Ólafur Magnússon: Í góðri trú
Ólympíumót fatlaðra fer fram í Peking í Kína dagana 6.-17 september næstkomandi og munu fimm íslenskir keppendur reyna með sér á leikunum. Ljóst er að kostnaður Íþróttasambands fatlaðra við þátttökuna í mótinu er umtalsverður og því hefur rúmlega 3000 fyrirtækjum á Íslandi verið sent bréf „Í góðri trú.“
Nú þegar lokaundirbúningur stendur sem hæst langar íslensku keppendurna að leita eftir styrk frá þessum rúmlega 3000 fyrirtækjum að upphæð 5000,- kr. eða því sem nemur 1000,- kr. á hvern keppanda. Um leið og greitt er fyrir greiðsluseðilinn öðlast viðkomandi hlutdeild í afrekum þessa mikla íþróttafólks. Fatlaðir íslenskir íþróttamenn hafa á undanliðnum árum vakið aðdáun og eftirtekt vegna framgöngu sinnar á stórmótum erlendis.
Ólympíumótið í Kína er hið þrettánda síðan slíkt mót var fyrst haldið í Róm árið 1960. Til þess að öðlast þátttökurétt á Ólympíumóti fatlaðra þurfa keppendur að ná þeim lágmörkum sem tilskilin eru af hálfu mótshaldara. Einungis þeir íþróttamenn sem staðist hafa ströng alþjóðleg lágmörk öðlast þátttökurétt. Því keppir aðeins besta íþróttafólk heimsins úr röðum fatlaðra á Ólympíumótunum.
Þá er öllum þeim sem ekki fá greiðsluseðlana senda í pósti frjálst að leggja þessu öfluga íþróttafólki lið með frjálsum framlögum á neðangreindum reikningi.
Bankanr.
0313-26-4396
kt: 620579-0259
Í Peking gerum við okkar besta og treystum á stuðning þinn!
Virðingarfyllst,
Ólafur Magnússon
Aðalfararstjóri Ólympíuhóps fatlaðra