst í Háskólabrú Keilis á Vallarheiði og svo á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, kennaradeild síðan í haust.

Páll Valur Björnsson


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024