„Okkar ráðherra“
- Aðsend grein frá Unni G. Kristjánsdóttur
Löngum hefur verið eftirsótt að „eiga ráðherra“ það er að ráðherra í ríkisstjórn tilheyri byggðalaginu okkar. Við Suðurnesjamenn höfum misst ágæta ráðherra og núna er það Ragnheiður Elín Árnadóttir sem hættir í stjórnmálum. Hún hefur staðið með byggðalaginu okkar eftir bestu getu og örugglega látið gott af sér leiða okkur til hagsbóta. Um tíma áttum við annan ágætan ráðherra, Oddnýju Harðardóttur, sem líkt og Ragnheiður Elín kunni á öll mál hér á svæðinu og studdi mörg góð mál.
Í ríkisstjórn hverju sinni eru 7-11 ráðherrar og ekki þarf að reikna mikið til að sjá að líkur á að sami flokkur skipi tvo ráðherra úr sama kjördæmi eru einungis fyrir hendi í Reykjavíkurkjördæmunum. Í kosningunum sem verða nú í mánaðarlokin eru nokkrir Suðurnesjamenn og konur ofarlega á framboðslistum.
Páll Valur Björnsson er efstur á lista BF en líkur á að hann nái kjöri eru litlar. Silja Dögg Gunnarsdóttir er næst á eftir núverandi forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins á B-listanum. Hún verður varla ráðherra. Líkur á að 2. maður á lista Sjálfstæðisflokksins, Ásmundur Friðriksson verði ráðherra eru sömuleiðis mjög litlar. Enginn Suðurnesjamaður er ofarlega á lista Pírata og hjá Vg er Dagný Alda Steinsdóttir í fjórða sæti. Ég á ekki von á að Dögun eða flokkur fólksins nái manni á þing í Suðurkjördæmi.
Niðurstaðan af þessari skoðun á mögulegum ráðherra frá Suðurnesjum er því einföld, Oddný Harðardóttir er eini möguleikinn. Hún er formaður Samfylkingarinnar, hefur reynslu og verður ráðherra ef Samfylkingin sest í ríkisstjórn.
Ég hvet fólk til að fylkja sér um jafnaðarstefnuna og Oddnýju í komandi kosningum.
Unnur Kristjánsdóttir