Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

 Ögrandi tímar
Föstudagur 6. maí 2011 kl. 11:05

Ögrandi tímar

Óhætt er að segja að við lifum ögrandi tíma. Erfiða um margt en klárlega tímabil breytinga og mikilla sviptinga í sögu heimsins og landsins okkar.

Þrot blindrar markaðshyggju á kostnað félagslegra sjónarmiða var vissulega þungt fyrir flesta og heimsbyggðin sýpur enn hveljur vegna efnahagshamfaranna nema kannski Norðurlöndin utan Íslands. Hin varfæru velferðarsamfélög í Skandinavíu sem hafa verið byggð upp og varin af frjálslyndum og félagslegum öflum í meira en öld stóðu best af sér storma hamfaranna. Einfaldlega af því að þau tóku ekki þátt í kappinu sem hófst með „uppreisn frjálshyggjunnar“ fyrir rúmlega þrjátíu árum víða um Vesturlönd og náði hæsta fluginu hérlendis eftir aldamótin 2000 með holskeflu einkavæðingar.

Verkefnið er að læra af því sem úrskeiðs fór. Byggja upp manneskjulegt þjóðfélag á grundvelli jöfnuðar og félagslegra sjónarmiða. Ár breytinga og uppbyggingar eru líka ár átaka og árekstra líkt og við merkjum daglega í miskunnarlausri stjórnmálaumræðu dagsins.

Við megum ekki láta átökin og deilurnar bera okkur af leið heldur varða veginn til framtíðar með málefnalegum hætti. Næstu vikurnar ætlum við þingmenn Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi að standa fyrir 10 opnum fundum um allt kjördæmið. Við byrjum á Hornafirði miðvikudaginn 4. maí og endum í Reykjanesbæ rúmlega þremur vikum síðar með fundum m.a. í Vestmannaeyjum, Grindavík og Garðinum. Þannig þræðum við okkur enda á milli í þessu mikla og víðfema kjördæmi til þess í annan stað að kynna okkar viðhorf og baráttumál en ekki síður til að hlusta á fólkið í kjördæmi á þessum markverðu tímum.

Ég hvet alla áhugsama til þess að mæta á fundina. Óháð skoðunum og flokkum. Allir eru velkomnir. Við munum auglýsa fundina í héraðsfréttablöðum og á netinu næstu vikurnar og vonumst við þingmennirnir þrír eftir því að sjá ykkur sem flest í fundaröð okkar í maí. Allt er undir og til umræðu; breytingar á kvótakerfinu, umsókn um aðild að ESB, orkunýting og atvinnusköpun, fjárfestingar í menntakerfinu, nauðsynlegar breytingar í velferðarþjónustu og allt hitt sem á brennur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Björgvin G. Sigurðsson,
1. þingmaður Suðurkjördæmis.