Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Opið bréf til Böðvars Jónssonar og Landsbankans
Særún Rósa Ástþórsdóttir
Mánudagur 24. mars 2014 kl. 13:58

Opið bréf til Böðvars Jónssonar og Landsbankans

– Særún Rósa Ástþórsdóttir skrifar.

Kæri Böðvar og Landsbankafélagar.
Við lestur frétta undanfarna daga vaknaði hjá mér löngun til þess að skrifa ykkur bréf. Ég er með nokkrar spurningar sem mig langar að varpa til ykkar.  Ég óska skýringa á því hvers vegna banki allra landsmanna og í eigu ríkisins, getur afskrifað fleiri milljónir hjá félagi í eigu Böðvars, á meðan húseigendur í millistétt fá neitun á neitun ofan. Okkur er gert að greiða okkar skuldir, standa við ábyrgðir sem við höfum tekið og greiða að fullu, með engum afslætti. Þegar það gengur ekki neyðumst við til þess að flytja úr húsum okkar og finna einhverjar aðra leiðir. Það gildir ekki lengur að gott sé að eiga eigið húsnæði, sem einstaklingar græðum við ekkert á því en bankinn getur eignað sér 110% og ríghaldið í ábyrgð sem nemur 1% af því sem Böðvar og félagar fá afskrifað,  svo virðist eins og ekkert sé? Það er fjöldinn allur af fólki í þeirri ömurlegu stöðu sem hér er lýst, ég hef nýlega heyrt sögur af ráðþrota fólki sem skuldar hlægilega lágar upphæðir en fær neitun og engan séns. Upphæðirnar eru ekki nálægt því að ná mánaðarlaunum sumra sem fá afskriftarsénsinn.

Ég fæ það á tilfinninguna að það skipti afskaplega miklu máli hver það er sem biður, hvaða áhrif hann hefur í samfélaginu og kannski hverjum hann tengist? Það eiginlega blasir við, miðað við sögurnar. En ég vil ekki alhæfa eða gera upp einhverja sök á fólk og þess vegna nota ég þessi skrif sem mitt vopn, því ég hef hvorki völdin eða áhrifin innan kerfisins. Ég bið því vinsamlega um útskýringu, getið þið svarað fyrir þetta, og útskýrt fyrir mér þennan aðstöðumun sem við búum við hjá banka allra landsmanna?

Það sem ég hef lært og tileinkað mér úr jógafræðum og hugleiðslu hefur hingað til stoppað mig af að tjá mig opinberlega um þetta eða taka slaginn. Anda inn og anda út, láta ekki reiðina setjast að hjá mér. Þeir fá það sem þeim ber, karmað og allt það. En þessar aðferðir duga ekki lengur og ég hef áttað mig á því að þögnin mín er þeirra vopn. Á meðan ég þegi, geri ekkert og tek þessu ömurlega misrétti sem sjálfsögðum hlut mun þetta viðgangast um ókomna tíð. Áfram halda þeir völdum innan kerfisins og fá allt önnur tækifæri en við hin. Ég get ekki sætt mig við það, hvorki fyrir mig, mína fjölskyldu né allan þann fjölda sem nú stendur í þessum ömurlegu sporum.

Særún Rósa Ástþórsdóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024