Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Örn Ævar afrekaði það sem besti kylfingur heims náði ekki - Vann Donald í holukeppni
Þriðjudagur 1. mars 2011 kl. 10:26

Örn Ævar afrekaði það sem besti kylfingur heims náði ekki - Vann Donald í holukeppni

Suðurnesjakylfingurinn Örn Ævar Hjartarson úr Gs hefur afrekað nokkuð sem besti kylfingur heims, Þjóðverjinn Martin Kaymer, hefur ekki náð að gera á sínum ferli, að vinna Englendinginn Luke Donald í holukeppni. Donald fór með sigur í Heimsmótinu í holukeppni sem lauk í Arizona í fyrradag eftir 3/2 sigur á Kaymer í úrslitaleik.

Það vita það eflaust ekki margir íslenskir golfáhugamenn en Örn Ævar lagði Donald af velli í Svíþjóð í Evrópumóti landsliða árið 2001. Donald var þá einn af bestu áhugamönnum heims en Örn Ævar hafði betur 1/0 á 18. holu. Okkar maður varð Íslandsmeistari sama ár í höggleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta er eitthvað sem ég á alltaf eftir að geta montað mig af. Þetta sannar allavega að ég gat eitthvað í golfi,“ sagði Örn Ævar í samtali við Kylfing.is og hló. „Hann var stjarna í háskólagolfinu á þessum tíma og ég vissi alveg hver þetta var. Þetta var góður leikur en ég hafði betur á 18. holunni. Donald er frábær kylfingur og hitti á frábæra viku.“

Donald er nú kominn upp í þriðja sæti á heimslistanum en að sögn Arnar var hann afar viðkunnanlegur þegar þeir léku saman fyrir áratug. „Hann var mjög rólegur og flottur strákur. Donald var alveg á jörðinni og það var hægt að spjalla við hann. Það voru engir stælar í honum og mjög viðkunnanlegur,“ sagði Örn Ævar.

Verður virkur á mótaröðinni í sumar

Örn Ævar varð síðast Íslandsmeistari í höggleik fyrir tíu árum og ætlar sér að vera virkur á mótaröðinni næsta sumar. Hann er byrjaður að æfa af krafti og vonast til að blanda sér í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn en leikið verður á heimavelli hans, Hólmsvelli í Leiru, í sumar.

„Ég er byrjaður að æfa og ætla að spila mikið í sumar. Það eru tíu ár síðan ég varð Íslandsmeistari og svo er Íslandsmótið á heimavelli. Það verður sett aukapúður í þetta í sumar.“

Á efstu myndinni þakkar Donald Suðurnesjakylfingnum fyrir leikinn en til hliðar er Englendingurinn að slá úr glompu á heimsmótinu um sl. helgi. Neðst er Örninn á 18. flötinni á Ljunghusens golfvellinum í Svíðþjóð fyrir tíu árum.

Fleiri golffréttir á www.kylfingur.is