Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Opið bréf til kjósenda á Suðurnesjum
Miðvikudagur 2. janúar 2013 kl. 09:57

Opið bréf til kjósenda á Suðurnesjum

Mútubrigsl forseta bæjarstjórnar í Vogum

Fyrir rúmum mánuði var afstöðu bæjarstjórnar sveitarfélagsins Voga breytt frá því að hafna loftlínum um land sveitarfélagsins í að heimila línulagnir. Ég sem forseti bæjarstjórnar og bæjarfulltrúi greiddi atkvæði gegn stefnubreytingunni. Í útvarpsviðtali skömmu síðar var ég spurð hvers vegna tveir bæjarfulltrúar meirihlutans hefðu skipt um skoðun, hvort mútur hefðu verið boðnar. Ég svaraði því að í okkar hópi hefði verið rætt um mútur eða mótvægisaðgerðir og fyrir því hefði ég heimildir. Landsnet hefði þó hafnað því að hægt væri að kalla greiðslurnar mútur.

Minnihluti bæjarstjórnar Voga  hefur gert málið að umfjöllunarefni á bæjarstjórnarfundi og á vef Víkurfrétta. Á bæjarstjórnarfundinum var málið tengt framgöngu þingmanna VG og þingframboði mínu og að öllum líkindum er markmiðið með því að gera mig ótrúverðuga í hugum kjósenda. Ég hef því ákveðið að skýra opinberlega frá minni hlið á málinu.

Að kvöldi þess dags sem viðtalið var sent út hringdi oddviti minnihlutans í mig. Hann taldi að málið hefði skaðað trúverðugleika bæjarfulltrúa,  því margir litu svo á að bæjarfulltrúar hefðu persónulega hagnast á samskiptum sveitarfélagsins við Landsnet. Hann krafðist þess að ég bæðist afsökunar og kæmi því á framfæri með skýrum hætti að ég teldi ekki að bæjarfulltrúar hefðu persónulega hagnast á mótvægisaðgerðunum. Daginn eftir varð ég við þeirri kröfu, sendi frá mér afsökunarbeiðni og taldi að þar með væri málið úr sögunni.

Skömmu síðar kemur fram í opnu bréfi til mín frá fulltrúum minnihlutans á vef Víkurfrétta að afsökunarbeiðnin væri ekki fullnægjandi. Í bréfinu er vísað í tölvupóst milli sveitarfélagsins og Landsnets sem staðfesti að Landsnet hafi fallist á að greiða reiðstíga í sveitarfélaginu. Í bréfinu er fullyrt að ég hafi vitað af því samkomulagi. Það er alls kostar rangt. Ég þráspurði á síðasta kjörtímabili hvort aukagreiðslur hefðu verið boðnar vegna línanna en því var alltaf neitað. Um tölvupóstsamskipti við Landsnet í september 2011 vissi ég ekki. Ég heyrði fyrst af greiðslunum í október 2011 þegar stefnubreyting í línumálinu var kynnt og þá var mér sagt að greiðslan fyrir reiðstíginn yrði ekki í boði ef raflínur yrðu lagðar í jörð. Á árinu 2012 fékk ég upplýsingar um tölvupóstinn frá núverandi bæjarstjóra og tölvupósturinn var síðan umræðuefni á fundi meirihlutans í nóvember. Á þeim fundi gerði ég samstarfsmönnum mínum ljóst að ég hefði ekki tekið þátt í neinum umræðum um mótvægisaðgerðir Landsnets, hefði ekki samþykkt greiðslurnar og myndi ekki samþykkja neinar greiðslur sem ekki væri hægt að ganga frá með formlegum hætti.

Ég hef, allt frá því ég hóf afskipti af stjórnmálum árið 2006, lagt áherslu á að koma heiðarlega fram og hafa allar staðreyndir mála uppi á borðinu. Ég veit að með því að draga fram allar hliðar mála er oft erfiðara að átta sig á þeim. Þá er líka auðveldara að gera mál tortryggileg og draga athyglina frá kjarna þeirra. Þess vegna hef ég alltaf - og mun alltaf vera tilbúin að skýra mitt sjónarmið og hvers vegna ég kýs að halda því fram. Ég trúi því að þannig megi efla traust á stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Það traust er okkur öllum nauðsynlegt.

Inga Sigrún Atladóttir, guðfræðingur og bæjarfulltrúi í Vogum.
Skipar 2. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024