Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Okkar auðlindir í okkar þágu
Föstudagur 17. júlí 2009 kl. 15:04

Okkar auðlindir í okkar þágu


Það er ekki oft sem stjórnmálamönnum er hampað fyrir góða hluti, sérstaklega ekki núna síðustu misserin.  Ástandið í þjóðfélaginu virðist vera komið á það stig að upphrópanir og niðrandi ummæli, án sýnilegs tilgangs virðast ganga fyrir málefnalegri umræðu.  Í umræðum um kaup Reykjanesbæjar á auðlindum í eigu HS Orku hefur aðalatriðið að mínu mati fallið í skuggann af fordómum og upphlaupum byggðum á misskilningi.  Á íbúafundi sem haldinn var síðastliðið mánudagskvöld var farið vel yfir málið og þar birtist önnur mynd en greina hefur mátt í fjölmiðlum.


Staðreynd málsins er sú að Reykjanesbær á einungis um þriðjungshlut í HS Orku.  Með því að kaupa auðlindirnar útúr fyrirtækinu og semja um að fyrirtækið greiði fyrir þær leigugjald er bærinn hinsvegar að tryggja að þær skapi bæjarbúum arð um ókomna tíð.  Ekki bara þegar vel gengur heldur á meðan þær eru nýttar.  Þannig er það tryggt að auðlindirnar munu ávallt verða virkjaðar í okkar þágu, en jafnframt að ekki verður braskað með þær, auðlindirnar veðsettar fyrir áhættufjárfestingum eða seldar til óviðkomandi aðila.  HS Orka mun vissulega halda áfram að virkja þær, en við íbúar Reykjanesbæjar munum njóta þess með beinum hætti í formi leigugjaldsins, og einnig óbeinum hætti því rafmagnsframleiðsla er jú forsenda þess að atvinnulífið blómstri. Ekki síst með tilkomu álvers í Helguvík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Nokkuð hefur verið rætt um þann  hluta þessara auðlinda sem eru í lögsögu Grindavíkurbæjar.  Á fundinum kom það skýrt fram að standi vilji Grindvíkinga til þess að kaupa auðlindir á sínu svæði er Reykjanesbær boðinn og búinn að ganga til slíkra samninga.  Einnig kom fram að ítrekað hefur verið reynt að fá Grindvíkinga til samninga við HS Orku um þetta mál. Ótti þeirra við eignarhald Reykjanesbæjar er því ástæðulaus.   


Það er hins vegar full ástæða til þess að hrósa bæjarfulltrúum Reykjanesbæjar fyrir þá framsýni sem þeir sýna með þessum samningum sem nú eru til umræðu.  Bæði hvað varðar kaupin á auðlindunum sem og að ná svo góðum samningum um kaup á gömlu góðu hitaveitunni, HS Veitum og háu verði fyrir hlutinn í HS Orku.   

Sigurgestur Guðlaugsson.