Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nýtum tækifærin í Helguvík
Fimmtudagur 14. apríl 2011 kl. 14:55

Nýtum tækifærin í Helguvík

Eftir Björgvin G. Sigurðsson, 1. þingmann Suðurkjördæmis.

Nú er uppi einstakt tækifæri til þess að koma framkvæmdum við álver Norðuráls í Helguvík á fullan skrið. Þar með væri þeirri djúpu lægð sem er í atvinnumálum á Suðurnesjum og í mannvirkjagreinum á Suðvesturhorninu svo gott sem lokið.

Nú er mikið undir og ábyrgð eigenda og stjórna HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur mikil enda Helguvíkurverkefnið nú í þeirra höndum. Sérstaklega þar sem lífeyrissjóðirnir vilja koma inn í Hverahlíðavirkjun og allt kapp er lagt á samninga af hálfu Norðuráls í stað málaferla um vanefndir orkusamninga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mikilvæg ákvörðun um kísilver

Við sjáum strax hvað ákvörðun um kísilver í Helguvík skiptir miklu máli. Um 300 manns munu vinna að framkvæmdunum næstu árin og þær skila höfninni og sveitarfélögunum miklum tekjum. Atvinnuleysi minnkar og hljólin fara að snúast. Nú er að halda áfram á sömu braut og koma álverinu á framkvæmdastig.

Upphaf og grunnur framkvæmdanna og ákvarðanir um þær á sínum tíma voru orkusölusamningar við HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur. Sveitarfélögin suður frá stóðu saman að því að nýta orkulindir á Reykjanesi til þessa verks og góð samstaða tókst um það á heimavelli framkvæmdanna.
Ári síðar samþykkti Alþingi með góðum meirihluta fjárfestingarsamning vegna álversins. Þar með var komið sterkt pólitískt bakland við framkvæmdirnar og þær formgerðar með lögum.

Umsvif og orkunýting
Þörf á miklum umsvifum og kraftmikilli orkunýtingu á Reykjanesinu hefur verið knýjandi um margra ára skeið. Brotthvarf hersins árið 2006 var meiriháttar áfall fyrir atvinnulíf á svæðinu og því þörf á mikilli uppbyggingu til að vinna gegn vaxandi atvinnuleysi í kjölfar þess að herinn fór.
Síðan þá hafa framkvæmdirnar tafist og lent í þrátefli. Sveitarfélögin seldu sinn hlut í HS Orku og misstu þar með forræðið yfir áformum þess um orkusölu. Nýir eigendur hafa ekki viljað standa að jafn mikilli orkusölu og hinir fyrri til álversins. Norðurál stefndi í kjölfarið HS Orku í gerðardóm í Svíþjóð. Nú síðast bætast við erfiðleikar OR og vangeta þeirra til að standa við sinn hlut orkuöflunarinnar.


Þetta þarf að ganga eftir:

Mikið er undir í atvinnulegu tilliti að framkvæmdir við álver í Helguvík fari aftur af stað og gangi eftir. Rétt einsog það skiptir miklu máli að kísilverksmiðja Thorsil í Þorlákshöfn verði að veruleika en þá þarf að virkja á Hellisheiðinni.


Það sem þarf að gerast á næstu vikum til að framkvæmdirnar fari af stað og nokkur þúsund störf skapist á nokkrum mánuðum er m.a.:


1. HS Orka og Norðurál nái samningum og taki málið úr gerðardómi. Fulltrúar móðurfélaga þeirra funduðu í síðustu viku í Bandaríkjunum og ástæða til að vona að samningar náist að nýju og þar sem standi grundvöllur framkvæmdanna.


2. Lífeyrissjóðir og/eða Landsvirkjun gangi inn í virkjanaáform OR vegna Helguvíkur og annarra nýframkvæmda. Taki samninga um vélakaup yfir ásamt orkusamningum. Þarna skiptir miklu að stjórn OR hafi stuðning innan úr borgarstjórnarflokknum við að ganga svo frá málum.


3. Landsvirkjun tryggi orku í þriðja áfanga álversins með umframorku í kerfi sínu og þeirri orku sem til ráðstöfunar verður eftir að gerð rammaáætlunar um nýtingu og náttúruvernd lýkur á næstunni.

Gangi þetta eftir á næstu vikum er verkefnið í höfn og það fer á fullan skrið að nýju.


Ég tók málið upp við formann iðnaðarnefndar á Alþingi um daginn og mun ræða stöðu máls við iðnaðarráðherra í þinginu í vikunni. Sagði formaður nefndarinnar að nefndin myndi funda með þeim sem að málum standa og freista þess að ná jákvæðri niðurstöðu í málið. Mikilvægt er að halda uppi þrýstingi á öllum sviðum enda mikið í húfi fyrir okkur sem samfélag. Engin ástæða er til að afskrifa orkuframkvæmdirnar þó tafist hafi. Nú er einstakt tækifæri til að koma hlutunum á hreyfingu og framkvæmdum af stað á ný.


Björgvin G. Sigurðsson,
þingmaður Samfylkingarinnar og 1. þingmaður Suðurkjördæmis.