Nýr íþróttasalur – eina skynsamlega framtíðarlausnin
Guðmundur Bragason skrifar.
Alveg síðan ég á haustdögum 2012 sá hversu lítið fyrirhuguð íþróttamannvirki Grindavíkurbæjar gerðu fyrir þær íþróttagreinar sem þurfa æfingar og keppnisaðstöðu í íþróttahúsi hef ég sett mig vel inn í málið. Ég hef skoðað ýmsa möguleika til að bæta núverandi tillögur í samráði við hagsmunaaðila og átt gott samstarf við forsvarsmenn allra deilda UMFG, starfsmenn íþróttamannvirkja og aðra sem málinu tengjast.
Ég hef gengið í gegn um flest stig körfuknattleiksdeildar UMFG, fyrst sem iðkandi, síðar þjálfari og núna stjórnarmaður unglingaráðs sem sér alfarið um rekstur yngri flokka starf deildarinnar og tel mig því þekkja vel til mála þar.
Því miður hef ég á tilfinningunni að margir íbúar Grindavíkur og þó nokkrir núverandi bæjarfullltrúar haldi að æfingaraðstaða körfunnar í Grindavík sé í ágætis málum og litlu þurfi að bæta við svo hún verði með því betra á landsvísu næstu áratugi. Staðreyndin er því miður allt önnur!
Undanfarin ár hefur unglingaráð körfuknattleiksdeildarinnar verið í miklum vandræðum að koma öllum sínum yngri flokkum í íþróttahúsið svo sæmilegur sómi sé af, því skortur á lausum æfingatímum er mikill. Þetta hefur gert það að verkum að við höfum þurft að stytta æfingartíma yngri flokka, sameina flokka til að halda úti viðunandi æfingarfjölda og láta allt of fjölmenna yngri flokka æfa í hálfum sal íþróttahússins. Við erum að dragast aftur úr þeim deildum sem við viljum bera okkur saman við og æfa eldri flokkar öflugra deilda eins og í Njarðvík allt að 2,5 klst meira á viku en eldri flokkar körfunnar í Grindavík! Árangur yngri flokka Grindavíkur hefur verið frábær á undanförnum áratug. Körfuknattleiksdeild UMFG hefur skilað fjölmörgum Íslands- og bikarmeistaratitlum í hús og Grindavíkurbær hefur vakið mikla athygli fyrir gróskumikið starf yngri flokka deildarinnar. Árangur meistaraflokks þekkja flestir svo ég þarf ekki að ræða
hann frekar. Alltaf er gaman af titlum yngri flokka en þeir eru ekki aðalatriðið í mínum huga. Ég er stoltastur af því hvað hefur fjölgað iðkendum á æfingum yngri flokka körfuknattleiksdeildar UMFG síðustu ár og hversu áhugasöm börn og unglingar í Grindavík eru í sinni körfuknattleiksiðkun. Við erum að sjá árangur af þessu öfluga yngri flokka starfi og maður skynjar vel hvað Grindvíkingar eru stoltir af efnilegum leikmönnum sem hafa verið að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokkum körfuknattleiksdeildarinnar síðustu ár með mjög svo góðum árangri.
Með óbreyttri aðstöðu vita allir sem vilja vita að körfuknattleiksdeild UMFG mun dragast aftur úr öðrum öflugum körfuknattleiksdeildum landsins og því er nauðsynlegt að bæta úr skorti á æfingaraðstöðu á næstu árum. Ég ásamt forsvarsmönnum allra deilda UMFG þrýstum á núverandi bæjarstjórn snemma árs 2013 að setja inn á verkáætlun íþróttamannvirkja að reisa nýjan íþróttasal í stað þess að stækka núverandi 30 ára gamlan íþróttasal með miklum kostnaði. Þrátt fyrir mörg góð rök fyrir nýjum íþróttasal þá gekk það ekki eftir á því kjörtímabili sem er að ljúka. Enn er ekkert farið að gera neitt í því að stækka íþróttasalinn svo allt er opið með að byggja nýjan sal. Því héldum við áfram með vinnuna nú fyrir kosningar til að vekja athygli frambjóðenda á málinu og fá svör frá flokkunum hvert hugur þeirra stefnir í þessum máli. Til að koma tillögum okkar betur til skila þá létum við teikna nýjan íþróttasal norðan við núverandi íþróttasal og á milli þeirra Judo og Taekwondo æfingaraðstöðu ásamt framhald anddyris sem nýtist fyrir báða íþróttasali.
Teikningu þessa má sjá hér neðst í greininni.
Einnig yrðu núverandi keppnisbúningsklefar nýttir áfram sem og búningsklefi fyrir dómara en þannig þyrftu keppendur og dómarar ekki að ganga í gegn um anddyri fullt af stuðningsmönnum til og frá búningsklefa. Minni klefar færu hins vegar í geymslur fyrir tækjakost fimleikadeildar ofl. Í stækkunaráætlun íþróttasalar er gert ráð fyrir að rífa allt niður þar sem nú eru búningsklefar og hafa Judo og Taekwondo sali þar.
Nýi íþróttasalurinn sem er á meðfylgjandi teikningu er 36m x 33m og með löglegum körfuknattleiksvelli sem rúmt er um og ef sal skipt í tvennt munu vera löglegir körfuknattleiksvellir sitt hvorum við tjaldið.
Samkvæmt kostnaðaráætlun frá 2012 mun kosta 189 milljónir að stækka núverandi íþróttasal og breyta búningsklefum í bardagasali. Við létum nýverið gera tilboð í nýtt íþóttahús og tækjageymslu samkvæmt meðfylgjandi tillögum okkar og hljóði tilboðið upp á 250 milljónir fyrir utan gólfefni (parket).
Að stækka núverandi sal mun ekki skila því sem til er ætlast mun og mun strax verða fullnýtt af körfuknattleiksdeild og fimleikadeild og ekki geta tekið við sívaxandi fjölgun yngri flokka körfuknattleiksdeildarinnar. Vonandi mun iðkendum fimleikadeildar einnig fjölga með betri aðstöðu en þá þrengir enn frekar um tíma í íþróttahúsinu. Það munu ekki verða tíma aflögu fyrir almenning sem vill komast í blak, badminton, körfu og fleiri íþróttir og ekki mun ekki vera hægt að fjölga Metabolic tímum.
Þegar aðeins einn íþróttasalur er þá falla mjög margar æfingar niður vegna keppnisleikja og þeim mun aðeins fjölga þegar karfan mun tefla fram elstu flokkum stúlkna á næstu árum. Það er ekki nóg með að æfingar falli niður vegna kappleikja heldur er notkun íþróttahús að breytast og sífellt fleiri æfingar fall niður vegna dansleikja, tónleika og annara viðburða.
Eldri borgarar hafa ekki mikið val um tíma í íþróttahúsinu í dag en æfa Boccia og leikfimi í anddyri þess. Það stefnir í að eldri borgurum muni fjölga mikið á næstu 5-10 árum, þau eru sífellt að verða heilsuhraustari og munu vafalítið vera tilbúin að æfa eitthvað annað en Boccia svo sem badminton, blak og tennis (hægt væri að hafa tvo tennisvelli í nýju íþróttahúsi). Það er því álit þeirra sem nýta íþróttahúsið mest og þeim starfsmönnum íþróttahússins sem við höfum rætt við að eina framtíðarlausn á stækkun íþróttamannvirkja hvað varðar íþróttahús er að byggja nýjan sal.
Einn ágætur maður sagði nýverið við mig að ótrúlegt væri hversu mikila vinnu við þyrftum að leggja í að sannfæra bæjarstjórnina um að byggja nýjan íþróttasal sem hugsanlega yrði 50-80 milljónum dýrara en að stækka núverandi íþróttasal. Með nýjum sal myndu körfuknattleiksdeild, fimleikadeild, almenningur, grunnskóli og fleiri fá aðstöðu sem myndi duga vel næstu áratugi. Stækkun íþróttasalar myndi aldrei verða
framtíðarlausn, loka yrði íþróttahúsinu í amk 3 mánuði meðan hún stæði yfir og áfram myndu mikið af æfingum falla niður meðan kappleikir og aðrir viðburðir væru í húsinu.
Með því að kynna hugmyndir okkar fyrir frambjóðendum og bæjarbúum þá vonumst við til að þeir átti sig á hvað mikið er í húfi fyrir bæjarbúa að vel takist til stækkun íþróttamannvirkja og nýr íþróttasalur verði settur á dagskrá.
Þetta mál er mér afar hugleikið þar sem velferð Grindavíkurbæjar er mér ofarlega í huga. Því finnst mér synd að eyða miklum peningum í framkvæmd sem verður of lítil þegar hún er tilbúin hvað þá næstu 10 – 20 ár á eftir, þegar varanleg framkvæmd er litlu dýrari!
Með grein þessari óska ég eftir því að oddvitar framboðanna til bæjarstjórnakosninga í Grindavík segi opinberlega hver hugur þeirra er í þessu máli og hvert þeirra flokkur muni stefna í þessu máli ef hann kemst í meirihlutasamstarf. Ég mun að minnsta kosti kjósa þann flokk sem mér þykir líklegastur að setja byggingu nýs íþróttasalar á framkvæmdaráætlun.
Með vinsemd og virðingu,
Guðmundur Bragason.