Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Og sjá við boðum yður mikinn fögnuð
Mánudagur 13. desember 2010 kl. 13:16

Og sjá við boðum yður mikinn fögnuð

- Hagnaður bæjarsjóðs á næsta ári 100 milljónir króna

Rekstur sveitarfélaga er flókið mál og mörg eru lögin og reglugerðirnar sem að þeim snúa er ákvarðanir taka. Þannig er það einnig með fjárhagáætlun bæjarins. „Afgreiðsla sveitarstjórnar á fjárhagsáætlun þýðir að með henni er tekin formleg ákvörðun um ráðstöfun fjárheimilda á árinu“. segir á heimasíðu Sambands Íslenskra Sveitarfélaga.... þar segir einnig “ef auka skal útgjöld miðað við samþykkta fjárhagsáætlun þá skal liggja ljóst fyrir fyrir hvernig þau verða fjármögnuð“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Það er þannig augljóst að ábyrgð sveitarstjórnarmanna er mikil þegar kemur að framlagningu fjárhagsáætlana. Þar er ekki um óútfylltan getraunaseðil að ræða þar sem leikmannaval og ástand leikvallar getur ráðið úrslitum. Fjárhagsáætlunin verður að taka mið að þeim raunveruleika sem við blasir.


Fjárhagsáætlun meirihluta sjálfstæðismann er nú komin fram. Og sjá þeir boða oss mikinn fögnuð ...hagnaður bæjarins á næsta ári er áætlaður rúmlega 100 milljónir króna. Einkenni fjárhagsáætlana meirihluta sjálfstæðismanna undanfarin ár hefur aðeins verið eitt. Þær hafa aldrei staðist. Og lítil ástæða til þess að álykta að sú sem nú er komin fram standist eitthvað frekar. Til þess eru of mörg mál ófrágengin og óljós. Í henni er ekki gert ráð fyrir hvorki því óvænta, né fyrirséða.


Skuldir hafnarinnar eru á borði lánadrottnanna, óljóst er um niðurstöðu í málefnum Fasteignar , ekkert hefur heyrst frá þýska bankanum sem á gjaldfallna skuld upp á rúma tvo milljarða, Fasteignir Reykjanesbæjar eiga við rekstarvanda að glíma, Kalka og þannig mætti lengi áfram telja. Með allt þetta vofandi yfir sér velja „Vitringar“ meirihlutans að bjóða bæjarbúum upp á enn eina flugferðina fullir bjartsýniskasts um að menn gleymi raunveruleikanum um stund. Og afgreiði fjárhagsáætlun þeirra í sönnum jólaanda. Án umræðu . Stemmningunni má ekki raska.


Ljóst má vera að sú fjárhagsáætlun sem „Vitringarnir“ hafa nú lagt fram gerir ráð fyrir gríðarlegum niðurskurði á nánast allri þjónustu bæjarins sem ekki er lögboðin. Sá niðurskurður er jólagjöf meirihluta sjálfstæðismanna til bæjarbúa í ár. Ábyrgðin er þeirra. Sú staða sem nú er uppi er tilkomin sökum þess að ekki hefur mátt hlusta á varnaraðarrorð minnihlutans undanfarin ár. Minnihluta sem stöðugt hefur sagt að hér væri of bratt farið.


Því miður og þrátt fyrir gríðarlegan niðurskurð á sú fjárhagsáætlun sem nú hefur verið lögð fram lítið skylt við þann raunveruleika sem við stöndum frammi fyrir. Hún er eingöngu tilraun meirihlutans til þess að komast hjá því tímabundið að leita eftir þeirri hjálp sem nauðsynleg er. Við skulum vona að þeir átti sig fyrr heldur en síðar. Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann, við getum ekki tekið einn túr til. Til þess er heilsan orðin of slæm.


Með góðri kveðju
Hannes Friðriksson