Nú verður að hafa hraðar hendur
Nú liggur fyrir að Íslendingar taka við mannvirkjum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og í burðaliðnum er stofnun hlutafélags í eigu ríkisins sem á að taka við þessum eignum og koma þeim í notkun án þess að það hafi óásættanleg áhrif á íbúðamarkaðinn á Suðurnesjum. Það var kominn tími til þess að hrein niðurstaða kæmi í þetta mál þar sem framtíð mannvirkja í varnarstöðinni skipta okkur sem búum á svæðinu afar miklu. Sá böggull fylgir þó skammrifi að Íslendingar taka að sér hreinsun eftir varnarliðið og ekki er nákvæmlega vitað á þessari stundu hversu umfangsmikil sú mengun er eða hvers eðlis. Kostnaðurinn við hreinsun liggur því ekki fyrir, en ef mengunin er verulega umfangsmeiri en ráð er fyrir gert, eða í ljós kemur að hún ógnar heilbrigði og öryggi manna innan 4 ára frá brotthvarfi varnarliðsins, þá er gert ráð fyrir viðræðum milli ríkjanna um málið.
Það þarf að hafa hraðar hendur í því að ákveða fullnægjandi rannsókn á umfangi mengunar innan þess tímafrests sem um ræðir þannig að hægt sé að kalla bandaríkjamenn að samningsborðinu varðandi frekari hreinsun ef þörf krefur.
Það þarf að hafa hraðar hendur í að rífa þau mannvirki sem fyrirsjáanlegt er að nýtast ekki til framtíðar.
Það þarf að hafa hraðar hendur í því að stofna hlutafélag um eignirnar, þannig að sem fyrst verði gengið í að koma þeim í rekstur og komið verði í veg fyrir að þær standi lengi auðar og engum til gagns.
Það þarf að hafa hraðar hendur í að nýta þá þekkingu og mannauð sem býr í fyrrum starfsfólki varnarliðsins sem gjörþekkir svæðið og nýtt hlutafélag sem stofnað verður um eignirnar ætti að sjá sér mikinn hag í að láta ekki fara til spillis, heldur nýta í þágu framtíðarstarfssemi á vellinum.
Nú verða stjórnvöld að hafa hraðar hendur en ekki sitja með hendur í skauti eins og allt of lengi er búið að gera í málefnum varnarstöðvarinnar. Það er búið að sóa of miklum tíma og komið að því að láta verkin tala.
Jón Gunnarsson
Þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi






