Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 5. desember 2002 kl. 10:51

Ósáttur maður á leið út af þingi: Kristján Pálsson talar út

Það voru þung spor fyrir Kristján Pálsson alþingismann að ganga út úr Stapa sl. laugardag þegar í ljós hafði komið að hann hefði ekki náð kjöri á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Síðustu vikur hefur farið fram mikil barátta meðal stuðningsmanna Kristjáns um að koma honum á listann. Kristján segir að sér líði ágætlega, en þegar blaðamaður Víkurfrétta náði tali af honum var hann staddur á fundi Vestur-Evrópusambandsins í París, en Kristján er formaður íslandsdeildar sambandsins. Kristján segir að hann sé ennþá að jafna sig eftir niðurstöðu fundar kjördæmisráðsins og hann segist alls ekki sáttur: „Niðurstaða kjörnefndarinnar kom mér og mínum stuðningsmönnum mjög á óvart og kannski miklu fleirum,“ segir Kristján.

Þegar Kristján er spurður að því hvort þetta hafi verið löngu ákveðið segir hann að það hljóti að liggja töluverður undirbúningur að þessari aðför eins og hann kallar það: „Það þarf að hafa það á hreinu ef menn ætla að ná slíkri niðurstöðu að þetta sé gert þannig að á endanum sé það samþykkt og það tókst með þessu. Þetta er náttúrulega sett þannig upp að það er ekki hægt að breyta listanum eftir að hann er kominn fram því að reglurnar sem kjörnefndin setti sér, reglur sem ég hef ekki vitað að væru til, gerðu ráð fyrir því að það yrðu að vera tvö sæti á milli manna úr sama bæjarfélagi. Í reglunum var líka gert ráð fyrir að það sé tekið tillit til hólfa sem eru fimm í öllu kjördæminu. Það var einnig í reglunum að það þyrfti að taka tillit til aldurs og kyns þeirra sem kæmu til með að raðast á listann. Þessar reglur eru alveg óþekktar og ég veit ekki til þess að nokkurn tíma hafi verið notuð sú aðferð að útiloka menn út af því að þeir væri frá sama svæði, allavega annan. Ef maður lítur til dæmis á Norðausturkjördæmi þá koma fyrsti og annar maður frá sama bæjarfélaginu. Þetta er alveg stórfurðulegt því þessar reglur útiloka annan þingmann Suðurnesja.“

Kjörnefndarmenn kusu um sjálfa sig
Kristján segir að þessum reglum hafi verið haldið leyndum fram á síðustu stundu og að hann hafi frétt af þeim á fundi kjördæmisráðsins: „Mér finnst þetta mjög alvarlegt og segir náttúrulega ýmislegt um það hvernig þetta var unnið. Mér finnst þetta vera aðför að mér og ég stend við það,“ segir Kristján og bætir við: „Vinnureglurnar koma allar frá kjörnefndinni. Kjörnefndin vinnur mjög einkennilega, allavega hluti hennar og það virtist hafa verið þannig í upphafi að það voru sett nöfn í pott sem átti að sýna hvaða aðilar væru uppi í hugum kjörnefndarmanna. Á þessum tímapunkti komu strax upp nöfn nokkurra kjörnefndarmanna og meðal annars nafn Ellerts Eiríkssonar, Sigurðar Vals og Guðjóns Hjörleifssonar, en þeir sátu allir í kjörnefndinni. Ég hefði talið það eðlilegt að kjörnefndin setti sér þá reglu að hún setti nöfn nefndarmanna ekki í pottinn. En það var nú öðru nær.“

Sagði sig úr nefndinni nokkrum klukkustundum fyrir fund
Kristján segir að í framhaldi af þessu hafi verið ákveðið að tala við alla þá sem komu til greina á listann og að Sigurður Valur og Guðjón hafi strax sagt já, en Ellert hafi ekki viljað gefa kost á sér: „Fyrst að þeir á annað borð samþykktu að setja nafn sitt í pottinn þá áttu þeir að segja sig úr nefndinni en Sigurður Valur lét kjósa um sig í fyrsta sætið, sitjandi á fundinum. Þetta sýnir að þessi vinnubrögð voru ólýðræðisleg að hann hafi setið í nefndinni þegar verið var að kjósa um hann sjálfan á listann,“ segir Kristján og hann lýsir furðu sinni á því að kjörnefndin hafi sett nafn Guðjóns Hjörleifssonar fyrrverandi bæjarstjóra í Vestmannaeyjum á listann: „Guðjón sat í kjörnefndinni þangað til rétt fyrir fundinn og sagði sig úr nefndinni nokkrum klukkustundum áður en fundur hófst. Á þessum tímapunkti var nefndin búin að starfa í einn og hálfan mánuð, en þetta gerðist um miðjan nóvember. Að mínu mati er það algjörlega siðlaust að Guðjón hafi setið í nefndinni allan þennan tíma, tryggt sér þriðja sætið og sagt sig úr nefndinni nokkrum klukkustundum áður en fundur hófst. Dæmi hver sem vill, en ég tel þetta algerlega siðlaust.“

Mjög ósáttur við störf formanns fulltrúaráðsins
Kristján segir að margar kjaftasögur hafi komið upp síðustu daga um það af hverju hann væri ekki á listanum. Kristján segist ekki átta sig á því: „Ég hef ekki fengið neinar skýringar á því af hverju ég var ekki á listanum, en var sagt að það væri vegna þess að ég nyti ekki fylgis. En annað hefur nú komið á daginn. Það var einnig sagt að ég nyti ekki trausts forystunnar, en annað hefur komið á daginn. Það er fáheyrt að sitjandi þingmanni sé hent út af lista með þessum hætti. Það voru skilaboð í gangi um að það ætti ekki að breyta neinu í tillögum kjörnefndar, enda sést það á niðurstöðunni að tillaga kjörnefndar er samþykkt óbreytt. Árni Ingi Stefánsson formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ hefur unnið leynt og ljóst á móti mér og reynt að rýra nafn mitt innan kjörnefndarinnar. Mér finnst mjög sorglegt að fylgjast með því hvernig hann hefur unnið og ég tel það honum til minnkunar. Ég hélt að á þessum vettvangi ættu félagar að standa saman en ekki vinna gegn hvor öðrum. Ég hef aldrei skilið almennilega hvernig menn geta fengið sig til þess að vinna eins og hann gerði,“ segir Kristján og það er greinilegt að þetta tekur á hann.

Á fundi kjördæmisráðsins var uppi mikil barátta á milli stuðningsmanna Kristjáns og stuðningsmanna kjörnefndarinnar. Kristján segir að hann hafi gert sér grein fyrir því að mjög erfitt yrði að fá tillögu kjörnefndar breytt: „Frá upphafi var okkur það ljóst að mjög erfitt yrði að hnekkja tillögu kjörnefndar og nánast ómögulegt. En við gerðum tilraun til að brjóta upp tillögu nefndarinnar og setja Sunnlending á móti Vestmannaeyingi um þriðja sætið. Auðvitað hefði verið jafn eðlilegt að óska eftir fyrsta og öðru sæti, eins og fjórða sætinu. En þetta var heiðarleg tilraun af okkar hálfu til að breyta þessu og reyna að gera það innan fundarins og það munaði ekki nema tíu atkvæðum að það tækist. Aðrar atkvæðagreiðslur voru í raun óþarfar, en tillagan var lögð fram í þessum tilgangi að reyna að brjóta upp tillögu kjörnefndar. Ef það hefði tekist með þessum hætti hefði ég fallið sjálfkrafa niður í fjórða sæti. Ef við hefðum fengið 6 atkvæði til viðbótar þá hefðum við hrundið tillögunni og þessi árangur sýnir að mikil óánægja var með þessa tillögu kjörnefndar,“ segir Kristján.

Erfið barátta á fundinum
Kristján segir að hann hafi ekki hugsað sér að fara út í sérframboð en tekur fram að ekkert sé ómögulegt eftir svona uppákomu: „Mínir stuðningsmenn eru náttúrulega mjög óánægðir með þetta og auðvitað margar skoðanir á því hvað við ættum að gera. En það er ljóst að allt sem gert yrði þarf þá að skoða mjög gaumgæfilega. Við höfum svosem ekki útilokað neitt og ég hef lýst því yfir að sérframboð yrði mjög erfitt. Það eru mjög margir sem hafa minnst á sérframboð við mig en ég hef nú alltaf sagt að það sé ekki mikil framtíð í því, en við höfum ekki tekið neina afstöðu með eða á móti því og mér finnst ekki tímabært að ræða það neitt frekar.“

Þegar Kristján er spurður að því af hverju hann telji að Árni Ragnar hafi verið tekinn fram yfir hann segir Kristján að hann hafi enga skýringu á því: „Það er augljóst að hans menn inn í kjörnefndinni hafa augljóslega verið mun háværari í nefndinni. Ég átti mjög góða stuðningsmenn inn í kjörnefndinni, en þegar formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ leyfir sér að vinna leynt og ljóst gegn mér í fulltrúaráðinu, þá hefur það augljóslega áhrif inn í kjörnefndina. Það er bara augljóst og það er mjög einkennilegt og í hæsta máta furðulegt að formaðurinn hafi leyft sér að vinna svona þar sem hann hafði ekkert umboð til þess að gera upp á milli þingmanna, hvorki frá stjórn fulltrúarráðsins né frá fulltrúaráðinu sjálfu. Þetta er mjög ámælisvert og óskiljanlegt. Ég kannast ekki við að hafa gert neitt á hlut þessara manna, nema síður sé, því ég hef reynt að greiða götu þeirra.“

Fjallað verði um málið hjá miðstjórn
Um árabil hefur Kristján tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins og hann telur að þetta mál eigi að útkljá innan flokksins í þeim stofnunum sem um slík mál fjalla. Kristján segir einnig að hann geri ráð fyrir því að stofnanir innan flokksins í Reykjanesbæ, eins og fulltrúaráðið muni fjalla um óeðlileg störf formanns fulltrúaráðsins: „Það má segja að þessi vinnubrögð sem ég var að lýsa fyrir þér áðan þar sem að kjörnefndarmennirnir kjósa um sjálfan sig á uppstillingarlista séu siðlaus. Það þarf að taka á því máli og það þurfa forystumenn flokksins að gera. Þessir aðilar sem sitja í kjörnefndinni og létu kjósa um sjálfa sig hafa brugðist trausti og misnotað aðstöðu sína. Formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ þarf einnig að standa fyrir sínu máli. Mál eins og þessi eiga að ræðast innan flokksins og ég er að athuga það að senda formlegt erindi til miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins vegna þessara mála.“

Kristján telur að þessi uppákoma hafi skaðað flokkinn og hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn verði að ná góðri kosningu næsta vor til að halda sínum hlut í kjördæminu: „Það eru náttúrulega 5 mánuðir til kosninga og það getur margt gerst á þessum tíma. Það eru margir óánægðir með þessa útkomu á fundi kjördæmisráðsins og það er bara spurning hvort þetta jafni sig fyrir kosningar. Ég tel ósköp litla möguleika á því að þessari niðurstöðu verði breytt.“

Framtíðin björt
Ljóst er að Kristján Pálsson kemur ekki til með að sitja á Alþingi Íslendinga næsta kjörtímabil, allavega ekki fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann er bjartsýnn þegar hann lítur til framtíðarinnar og segir að þó hann muni ekki sitja á alþingi næsta kjörtímabil, þá séu mörg spennandi tækifæri framundan: „Ég hef nú ekki ákveðið hvað ég fer að gera en tækifærin eru mýmörg í lífinu og það er bara spurning um að finna þau og grípa. Ég er við góða heilsu, á góða konu og góða fjölskyldu og einstakan hóp af góðum vinum á Suðurnesjum sem hafa stutt mig einarðlega í þessari baráttu minni fyrir þingsætinu. Borgarafundurinn í Stapa þar sem yfir 300 manns mættu líður mér aldrei úr minni og ég þakka fyrir þann stuðning sem ég fékk þar. Það var einstakt og ég minnist þess ekki að slíkur fundur hafi verið haldinn hér á Suðurnesjum,“ segir Kristján að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024