Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 21. september 2001 kl. 09:15

Opið bréf til „fréttamanns” Víkurfrétta

Sæl Silja Dögg!

Ég ákvað að senda þér opið bréf. Oft hafa störf þín komið mér á óvart. Hingað til hef ég þó ekki skrifað þér vegna þess. Hins vegar undrast ég oft hve pólistísk skrif þín eru. Ég geri mér alveg grein fyrir því að afstaða okkar til sitjandi meirihluta er ólík, enda situr þú sem varamaður í nefnd fyrir meirihlutann. Ég átti hins vegar von á því að þú reyndir að láta skoðanir þínar ekki leiða þig í gönur í stari þínu sem fréttamaður.
Ég hef ekki gert mikið af því að gagnrýna þínar áherslur, en óneitanlega finnst mér veruleg slagsíða oft koma fram þegar fjallað er um umræður á fundum. Ófá eru dæmin um mál, þar sem ég hef jafnvel verið málshefjandi og tekið í framhaldi af því mikinn þátt í umræðu sem á síðum þíns blaðs er fjallað um í þeim dúr að flestir hafi sýnt málinu áhuga nema ég.

Tölvuvæðing bæjarfulltrúa
Þó ég hafi ekki gert mikið af því að gagnrýna þín vinnubrögð, hef ég bent þér á að mér finnist ekki gott þegar beinlínis er farið rangt með staðreyndir. Enn eitt dæmi um slíkt er að finna í síðustu Víkurfréttum. Þar er verið að fjalla um umræðu á bæjarstjórnarfundi. Á þeim fundi var m.a. rætt um nýtt byggðakort sem kemur illa út fyrir okkur sem hér búum. Þú tíundar hverjir hafi rætt um málið en lætur líta út eins og ég hafi ekki sýnt málinu neinn áhuga, heldur bara verið að leika mér með Ólafi Thordersen og Böðvari Jónsyni í „nýju tölvunni minni” á meðan. Hið rétta er að þegar menn voru með getgátur um hvað fælist í þessu nýja byggðakorti nýtti ég mér kosti þess að nýbúið er að tölvuvæða bæjarfulltrúana. Ekki bara mig heldur okkur alla. Ég fór inn á heimasíðu Byggðastofnunar og sótti þar fréttatilkynninguna um byggðakortið. Fékk svo orðið og gerði grein fyrir því hvað fælist í þessari fréttatilkynningu. Það er undursamlegt hvernig þessi nýja tækni getur eytt óvissu og vafaatriðum, ef maður bara kann að nýta hana. Þetta hefði ekki átt að fara fram hjá neinum, því ég tók tölvuna með mér í ræðupúltið til að geta lesið tilkynninguna. Ég get í sjálfu sér lítið kvartað yfir því að þú, kjósir ekki að greina frá þessu. Hinu hlít ég þó að kvarta undan að þú teljir lesendum blaðsins betur þjónað með því að skrifa skáldsögur í stað frétta. Eða hefur þú virkilega ekki gert þér grein fyrir því að það eru fleiri með tölvur á bæjarstjórnarfundum núorðið en ég? Ég undrast það líka, því þú hefur nú setið á allmörgum bæjarstjórnarfundum, að þú skulir ekki enn vera farin að gera þér grein fyrir sætaskipan á fundunum. Þannig er að ég, Ólafur og Böðvar sitjum alls ekki saman. Þó þú kjósir að segja lesendum að við höfum verið að ráfa á einhverjum „rauðum síðum Þjóðviljans”, stingandi saman nefjum og flissandi á meðan aðrir bæjarfulltrúar voru að ræða um byggðakortið.

Forvarnar- og æskulýðsfulltrúi Reykjanesbæjar
Ég ætla ekki að elta ólar við fleiri dæmi um svona rangfærslur en nota tækifærið til að nefna atriði sem þú hefur ekki séð ástæðu til að uppfræða lesendur þína um. Ef til vill er það vísbending um að þið í meirihlutanum eruð ekki mjög stolt af verkinu. Í sumar voru breytingar á skipuriti bæjarins afgreiddar strax eftir að bæjarstjórn var komin í sumarfrí. Í því fólst m.a. að sett var á laggirnar ný staða Forvarnar- og æskulýðsfulltrúa. Eldra starf forstöðumanns Vinnuskólans var sett inn sem einn hluti af starfssviði hins nýja Forvarnar- og æskulýðsfulltrúa. Þegar bæjarstjórn kom saman að nýju lögðum við bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar til að staðan yrði auglýst. Það var fellt af meirihlutanum. Síðar staðfesti meirihlutinn á bæjarráðsfundi ráðningu Ragnars Arnars Péturssonar í þessa stöðu.
Um þetta þagðir þú ágæti „fréttamaður”. Hins vegar gátu íbúar lesið um þetta ef þeir voru kaupendur Morgunblaðsins. Má ekki telja eðlilegt að greint sé frá því í staðarblöðum þegar ráðið er í jafn mikilvæga og þarfa stöðu eins og við erum vonandi sammála um að staða Forvarnar- og æskulýðsfulltrúa er?
Ég læt þetta duga í bili, í von um að það sem þú skrifar um bæjarstórnarfundi í framtíðinni eigi meiri tilvísun í raunveruleikann en síðustu skrif þín.

Kveðja Jóhann Geirdal
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024