Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Opið svar við bréfi Særúnar
Þriðjudagur 25. mars 2014 kl. 09:34

Opið svar við bréfi Særúnar

Sæl Særún Rósa og takk fyrir bréfið.

Ósköp er ég feginn að hafa fengið spurningar á þessum vettvangi (Víkurfréttum) í stað orðahnippinga á fésbókinni eins og sumum hefur verið tamt síðustu daga eftir fréttaflutning DV af málum Leiðarenda sem ég var helmings eigandi að. Ég get þá líka svarað á sama stað og vonast til að þar með geti umræðu lokið um þetta mál.

Þér finnst að almenningur fái lítil færi í samskiptum sínum við bankana á meðan aðrir fái afskriftir upp á háar fjárhæðir. Afskriftir er nokkuð gildishlaðið orð og mikilvægt að átta sig á hvað býr þar á bak við.

Fyrirtækið Leiðarendi ehf. sem hér um ræðir var stofnað árið 2000 af mér og vini mínum og samstarfsaðila til margra ára, Sigurði Vigni Ragnarssyni. Félagið byggði og keypti fasteignir og leigði út eða seldi. Félagið gekk afar vel fyrstu árin og átti orðið nokkuð gott eignarsafn í ársbyrjun 2007. Eignir umfram skuldir (eign hluthafanna) voru á þeim tíma rúmlega 60 milljónir króna. Eins og allir vita fóru lán og afborganir ört hækkandi á árinu 2007-8 og í kjölfarið fylgdi svo mestu efnahagshamfarir sögunnar þegar bankakerfið féll. Lán héldu áfram að hækka, eignir hríðféllu í verði, sölumarkaðurinn fraus og leigutekjur stóðu engan vegin undir afborgunum. Félög sem áttu margar fasteignir og skulduðu þar með háar fjárhæðir féllu eins og spilaborg um allt land. Leiðarendi, líkt og hundruðir annarra fasteigna- og byggingarfyrirtækja, laut í lægra haldi fyrir kreppunni.

Líkt og hjá einstaklingum sem ekki geta staðið undir afborgunum sínum og missa eignir sínar til bankans, eins og þú lýsir í grein þinni, tók Landsbankinn með sama hætti yfir allar eignir félagsins. Eigendur félagsins töpuðu öllu sem þeir áttu í félaginu, bankinn yfirtók eignirnar en skuldirnar stóðu eftir. Aðferðarfræðin er því ekki svo ólík, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki. Það er sú afskrift sem um er að ræða. Hún snýr ekki að mér sem einstaklingi heldur eru eftirstöðvar lána við uppgjör fyrirtækis. Persónulega hef ég aldrei fengið neitt afskrifað eins og margir virðast halda.

Ég hvorki sé eftir né skammast mín fyrir þátttöku mína í atvinnulífinu. Félagið skapaði fjölmörgum verktökum atvinnu á meðan vel gekk og er það vel. Bankinn hagnaðist ennfremur vel á viðskiptum sínum við fyrirtækið í mörg ár, ákvað að fjármagna þau verkefni sem félagið framkvæmdi en þegar aðstæður breyttust og markaðurinn hrundi tók bankinn yfir eignir og sat jafnframt uppi með þær skuldir sem þá voru í félaginu. Ekkert í félaginu var framkvæmt eða gert án þess að það væri með fullri vitneskju eða vitund þess sem átti mestu hagsmuna að gæta, þ.e. bankans.

Ég vona að ég nái að svara einhverjum af spurningum þínum, Særún, en með þessari grein er lokið af minni hálfu umfjöllun um mál Leiðarenda. Ég vona að bæjarstjórnarkosningar sem framundan eru geti snúist um málefni bæjarfélagsins og þau verk sem við erum að vinna sem bæjarfulltrúar. Þar skulum við fjalla um árangur í skólamálum, umhverfisumbætur, uppbyggingu öldrunarþjónustu, Hljómahöllina, fjölgun íbúa, almenningssamgöngur, íþrótta- og æskulýðsmál og svo mætti áfram telja. Það er sú umræða sem þarf að eiga sér stað fyrir kosningar.

Með bestu kveðju
Böðvar Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024