Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ný gildi takk
Fimmtudagur 2. apríl 2009 kl. 08:30

Ný gildi takk


Eftir átján ára valdasetu Sjálfstæðisflokksins fáum við að uppskera ávexti frjálshyggjustefnunnar og taumlausrar einkavæðingar sem hefur farið sem mein um innviði samfélagsins. Þegar gleðin stóð sem hæst hrundi hagkerfið yfir okkur og er engu líkara en það hafi fallið fyrir eigin hendi. Efnahagslega hrunið er hnattrænt en við hér á Íslandi vorum fremst í fylkingunni og sitjum eftir með sárt ennið og himinháar erlendar skuldir. Svo virðist sem það muni lenda á okkur að endurgreiða erlendar innistæður sem við hefðum ekki þurft að bera ábyrgð á ef ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefði ekki sofið á verðinum. En ríkisstjórnin svaf sem fastast og nú situr þjóðin í súpunni.


Frambjóðendur og hagfræðingar keppast við að setja fram tæknilegar lausnir á viðfangsefninu: Niðurfelling skulda, afskriftir, vaxtabætur, lenging lána og fleira af þeim meiði heyrist í hverju horni eins og menn eigi lífið að leysa. Jú vissulega eigum við hér lífið að leysa, lífið á Íslandi hjá þjóð sem hefur verið hlunnfarin og svikin, rænd og niðurlægð svo vakið hefur athygli um gjörvallan heim. Í allri tækniumræðunni um niðurfellingu skulda, lengingu lána, lækkun vaxta o.f.l. gleymast þó aðalatriðin. Eitt er það grundvallaratriði sem hefur öðru fremur sett mark sitt á ákvarðanir í efnahagsmálum á Íslandi að undanförnu. Það er sú blákalda staðreynd að við mikilvægar ákvörðunartökur undanfarin ár hafa menn miðað að því að tryggja hag fjármagnsins og handhafa þess fremur en hag þegnanna. Áherslan á auðgun auðsins hefur verið algjör í 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokks þar sem hann hefur ýmist nýtt sér Alþýðuflokk, Framsókn eða Samfylkinguna til þess að vinna málum sínum brautargengi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Samanburður á árunum 1993 og 2007 sýnir hvernig bilið á milli þeirra ríku og fátæku hefur farið vaxandi. Árið 1993 voru meðaltekjur þeirra 20% hjóna sem höfðu lægstar tekjur um 170 þúsund krónur á mánuði (m.v. verðlag ársins 2007) en meðaltekjur þeirra 20% hjóna sem höfðu hæstar tekjur voru um 490 þúsund krónur á mánuði. Munurinn á meðaltekjum þessara tveggja hópa sem við skulum kalla „hátekjuhjón” og „lágtekjuhjón” árið 1993 var því um þrefaldur. Árið 2007 höfðu meðaltekjur lágtekjuhjónanna hækkað um 100 þúsund og voru orðnar 270 þúsund krónur á mánuði en tekjur hátekjuhjónanna hækkuðu á sama tíma um 1,4 milljónir í heilar 1,9 milljónir á mánuði. Tekjumunur á milli hjónanna var sumsé þrefaldur árið 1993 en sjöfaldur árið 2007. Á þessu má sjá hvernig bilið á milli hinna fátæku og hinna ríku hefur farið vaxandi í valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Þessi stefna kristallast einnig í fyrirkomulagi á skattalækkunum. Þegar menn töldu sig hafa svigrúm til var felldur niður hátekjuskattur og eignaskattur en þær aðgerðir gagnast augljóslega eignafólki og hátekjuhópum.


Ég sakna þess að umræðan skuli ekki vera gildismiðuð því það eru gildin sem skipta máli og af þeim leiða lausnirnar. Sjálfstæðismenn segja að það hafi ekki verið stefnan sem brást heldur fólkið en af landsfundi flokksins er það helst að frétta að það er í öllum aðalatriðum sama fólk sem þar á að draga vagninn. Núna er kominn tími til þess að taka ákvarðanir með hagsmuni þjóðarinnar en ekki fjármagnsins og handhafa þess að leiðarljósi. Slíkt kallar á nýja hugsun og ný gildi. Samfélagsleg gildi þar sem réttlæti er haft að leiðarljósi. Gildi gömlu valdhafanna eru óbreytt, þar skal standa vörð um eigin hag. Nú þarf hinsvegar að gæta að hagsmunum þjóðarinnar, hefja gamlar dyggðir til vegs og virðingar til móts við ný gildi þar sem réttlátt samfélag fyrir landsmenn alla er í öndvegi en ekki arðsemi eiginfjár vildarvina. Það er á brattann að sækja en með jöfnuð, jafnrétti og réttlæti að leiðarljósi skulum við byggja nýja Ísland.


Bergur Sigurðsson,
er í framboði fyrir VG í Suðurkjördæmi.