NÝR KAFLI Í ÍÞRÓTTASÖGU ÍSLENSKU ÞJÓÐARINNAR
Nýr kafli í íþróttasögu íslensku þjóðarinnar Stórhugur og framtíðarsýnVið undirskrift leigusamnings um fjölnota íþróttahús flutti varaforseti íþróttasambands Íslands ræðu og sagði meðal annars að með þessu húsi hæfist nýr kafli í íþróttasögu íslensku þjóðarinnar og væri það vel við hæfi í þann mund sem ný öld er að ganga í garð. Við aldamót standa þjóðir á tímamótum og um þau síðustu voru uppi stórhuga menn sem m.a. virkjuðu fallvötn til að framleiða rafmagn, byggðu brýr til að auðvelda samgöngur og stóðu fyrir ýmsum öðrum framfaraverkefnum. Ekki ríkti einhugur og sátt um þær gjörðir frekar en svo oft þegar um ný og stór verkefni er að ræða. Á þeim tíma eins og í dag voru menn sem börðust á móti framförum, börðust á móti nýjungum og reyndu allt hvað þeir gætu til að koma í veg fyrir að mál næðu fram að ganga. Þessir tímar áttu sinn Jóhann Geirdal og Kristmund Ásmundsson en sem betur fer fyrir íslenska þjóð náði málflutningur þessara aðila ekki tilætluðum árangri.Bygging fjölnota íþróttahúss í Reykjanesbæ er framfaraskrefMenn allra flokka eru lengi búnir að ræða um nauðsyn þess að bæta aðstöðuna fyrir knattspyrnuna, fimleikana og aðrar íþróttagreinar þar sem öflug íþróttastarfsemi hér í bæ er búin að sprengja utan af sér íþróttahús bæjarins. Með því að leigja fjölnota íþróttahús með fullkomnu gervigrasi, eins og samið hefur verið um við Verkafl h.f. eykst svigrúm til að bæta verulega alla íþróttaaðstöðu, en síðast en ekki síst verður hægt að nota fjölnota íþróttahúsið fyrir ýmsa aðra starfssemi. Stofnkostnaður á hvern fermetra í fjölnota íþróttahúsinu er helmingi lægri heldur en í hefðbundnum íþróttahúsum, og gerir hagstæð leiga bæjaryfirvöldum kleift að sinna áfram þeim fjölmörgu skylduverkefnum sem á sveitarfélögum hvíla, ásamt því að halda áfram traustum höndum utan um fjármál bæjarins.Reikningskúnstir Jóhanns Geirdals og Kristmundar Ásmundssonar, eru gerðar til þess eins að tortryggja athafna- og aðhaldssemi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það skyldi þó ekki vera komið fyrir þeim félögum eins og afturhaldsöflum fyrr á öldinni að vilja ekki kannast við mótstöðu sína í framfaramálum en reyna af veikum mætti að snúa málflutningi sínum í annan farveg m.a. með hótunum um kærur og öðrumupphrópunum. Íbúar Reykjanesbæjar láta ekki blekkjast af slíkum málflutningi. Samkvæmt skoðanakönnun sem Hagvangur framkvæmdi í Reykjanesbæ fyrir Víkurfréttir vorið 1998 kemur fram að 75,1% þeirra sem tóku afstöðu voru hlynnt byggingu fjölnota íþróttahúss, og því er ástæða til að óska íbúum Reykjanesbæjar til hamingju með þann merka áfanga sem náðst hefur.Jónína A. Sanders.