Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Önnur kynslóð útsýnispalla við Gunnuhver
Miðvikudagur 30. júní 2010 kl. 11:30

Önnur kynslóð útsýnispalla við Gunnuhver

Nú þegar settir hafa verið upp 2 útsýnispallar á háhitasvæðinu á Reykjanesi við Gunnuhver langar mig að rifja upp þegar fyrsti pallurinn var gerður. Lítil söguleg upprifjun í máli og myndum.
 
Eina sólríka helgi seint í júlí 1995 smíðuðu 20 sjálfboðaliðar frá Sjálfboðaliðasamtökum um náttúruvernd öfluga brú og útsýnispall á þessu svæði. Undirstaðan voru 6 heilir rafmagnsstaurar sem þurfti fjölda manns til að rogast með út á hverasvæðið, eins og sjá má á myndinni. Einnig var gömlu borholuplani breytt í bílastæði, afmarkað með kaðalgirðingu og lagður malarstígur þar á milli.
 
Hópurinn gisti í tjöldum á grasflöt fast við hverasvæðið (sem nú er að breytast í leirpytti) og ráku þar eldhús og mataraðstöðu. Meðal veislufanga var holugrillað lambalæri og rúgbrauð sem auðvitað var bakað í hveraleirnum. FerðamálasamtökSuðurnesja kostuðu hráefnið í matinn en Grindavíkurbær lagði til efnið í pallinn og lánaði verkfæri. Sjálfboðaliðasamtökin undirbjuggu verkið að frumkvæði Jóhanns D, þáverandi formans ferðamálasamtakanna með aðstoð Jóns Sigurðssonar, tæknifræðings í Grindavík.
 
Þessi mannvirki dugðu vel í áratug, þar til Hitaveita Suðurnesja hóf boranir á svæðinu. Þá breyttist hverasvæðið og færðist í aukana svo hverir teygðu sig undir pallinn og það varð beinlínis hættulegt að koma þarna.
 
Vonandi fær nýja útsýnisaðstaðan að vera í friði fyrir náttúruöflunum og þeim sem þeim stýra, þ.e. Hitaveitunni.
 
Þorvaldur Örn Árnason,
félagi í Sjálfboðaliðasamtökum um náttúruvernd
(sjá, http://frontpage.simnet.is/sja.is/).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024