Öll trixin í bókinni
Það er greinilegt að A-lista fólk er komið í kosningaham og er það bara hressandi. Ljóst er að ekkert hræðast þeir meira en velgengni Árna Sigfússonar bæjarstjóra og setja nú allt kapp á að gera lítið úr honum og hans verkum. Í stað þess að taka á málum með málefnalegri afstöðu er dagskipunin sú að gera lítið úr manninum með rangfærslum og hræðsluáróðri. Þetta er vel þekkt úr pólitíkinni þegar menn hafa vondan málstað að verja. Gott dæmi um þetta er tilraun þeirra til að kalla kaupin á auðlindunum og HS Veitum, sem er samfélagslegi hluti hitaveitunnar, REI mál. Hér er annað hvort vísvitandi verið að blekkja fólk eða þá að þau hafa einfaldlega ekki gefið sér tíma til að setja sig inní málin. Í REI málinu var verið að taka Orkuveituna sem er í opinberri eigu og fara með hana í útrás, blanda saman opinberu fjármagni við einkarekstur. Með sölunni á HS Orku er einmitt verið að draga opinbert fé útúr áhætturekstrinum en jafnframt verið að fjárfesta í þeim hlutum sem eiga heima í opinberri eigu, þ.e. auðlindirnar og samfélagsþjónustunni.
Auk þess er verið að koma í veg fyrir það að Reykjanesbær þurfi að punga út fimm milljörðum til að tryggja álverinu í Helguvik orku. Álverið er langstærsta atvinnuverkefnið á landinu og ljóst að HS orka á fullt í fangi með að útvega orku til þess verkefnis næstu 60 árin. Það er einfaldlega snjallt hjá Reykjanesbæ að fara út úr virkjunum fyrir álver þegar þetta er tryggt og fá fyrir það mjög gott verð. Ég vil lýsa yfir ánægju með hvernig forsvarsmenn Reykjanesbæjar hafa haldið á þessu máli. Í miðri kreppu koma góðar fréttir fyrir okkur og það sem meira er: líklega er þetta fyrsta jákvæða fréttin um að erlent fjármagn sé að koma aftur inn í landið, þegar kanadískur jarðfræðingur með fyrirtækið Magma Energy kemur til samstarfs við Geysi Green Energy um virkjanir hér á Suðurnesjum. Spurning er bara hvernig mun ríkistjórnin þakka fyrir gjaldeyrisöflunina ?
Einar Bárðarson