Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 3. júní 2002 kl. 09:39

Ónákvæmt orðaval Ellerts bæjarstjóra um MSS

Í júníhefti Tímarits Víkurfrétta er viðtal við Ellert Eiríksson, bæjarstjóra úr Keflavík og Reykjanesbæ síðastliðin 12 ár. Ellert fer víða í viðtalinu og víkur m.a. að einkalífi sínu og konu sinnar sem stundar fjarnám í hjúkrunarfæði við Háskólann á Akureyri hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Ellert segir að hann beri mikla virðingu fyrir allri þeirri fantalegu vinnu sem í náminu felist, en með námi konunnar “getur verið teygt á manni til þess ýtrasta t.d. þegar tækjakostur Miðstöðvar Símenntunar bilar í tíma og ótíma,” eins og hann kemst að orði. Ég efast ekki um heillyndi Ellerts í afstöðu hans til námsins og ekki hef ég reynt hann að neikvæðri afstöðu til Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, nema síður væri. Hins vegar eru ummæli bæjarstjórans fráfarandi þess eðlis að auðvelt er að draga þá ályktun, þegar þungavigtarmaður tekur til máls, að tækjakostur MSS sé í stöðugu ólagi, sem auðvitað er af og frá. Fjarnám á háskólastigi, eins og það hefur verið lagt upp hjá MSS er nýjung og á margan hátt frumkvöðlaverk sem aðrir velja að líta til. Slíkt brautryðjendastarf er sjaldnast hnökralaust, frekar en lífið sjálft og því hafa háskólanemarnir hjá MSS kynnst í sínu námi. Háskólanám er í eðli sínu krefjandi viðfangsefni og þegar við bætist ný og áður óþekkt aðferðafræði fjarkennslu reynir stundum á þolrif nemenda. Tækjabúnaður MSS er eins og best verður á kosið, en sama verður ekki sagt um gagnaflutningakerfið sem notast er við til að tengja saman fjarkennslustaðina. Stöðugt er þó unnið að endurbótum á því kerfi og það sem þótti gott í fyrra er úrelt í ár. Hjá MSS hefur vandamálum verið mætt með þeirri afstöðu að þau séu verkefni til að leysa en ekki til að býsnast yfir. Fjarnemendur MSS hafa í sérstöku bréfi til stjórnar MSS nú í vor, lýst ánægju með þá aðstöðu sem þeim er boðin, enda er hún hvergi betri fyrir fjarnámshópa. Þetta endurspeglast m.a. í þeirri staðreynd að brottfall frá fjarnámi er langtum minnst hjá MSS í samanburði við aðrar fjarkennslustöðvar og háskóla. En auðvitað má alltaf gera betur.
Aðstaða til fjarnáms MSS er að Skólavegi 1 í Keflavík. MSS leigir húsnæðið af Reykjanesbæ fyrir 1700 þúsund krónur á ári. MSS nýtur engra styrkja af sveitarfélaginu sérstaklega. Rekstrarkostnaður fjarnámsins er greiddur af ríkinu. Styrkur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum til MSS er kr. 2.7 milljónir í ár, eða um 10% af veltu MSS. Það er því hagnaður af rekstri MSS sem stendur undir aðstöðu til fjarnáms á háskólastigi í Reykjanesbæ og tekjuafgangur nýttur til tækjakaupa auk þess sem tíu fyrirtæki á Suðurnesjum gáfu MSS hluta af stofnkostnað tækja fyrir 2,5 milljónir. Eigið fé MSS var níu milljónir króna við síðustu áramót.
Fjarnámið um tækjakost MSS er þegar farið að skila þekkingu inn í atvinnulífið á Suðurnesjum, ekki síst til Reykjanesbæjar. Allir hjúkrunarfræðinemarnir níu luku prófum í vor og hefja nám á 3ja námsári í haust. 14 rekstrarfræðinemar eru skráðir á haustmisseri 2002 sem er 25% brottfall frá 2001 (en brottfall á landsvísu er yfir 50%) og 15 leikskólakennaranemar flytjast á annað ár í haust. MSS er þannig að skila Suðurnesjum 38 háskólanemum á 2. og 3ja námsár. Þetta gæti auðvitað ekki gerst ef “tækjakostur Miðstöðvar símenntunar bilar í tíma og ótíma” eins Ellert orðar hlutina. Orðaval bæjarstjórans, virðist mér frekar stafa af ónákvæmni hans en meðvitaðari meinfýsni, a.m.k. ætla ég að svo sé. Með þessu greinarkorni vildi ég taka af allan vafa um hið rétta í málinu, annað væri að setja óorð á MSS sem hún á ekki skilið. Það er unnið frumkvöðlastarf hjá MSS til að auka og bæta fjarnám á Íslandi til hagsbóta fyrir byggðir landsins og Suðurnesin sérstaklega. Það starf þarf að efla m.a. með aukinni aðkomu Reykjanesbæjar að verkefninu.

Skúli Thoroddsen, forstöðumaður MSS
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024