Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nýir tímar að renna upp?
Mánudagur 11. janúar 2010 kl. 14:26

Nýir tímar að renna upp?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í upphafi árs 2010 eru ýmsar blikur á lofti. Erfiðleikar, órói, stefnuleysi, ótti og vantraust sem einkenndu 2009 mega ekki fylgja okkur inn í nýja árið. Við vitum að veturinn verður okkur efnahagslega erfiður. Við vitum að gjaldþrotum og uppboðum muni fjölga. Og við vitum að atvinnuleysi mun sennilega aukast og þó er það fyrir löngu komið langt fram úr ásættanlegum mörkum. Við erum einnig mörg um þá skoðun að efnahags- og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar sem m.a. annars kemur fram í fjárlögum fyrir 2010 mun ekki hjálpa til við að koma okkur út úr þessum vitahring neikvæðra atburða. Svo ekki sé minnst á Icesave.


Samt vitum við að framtíð þjóðarinnar er björt. Sóknarfæri eru víða ekki síst á landsbyggðinni í ,,gömlu” atvinnuvegunum sjávarútvegi og landbúnaði. Þjóðin er ung og velmenntuð. Sóknarfæri í mannauði, hugur í frumkvöðlastarfsemi, löngun til athafna og tækifæri, eru nær óþrjótandi í ýmsum atvinnugreinum jafnt nýjum sem eldri ef rétt er á spilum haldið. Náttúruauðlindir okkar verða alltaf verðmætari og fjölbreytni í nýtingu þeirra sífellt meiri. Hér á Suðurnesjum sjáum við tækifæri á öllum þessum sviðum, ekki síst á sviði ferðaþjónustu og frekari nýtingu orku svæðisins til margvíslegra þarfa.. Þá er frumkvöðlastarfsemi Keilis og allt sem þar af leiðir eitt áhugaverðasta verkefni samtímans þar sem saman fer nýting varnarsvæðis , aukið menntunarstig, þekking og atvinnusköpun á Suðurnesjum öllum.

Samstaða
Þjóðin, ekki síst sá hluti hennar sem býr og starfar á landsbyggðinni, er mjög meðvituð um að leiðin til betri lífskjara, meiri atvinnu, er fólgin í að nýta auðlindir lands og sjávar. Á sama tíma er sífellt ljósara að samhliða nýtingu þarf að huga að vernd og sjálfbærni auðlindarinnar sjálfrar. Öfgar síðustu ára eiga nú að heyra fortíðinni til. Leiðin fram á við er samstaðan - samstaða þjóðarinnar um vernd og nýtingu. Nýtingu, sem forsendu atvinnuuppbyggingar en einnig verndar sem gerir atvinnugreinum eins og ferðaþjónustunni mögulegt að ,,nýta” verndina sér til framdráttar og tryggja endingu auðlinda. Samstaða er hér lykilorðið. Það er því óskiljanlegt hvernig einföld ákvörðun, um lagningu raflína sem þarf að leggja óháð álverum, getur þvælst fyrir einstaka ráðherra og valdið óþarfa óvissu um atvinnusköpun á svæði þar sem atvinnuleysi er hvað mest.

Sókn – nýir tímar
Eins eigum við að nýta þá atburðarrás sem hefur orðið í Icesave málinu eftir óvænta en hugrakka synjun forseta lýðveldisins á ólögunum um Icesave. Mörg mistök hafa verið gerð í þessu máli allt frá upphafi þess til dagsins í dag. Ein þau stærstu að gera málið að flokkspólitísku máli – máli framkvæmdavaldsins á hverjum tíma. En við eigum að stíga upp úr hjólförum innanlandsdeilna og sameinast í að verja grundvallarhagsmuni þjóðarinnar. Nú er tækifærið. Umræða erlendra sérfræðinga og erlendra fjölmiðla eiga og geta vísað okkur veginn. Þar ber við nýjan tón – nýja tíma. Þennan möguleika eigum við að nýta m.a. með því að skipa þverpólitískan samningahóp sem gæti leitað til sérfræðinga jafnt erlendra sem innlendra. Hugmyndir um alþjóðlegan sáttasemjara eru einnig góðar.
Samstaða allra flokka, þjóðarinnar allrar er nauðsyn í þessu máli. Samstaða til sóknar fyrir þjóðina - fyrir því er vaxandi hljómgrunnur meðal almennings í öðrum ríkjum Evrópu.
Að lokum óska ég öllum Suðurnesjamönnum gleðilegs árs með þeirri bjargföstu trú minni á að framtíð okkar þjóðar sé björt - auðnist okkur að standa saman.

Sigurður Ingi Jóhannsson alþingismaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.