Öll rök með því að flytja Landhelgisgæsluna til Keflavíkur
Björgunarmiðstöðin síst verr komin í Keflavík en í Skógarhlíðinni.
Brottför varnarliðsins frá Keflavík er óneitanlega högg fyrir atvinnulíf á Suðurnesjum en með skipulegum viðbrögðum og aðgerðum heimamanna hefur varnarbaráttan tekist vel. Auðvitað er langt í frá að öll vandamál séu leyst og enn er talsverður fjöldi fólks án atvinnu en frumkvæði og viðbrögð heimamanna hafa mildað mjög áhrifin og framsýni þeirra og drifkraftur gefa vonir um að nýta megi þessar miklu breytingar til sóknar og eflingar svæðisins til lengri tíma litið.
Alþjóðaflugvöllurinn miðpunkturinn
Með brotthvarfi varnarliðsins skapast vissulega tækifæri til sóknar og uppbyggingar. Alþjóðaflugvöllurinn er og verður í á svæðinu og því ýmsir möguleikar til sóknar á sviði flugþjónustu. Keflavíkurflugvöllur er inngangshliðið að Íslandi. Við innganginn þarf að vera öflugt eftirlit og öryggisstarfsemi. Tollgæsla, löggæsla, landamæraeftirlit og varnir í einhverju formi.
Aukið hlutverk Landhelgisgæslunnar
Við brotthvarf varnarliðsins er ljóst að Landhelgisgæslan mun fá aukið hlutverk, bæði á sviði löggæslu og björgunar. Þegar hefur flugfloti gæslunnar verið efldur og unnið er að endurnýjun skipakostsins. Hugmyndir hafa verið uppi um að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin en því miður hafa þær hugmyndir ekki enn hlotið nægan hljómgrunn ráðamanna.
Öll aðstaða til staðar
Á Keflavíkurflugvelli er til staðar öll aðstaða sem Landhelgisgæslan þarf á að halda. Flugskýli, skrifstofuhúsnæði, stjórnstöð og annað sem til þarf. Í Reykjanesbæ er einnig fyrirtaks hafnaraðstaða og varðskipin væru síður en svo verr staðsett þar en í Reykjavík.
Það mæla því öll rök með því að Landhelgisgæslan verði flutt á á Keflávíkurflugvöll.
Landhelgisgæslan þarf á flugskýlum að halda fyrir nýjan flugflota og það væri með öllu óverjandi að ætla að ráðast í byggingar á slíkum mannvirkjum í Reykjavík á sama tíma og hægt er að ganga að þeim reiðubúnum á Keflavíkurflugvelli.
Flytja Björgunarmiðstöðina til Keflavíkur
Dómsmálaráðherra hefur látið hafa eftir sér að ekki sé álitlegt að flytja Landhelgisgæsluna til Keflavíkurflugvallar þar sem hún sé nú komin undir þak Björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð í Reykjavík í samstarfi við aðra þá aðila er að elitar og björgunarstörfum koma. Þau rök að ekki sé hægt að færa Landhelgisgæsluna þess vegna halda vart og velta má fyrir sér hvort ekki er viturlegt að flytja allt batteríið úr skógarhlíðinni til Keflavíkurflugvallar. Án efa væri það örugglega eins vel komið þar eins og í Skógarhlíðinni í Reykjavík.
Ekki eftir neinu að bíða
Það er verk að vinna í þessum efnum. Það þarf að vinna fast og ákveðið að því að flytja höfuðstöðvar Landhelgisgæsluna til Keflavíkurflugvallar sem fyrst. Ekki er eftir neinu að bíða með að hefja undirbúning að því. Það væri vel við hæfi að flutningur Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvöll væri fyrsta skrefið í uppbyggingu nýrrar starfsemi á svæðinu. Dómsmálaráðherra á að taka af skarið í þessum efnum nú þegar og hefja þannig formlega nýja sókn til framtíðar á vallarsvæðinu.
Nýjan kraft í kjördæmið
Í prófkjöri Sjálfstæðismanna á laugardaginn býð ég mig fram í 3. – 5. sætið. Ég hef á ferðum mínum um kjördæmið fundið fyrir góðum stuðningi við framboð mitt. Margir telja nauðsynlegt að endurnýja að einhverju leyti framvarðasveit framboðslistans í kjördæminu. Fólk vill sjá nýjan kraft, áhuga og málafylgju til að vinna hagsmunamálum kjördæmisins brautargengi.
Ég er tilbúinn að taka þátt í því krefjandi verkefni. Vinna með fólkinu sem hér býr að nýrri sókn í Suðurkjördæmi. Því sækist ég eftir með stuðningi ykkar.
Grímur Gíslason