Nýja Ísland
Landsmenn eru nú að ná vopnum sínum eftir hrunið, kreppan ljóta er að losa krumlurnar og allar hefðbundnar mælingar á heilbrigði efnahagslífs sýna augljós batamerki. Þetta hefur ekki verið auðvelt, samfélagsþjónusta er skafin inn að beini og lengra verður ekki gengið í sparnaði. Allir ganga sárir frá þessari orustu, engar lausnir eru fullkomlega sanngjarnar og allir hafa tapað einhverju. En nú sést til sólar og nú skulum við vanda okkur, látum ekki grafa undan von okkar um nýtt Ísland. Yfirlætisfullir kjaftaskar og hrokafullir stuttbuxnadrengir eiga frekar skilið að verða rassskelltir en að á þá sé hlustað, við ætlum að bæta samfélagið og við ætlum að koma í veg fyrir að ræningjar vaði um þjóðarheimilið aftur. Árangur ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við endurreisn landsins er einstakur og mun hafa áhrif á kenningar og kennslu í þjóðhagfræði um ókomna tíð.
Saman hefur þjóðin lagt drög að nýrri stjórnarskrá. Til þess var kallaður saman þúsund manna þjóðfundur. Valinn var hópur til að vinna úr hugmyndum þjóðfundar og að lokum var þjóðin spurð um nokkur álitamál. Þessi vinna hefur vakið áhuga margra á samfélagsmálum, fólk setur sig betur inn í málin og hefur skoðanir á ákvörðunum stjórnvalda. Fyrirkomulagið við vinnslu nýrrar stjórnarskrár íslenska lýðveldisins er einstakt og verður skráð á spjöld sögunnar, þetta er eitt merkilegasta afrek ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir.
Rammáætlun er líka eitt af tímamótaverkefnum ríkisstjórnarinnar. Þessi sáttmáli umhverfissinna og virkjunarsinna er einstakt verkfæri og mun hjálpa okkur að taka góðar ákvarðanir um nýtingu landsins. Lands sem á að vera næstu kynslóðum líka til gagns. Neyslufrekur nútíminn þarf að sitja á sér og ákvarðanir verða teknar af yfirvegun og almannahagsmunir látnir ráða.
Nýja Ísland hefur góða stjórnsýslu og sterkt eftirlitskerfi sem verndar almannahagsmuni. Nýja Ísland er velferðarþjóðfélag sem hefur jafnaðarhugsjónina að leiðarljósi. Nýja Ísland leggur áherslu á frelsi einstaklingsins, atvinnufrelsi og tjáningarfrelsi og nýja Ísland leggur líka áherslu á ábyrgð. Nýja Ísland boðar að frelsi eins sé ekki helsi annars. Nýja Ísland má aldrei láta glepjast af glópagulli.
Ég styð nýja Ísland, ég styð jöfnuð og fyrirhyggju í fjármálum þjóðarinnar. Ég hafna spillingu, ójöfnuði og hagstjórn sem líkist hegðun fíkils í afneitun.
Bryndís Sigurðardóttir.