Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ó Ó Reykjanesbær
Þriðjudagur 28. ágúst 2007 kl. 20:20

Ó Ó Reykjanesbær

Ljósalagið 2007 sem frumflutt var á mánudaginn hefur nú þegar vakið meiri athygli en öll fyrri ljósalög til samans. Ekki er þar með sagt að lagið sé miklu, miklu betra en öll hin heldur er yrkisefnið að  þvælast fyrir mönnum. Engin keppni var haldin í ár heldur var ákveðið að leita til eins úr fríðum hópi tónskálda sem Reykjanesbær getur  státað af. Í þetta skiptið varð Jóhann Helgason fyrir valinu enda  hefur hann margsinnis sannað sig sem afbragðs lagasmiður í Keflavík, á Seltjarnarnesi og víða um heim. Hann valdi að semja óð til  æskuslóðanna og kallaði lagið „Ó, Keflavík“. Nokkrir Reyknesbæingar  hafa skeiðað fram á vefritvöll Víkurfrétta og prjónað þar nokkra orðaleppa til að lýsa vanþóknun sinni á verkinu. Á lagasmíðin að gera upp á milli hverfa bæjarins, gera lítið úr markaðsstarfi Reykjanesbæjar og lítilsvirða stóran hluta bæjarbúa ef ég les rétt úr skrifum þeirra.

Ég áttaði mig ekki á því að máttur Jóhanns Helgasonar sem tónskáld  væri svo mikill að hann gæti með einni lagasmíð ært óstöðuga bæjarbúa og stórskaðað markaðsstarf Reykjanesbæjar. Þvert á móti held ég að hampa eigi þeirri menningararfleifð sem í daglegu tali kallast „Bítlabærinn Keflavík“. Hluti af markaðssetningu bæjarfélags  felst í að minna á bæinn sinn og það gerir Jóhann mjög smekklega í sínu lagi.
Það vill bara svo óheppilega til fyrir Njarðvíkinga og Hafnarbúa að hann átti heima í Keflavík. Það er margt sem við getum verið mjög hreykin af hér í Reykjanesbæ og eitt af því er það djúpa spor sem markað var í dægurlagasögu Íslendinga á síðustu öld. Það er ekkert annað en lítilsvirðing við þá listamenn sem þar koma við sögu að gera lítið úr verkum þeirra í nafni pólitísks réttlætis.

Syngið með!

Baldur Guðmundsson
Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024