Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Öflugt, sjálfstætt ungt fólk
Föstudagur 12. maí 2006 kl. 10:58

Öflugt, sjálfstætt ungt fólk

Kunningi minn, Steinþór Geirdal, sem skipar 17. sæti A-listans, sem er sambræðingur Framsóknarflokks og Samfylkingar, skrifar grein sem birtist á heimasíðu Víkurfrétta nú nýverið. Þar fer Steinþór mikinn og ræðir fyrst um áhugasleysi unga fólksins á bæjarmálum og setur meiningu sína fram í eins konar spjallformi. Ég tel mig knúinn sem fyrrverandi formann Heimis félags ungra Sjálfstæðismanna að svara Stenþóri því aðrar eins rangfærslur hef ég ekki séð síðan ég las síðustu grein frá A-lista mönnum. Það má vel vera að Steinþór eigi erfitt með að finna ungt fólk sem hefur áhuga á því að taka þátt í starfi A-listans og sýna áhuga á því sem þar er í boði. En við hjá Sjálfstæðisflokknum eigum alls ekki við sama vandamál að stríða. Hjá okkur hefur mikill fjöldi ungs fólks starfað og tekið þátt í stjórnmálum í Reykjanesbæ undanfarin ár og hefur það borið við í stjórn Heimis að mikil barátta hefur verið um stjórnarsæti og sýnir það glögglega vilja unga fóksins til þess að láta að sér kveða. Ég vísa því á bug að ungt fólk hugsi ekki um framtíðina og því sé alveg sama um hver stjórni bænum. Það sýndi sig í síðustu kosningum hversu öflugir og sjálfstæðir ungir kjósendur eru og miðað við þau skemmtikvöld sem haldin hafa verið sem af er kosningabáráttunni er hópurinn enn stærri nú. Það er nefnilega þannig að ungt fólk í Reykjanesbæ er almennt vel upplýst og veit nákvæmlega hversu mikilvægt það er að búa að sterkri stjórn bæjarins.

Orð í efndir
Fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar gáfu Sjálfstæðismenn, með Árna Sigfússon bæjarstjóra í fararbroddi út stefnuskrá. í henni var farið yfir þau málefni sem flokkurinn ætlaði að beita sér fyrir, fengi hann traust kjósenda til þess. Allt sem í stefnuskránni stóð tengdist á einn eða anna hátt ungu fólki og óþarfi að fara að telja upp öll þau framfara mál sem þar stóðu enda flest þeirra nú orðin að veruleika, bænum og bæjarbúum til heilla. Framkvæmdir s.s endurnýjun Hafnagötu, frístundaskóli, nýr skóli í Innri-Njarðvík, innisundlaug, ný íþróttasvæði og fleiri mál sem hefur verið hrint í framkvæmd eða eru í vinnslu, kosta fjármagn. Það var loforð Sjálfstæðismanna að færa orð í efndir og það höfum við gert með miklum myndaskap á kjörtímabilinu. Það að færa orð í efndir var loforð flokksins til kjósenda um það að láta stefnuskrána verða að veruleik. Ég furða ég mig á því að A-listinn hafi ákveðið að gefa út stefnuskrá í ljósi þess harmakveins sem hjómað hefur frá A-listamönnum gagnvart framkvæmdum meirihlutans. Ég taldi víst að hún yrði auð, vegna þess að A-listinn talar um hversu slæm fjárhagstaðan er hjá Reykjanesbæ sem er fásinna. Samkvæmt þeirra málflutningi ætti ekki að vera svigrúm til nokkurra framkvæmda, síst af öllu lækkunar á gjöldu íbúa. Yfir 850 manns hafa fluttst til bæjarins á kjörtímabilinu og er það mikið fagnaðarefni. Fólk flytur til Reykjanesbæjar því hér er gott að búa. Hér hefur verið lyft grettistaki í umhverfismálum, skólamálum, skipulagsmálum, félagsmálum, tómstundamálum, og svo má lengi telja. Reykjanesbær er valkostur þeirra sem vilja lifa og njóta í góðu samfélagi.

Bæjarbúar treysta Árna Sigfússyni
Í nýlegri skoðanakönnun kemur fram að 77% bæjarbúa vilja sjá Árna Sigfússon áfram sem bæjarstjóra í Reykjanesbæ. Árni leggur nú verk sín og meirihlutans í dóm kjósenda 27.maí. Það er mín von að kjörsókn verði með besta móti svo tryggt sé að vilji sem flestra bæjarbúa komi í ljós. Árni Sigfússon er traustur maður. Honum er ekkert í okkar samfélagi óviðkomandi og hefur undanfarin fjögur ár unnið af festu og áræðni. Framundan eru mörg verkefni á ýmsum sviðum bæjarins og brýnt að halda áfram á réttri leið. Leið framfara með styrkri stjórn í ört vaxandi bæjarfélagi.

Jóhann Friðrik Friðriksson
Sjálfstæðismaður og íbúi í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024