Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Orkupakkar hækka raforkuverð
Laugardagur 24. ágúst 2019 kl. 07:55

Orkupakkar hækka raforkuverð

Árið 2003 var fyrsti orkupakki Evrópusambandsins innleiddur í íslenska löggjöf en með honum fylgdi sú krafa að aðskilja skyldi orkudreifingu frá orkuframleiðslu. Þetta var gert undir því yfirskyni að slík breyting myndi auka samkeppni á orkumarkaði, sem ætti að vera til hagsbóta fyrir neytendur. Raunin varð önnur og raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækkaði. 

Þegar orkuverð eftir þessa nýju löggjöf er rannsakað má sjá að þegar framleiðslan var aðskilin frá dreifingunni hækkaði orkuverð snögglega eða um 10%. Þessa hækkun má því beintengja við fyrsta orkupakkann og breytingar sem honum fylgdu. Í nýlegri skýrslu sérfræðinefndar Orkunnar okkar kemur fram að meðaltalshækkun á raforku frá 2003 er að raunvirði 7–8% þegar horft er á landið sem heild. Fjöldi landsmanna hefur hins vegar fundið á eigin skinni fyrir mun meiri hækkun á raforkuverði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú stendur Ísland frammi fyrir því að innleiða þriðja orkupakkann og enn á ný eru það neytendasjónarmið sem ríkisstjórnin otar að almenningi. Þegar borið er saman verð milli dýrustu og ódýrustu orkusölufyrirtækjanna kemur í ljós að sá afsláttur sem á að vera í boði, að sögn stjórnvalda, er svo lítill að ekki svarar kostnaði og fyrirhöfn að skipta um orkusala og er afslátturinn auk þess ekki nægur til að dekka þá kostnaðaraukningu sem fylgdi fyrsta orkupakkanum. Þetta hafa Neytendasamtökin staðfest. Þau neytendasjónarmið sem landsmönnum var lofað hafa því brugðist og því er undarlegt að sömu rök séu nú notuð aftur fyrir þriðja orkupakkann.

Sló þá þögn á þingmennina

Þeir sem hafa fundið einna mest fyrir hækkun á raforkuverði vegna innleiðingar orkupakka ESB er það fólk sem býr á köldum svæðum á Íslandi. Tveimur árum eftir að fyrsti orkupakkinn var innleiddur hafði raforkuverð til húshitunar á veitusvæði Hitaveitu Suðurnesja (nú HS Orku) hækkað á bilinu 74–96%. Þetta þekki ég af eigin raun, búandi á köldu svæði á Suðurnesjum. Ástæðan var sú að Hitaveitan niðurgreiddi sérstaklega raforku til húshitunar. Orkupakkinn stóð í vegi fyrir þessari niðurgreiðslu og var hún því felld niður. Maður spyr sig, hvað kom embættismönnum í Brussel það við að raforka hafi verið sérstaklega niðurgreidd til húshitunar hér á landi. Ég benti á þessa staðreynd í umræðu á Alþingi og var þá sakaður um að fara með rangt mál af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Ég brá þá á það ráð að sýna umræddum þingmönnum gamla raforkureikninga, fyrir og eftir innleiðingu orkupakka eitt, máli mínu til stuðnings. Sló þá þögn á þingmennina, en þeir báðust ekki afsökunar á orðum sínum. Þetta eitt og sér sýnir að þeir þingmenn sem styðja innleiðingu orkupakka ESB svífast einskis í málflutningi  sínum. Óskiljanlegt er hverra erinda þeir ganga á Alþingi og hvaða hagsmunir kunna að búa að baki. Búast má við enn meiri hækkun á orkuverði fari svo að þriðji orkupakkinn verði samþykktur og áform fjárfesta um sæstreng verði að veruleika.

Embættismenn í Brussel eiga ekki að ráða för í raforkumálum Íslendinga

Ríkisstjórnin er í fullkominni afneitun um slæmar afleiðingar af innleiðingu orkupakka ESB fyrir almenning og fyrirtækin í landinu. Íslendingar eiga ekkert sameiginlegt með orkumálum ESB og eiga að fara fram á undanþágu. Það er gert með því að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það er okkar samningbundni réttur og fullyrðingar ríkisstjórnarinnar um að þá verði EES-samningurinn í uppnámi er hræðsluáróður af verstu gerð. 

Í EES-samningnum segir að vísa beri ágreiningsmálum til nefndarinnar. Hvernig getur það verið ógn við EES-samninginn að það sé farið eftir honum? Enginn fræðimaður hefur getað svarað spurningunni hvernig það brýtur í bága við samninginn að visa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Íslendingar eru sjálfstæð þjóð í harðbýlu landi og eiga ekki að láta embættismenn í ESB ráða því hvernig við nýtum okkar mikilvægu raforkuauðlind eða verðleggjum hana. Atkvæðagreiðslan á Alþingi um þriðja orkupakkann fer fram 2. september n.k. Þá kemur í ljós hvaða þingmenn standa með þjóðinni.

Birgir Þórarinsson

Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.