Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Oddný er Suðurnesjamönnum dýrmæt! X-S
Föstudagur 26. apríl 2013 kl. 10:11

Oddný er Suðurnesjamönnum dýrmæt! X-S

Með störfum sínum á Alþingi, sem ráðherra og áður sem bæjarstjóri í Garðinum hefur Oddný G. Harðardóttir sýnt að þar fer vandaður stjórnmálamaður sem setur mál sitt fram af festu og án upphrópana, sem er annars leiður plagsíður margra annarra stjórnmálamanna.

Hún er sannur jafnaðarmaður sem berst fyrir jöfnuði og leggur áherslu á félagslegar lausnir til jöfnuðar í samfélagi okkar. Hún er þingflokksformaður Samfylkingarinnar, varð formaður fjárlaganefndar fyrst kvenna og einnig fyrst kvenna fjármálaráðherra landsins. Allt vandasöm störf sem hefur hún leyst vel af hendi .

Við Suðurnesjamenn þekkjum verk hennar vel. Á erfiðum tímum hefur hún reynst okkur haukur í horni og unnið að framgangi hinna ýmsu verkefna á Suðurnesjum. Við hæfi er að minna á nokkur þeirra:

Hún hefur barist fyrir fjárveitingum til menntastofnana okkar, til Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Miðstöðvar Símenntunar á Suðurnesjum, Fiskvinnsluskólans, Þekkingarseturs Suðurnesja og til rekstrarsamnings til Keilis. Og nú síðast fyrir styrk til Keilis í gegnum lægri leigu á lóð og húsnæði í ríkiseigu til næstu 6 ára.

Hún hefur háð varnarbaráttu fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, nú síðast til að fjölga starfsmönnum í sálfélagslegri þjónustu.

Hún innleiddi vinnubrögð  í fjárlaganefnd til eflingar vaxtasamninga, menningarsamninga og til eflingar atvinnuþróunar á Suðurnesjum.

Þá er rétt minna á að Oddný fékk samþykkt í ríkisstjórn greiningu á þörf og kostnaði vegna  stækkunnar Helguvíkurhafnar. Suðurnesjamenn hafa í næstum áratug sóst eftir fjárhagslegum stuðning við Helguvíkurhöfn, óskuðu eftir aðkomu ríkisins árið 2006 og 2009 en ekki haft árangur sem erfiði. Nú er þetta mikilvæga mál okkar – aðkoma ríkisins að uppbyggingu í Helguvík - lengra komið en nokkru sinni fyrr þökk sé öflugri baráttu jafnaðarmanna með Oddnýju í fararbroddi.

Hér að ofan hefur aðeins verið tæpt á nokkrum af þeim fjölmörgu málum sem Oddný G Harðardóttir hefur unnið að fyrir okkur Suðurnesjamenn á stuttu þingferli sínum.

Oddný er dýrmæt okkur Suðurnesjamönnum. Stöndum saman og tryggjum henni örugga kosningu á laugardaginn  svo að við getum áfram notið dugnaðar hennar á Alþingi.

Eysteinn Eyjólfsson
Bæjarfulltrúi Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024