Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 6. maí 2002 kl. 16:26

Nýjungar til að efla skólastarf

Mjög miklar breytingar hafa orðið á aðstöðu nemenda og kennara í grunnskólum Reykjanesbæjar á yfirstandandi kjörtímabili. Allir skólar bæjarins eru orðnir einsetnir, mötuneyti í öllum skólum og önnur aðstaða ein sú besta sem þekkist á landinu. Það er engin einföld uppskrift til af því hvað gerir skóla að “góðum” skóla. Gott starfsfólk, áhugasamir foreldrar og nemendur og skilningur stjórnvalda er að sjálfsögðu forsenda. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt verið opinn fyrir nýjungum í skólastarfi og viljað reyna leiðir sem gætu orðið til þess að þróa skólastarfið og gera það öflugra. Í stefnuskrá flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjanesbæ er gert ráð fyrir því að stofnaður verði þróunarsjóður fyrir leik- og grunnskóla. Með tilkomu slíks sjóðs getur gefist kærkomið tækifæri fyrir áhugasama foreldra og kennara til að vinna að athyglisverðum og framsæknum verkefnum tengdum skólunum. Að leita nýrra leiða í síbreytilegu þjóðfélagi og endurskoða áætlanir reglulega er nauðsynlegt í þeim skóla sem við sækjumst eftir í dag, skóla sem er metnaðarfullur og framsækinn með framtíðarsýn. Í slíku umhverfi viljum við búa börnin okkar undir að takast á við lífið.

Ég er þess fullviss að í framtíðinni verði í auknu mæli sóst eftir fólki til vinnu sem hefur ríka sköpunargáfu. Nútímaþjóðfélag kallar á einstaklinga sem eru frumlegir í hugsun, hafa frumkvæði og skilja menningarlegan fjölbreytileika.
Öll listgreinakennsla í skólum miðar að því að þroska sköpunargáfu nemenda og sjálfsvitund og gott væri að sú kennsla væri efld eins og kostur er. Markmiðið er ekki að gera alla að listamönnum frekar en að tilgangur náms í bókmenntum er ekki að gera alla að rithöfundum. Listir eru uppistaðan í menningararfi þjóða, þær hafa fylgt manninum frá örófi alda og endurspegla tíðarandann á hverjum tíma.

Að mínu áliti er stefna sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í skóla og menntamálum metnaðarfull. Verkefni tengd “Orkugarðinum” eru spennandi og góð hugmynd að kanna hvort að háskóladeildir tengdar tækni og vísindanámi geti orðið staðsettar í Reykjanesbæ. Þetta er framsækið verkefni sem gæti breytt menntunarstigi hér í bænum.
Með Miðstöð símenntunnar var stigið mjög gott skref til endurmenntunnar og símenntunnar en framtíðarverkefnin hljóta að tengjast enn frekar námi á háskólastigi.

Sóley Halla Þórhallsdóttir
Skipar 14. sæti á D-lista sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024