Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Orkan og endurreisnin
Miðvikudagur 3. mars 2010 kl. 17:32

Orkan og endurreisnin

Í dag gerði ég að umtalsefni undir liðnum störf þingsins á Alþingi þau fjölmörgu verkefni í orkunýtingu sem nú eru að nálgast framkvæmdastig. Gangi þau eftir hefur það veruleg áhrif á atvinnustigið sem hækkar hratt og örugglega og aukið innstreymi gjaldeyris í landið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það sem hefur tafið framgang verkefnanna er að mestu óvissan um fjármögnun en vonir standa til að fyrir endann á því sjái nú innan skamms. Brýnt er að ná sem bestri samstöðu um þessi stóru verkefni en ný fjárfestingar í fjölbreyttri orkunýtingu liggja því til grundvallar að okkur takist að komast hratt út úr samdrætti inn í bata. Þeir fjölbreyttu möguleikar sem við eigum í orkunýtingu eru bæði sérstaða og tækifæri okkar út úr efnahagsþrengingunum.

Í nýlegri fréttatilkynningu frá iðnaðarráðuneyti er greint frá stöðu fjárfestingarverkefna sem tengd eru orkufrekum iðnaði og raforkukerfinu. Þar kemur fram að fjárfestingar sem tengjast orkufrekum iðnaði og raforkukerfinu eru áætlaðar samtals um 400 milljarðar til ársins 2017, þar af um 265 milljarðar í ár og næstu þrjú ár. Óvissa og erfiðar aðstæður til fjármögnunar hafa tafið ákvarðanir en samantekið er staða þessara verkefna eftirfarandi:


Bygging Búðarhálsvirkjunar og stækkun álversins í Straumsvík
Landvirkjun hefur nýlega tekið ákvörðun um að bjóða út undirbúningsframkvæmdir við Búðarhálsvirkjun. Kostnaðaráætlun vegna þessara framkvæmda er um 600-800 millj. kr. og gert er ráð fyrir 30-40 störfum við framkvæmdirnar. Viðræður standa yfir um sölu á orku frá Búðarhálsvirkjunar til stækkunnar á álverinu í Straumsvík.


Bygging álvers í Helguvík
Nokkur óvissa hefur ríkt um framgang Helguvíkurverkefnisins vegna orkuöflunar frá OR og HS orku. Því þarf að kanna kosti Landsvirkjunar til þess að koma að sölu á orku til Norðuráls með þá 40 MW umframorku sem til staðar er í kerfi þess.


Orkuverkefni á Norðurlandi
Iðnaðarráðherra hefur undirritað viljayfirlýsingu við þrjú sveitarfélög í Þingeyjarsýslu um aðgerðir til að stuðla að atvinnuuppbygginu sem byggir á nýtingu jarðvarma á svæðinu. Markmið þeirrar vinnu sem fara mun fram í samræmi við yfirlýsinguna miðar að því að skapa þær aðstæður fyrir 1. október 2010 að hægt verði að ganga til samninga um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í Þingeyjarsýslum. Verkefnisstjórn skipuð fulltrúum sveitarfélaga í Norðurþingeyjarsýslum, Landsvirkjunar og iðnaðarráðherra vinnur að framgangi verkefnisins.


Bygging gagnavers Verne Holding í Reykjanesbæ
Fjárfestingarsamningur og frumvarp til heimildarlaga vegna byggingar gagnavers Verne Holding ehf. er til umfjöllunar á Alþingi. Þá hefur náðst samkomulag um að stjórnvöld beiti sér fyrir því að meðferð virðisaukaskatt á tækjabúnaði til gagnavera á Íslandi verði sambærileg við það sem gildir innan Evrópusambandsins. Forsvarmenn Verne Holding eru bjartsýnir á að hægt verði að hefja rekstur í gagnaverinu á árinu 2010.


Greenstone
Greenstone vinnur enn að athugun á byggingu gagnavera hér á landi. Engin ákvörðun hefur þó verið tekin enn um það hvort og þá hvenær bygging gagnavers hefst.


Kísilmálm og sólarkísilmálmverksmiðja í Ölfusi
Orkuveita Reykjavíkur hefur nýlega undirritað samningsramma um orkusölu til kísilmálm- og sólarkísilmálvinnslu sem óformað er að reisa í Ölfusi. Um er að ræða sölu á 85 MW af raforku frá fyrirhugaðri Hverahlíðarvirkjunar en það yrði öll framleiðsla virkjunarinnar. Fjárfesting í virkjunni er áæltuð um 30 milljarðar kr. og í verksmiðjunni um 29 milljarðar kr. Á byggingartíma er gert ráð fyrir 350-400 ársverkum við verkefnið og að 160 manns starfi við verksmiðjunar fullbyggða. Stefnt er að því að ljúka samningum milli aðila á næstu mánuðum.

Ekki skortir verkefnin á teikniborðinu. Okkar er að koma þeim á framkvæmdastig svo fljótt sem verða má. Um þetta þarf að skapa breiða samstöðu enda skynsamleg nýting auðlindanna drifkrafturinn út úr vandanum.

Björgvin G. Sigurðsson,
1. þingmaður Suðurkjördæmis og formaður þingflokks Samfylkingarinnar.