Orgelið í Keflavíkurkirkju
Keflavíkurkirkja skipar sérstakan sess í sögu samfélagsins okkar hér Suður með sjó. Hún hefur mótað umgjörðina um stærstu stundir einstaklinga í bænum allt frá vöggu til grafar. Á hverjum degi leggja margir leið sína í kirkjuna og á helgidögum er hver bekkur setinn í kirkjuskipinu. Þá er kór kirkjunnar einstakur í sinni röð. Fjöldi þeirra sem syngja í kórnum fer vaxandi og fer hann að nálgast sjöunda tuginn. Hafa flestir til að bera einhverja grunnþekkingu í tónlist. Kór þessi syngur einkum við guðsþjónustur og útfarir. Hið síðarnefnda er afar mikilvægt enda viljum við búa samferðafólki okkar góða og verðuga kveðjustund.
Einu er þó ábótavant í þessum helgidómi. Orgelið í kirkjunni er orðið afar bágborið og er brýnt að gera þar bætur á.
Orgelsjóður kirkjunnar er illu heilli fremur rýr og er mikil þörf á því að bæta þar úr. Með samstilltu átaki ætti að vera unnt að efla hann og safna nægilegu fjármagni til þess að geta endurnýjað þetta hljóðfæri. Myndi það hafa mikil áhrif á þá þjónustu sem við viljum veita í kirkjunni, íbúum hér í samfélaginu til gleði og styrkingar.
Nú fer aðventan í hönd og mun kórinn leggja mikla vinnu á sig til þess að gera dagskrá kirkjunnar hátíðlega á þeim helga tíma. Öll sú vinna er unnin í sjálfboðinni þjónustu. Fyrsta kvöldið er jólasveifla í kirkjunni, með léttri tónlist. Karlakórinn syngur annan sunnudag í aðventu og þann þriðja fáum við góða gesti úr Holtaskóla. Af þessu tilefni verður safnað framlögum í orgelsjóðinn og hvetjum við fólk til þess að leggja sitt af mörkum til þessa verðuga málefnis.
Tekið verður við frjálsum framlögum í fjölskylduguðsþjónustum og aðventukvöldum í anddyri Keflavíkurkirkju á aðventunni.
Einnig er hægt að gefa leggja framlag á styrktarreikning orgelsjóðsins. Reikningsnúmer 0121-15-350005. Kt. 680169-5789.
Með aðventukveðju
Arnór B. Vilbergsson organisti
Skúli S. Ólafsson sóknarprestur