Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 8. maí 2003 kl. 10:03

Nú verðum við að standa saman!

Án öflugs útflutnings, án góðra atvinnutækifæra er til lítils að tala um peninga til að hjálpa þeim sem minnst mega sín. Það væru einfaldlega engir peningar til að veita. Það eru ekki allir sjálfstæðismenn uppteknir alla daga við að hugsa um þá sem minna mega sín, slík fullyrðing væri bull. Því sumir þeirra eru gagnteknir af því að efla atvinnutækifærin. En þeir eru margir okkar sem koma þannig með einu raunhæfu lausnirnar í þágu þeirra sem minnst eiga. Við sköpum atvinnutækifæri og við styðjum þá sem verða undir. Það er sá Sjálfstæðisflokkur sem ég styð og það er sá flokkur sem Davíð Oddsson veitir forystu.
Ég var í hópi þeirra sem hvöttu Davíð Oddsson í formannsframboð á sínum tíma og því hef ég aldrei séð eftir. Þau nýju framboð og stefnumál sýna enn meiri þörf fyrir að Davíð Oddsson verði áfram í forystu. Ég hvet ungt fólk til að sleppa ekki því tækifæri sem það hefur til að tryggja áframhaldandi forystu hans í ríkisstjórn.
Þeir sem tala gegn Sjálfstæðisflokknum skella skollaeyrum við staðreyndum um að allir viðurkenndir mælikvarðar, sem eiga að hjálpa okkur að bera saman stöðuna á milli þjóða, sýna að Ísland er að komast efst á þessa mælikvarða, ef það er ekki þegar komið efst.
Við sem stöndum í forsvari atvinnumála hjá Reykjanesbæ finnum hvernig lækkun tekjuskatts á fyrirtæki hefur aukið áhuga erlendra fyrirtækja á að koma hingað, sbr. stálpípuverksmiðjuna í Helguvík. Bæði Samfylking og Vinstri grænir voru ekkert hrifnir. Frjálslyndir hafa enga skoðun á þessu, þeir eru bara kvótaandstæðingar, sem eru meira að segja farnir að draga í land að þeir vilji algerlega afnema kvótann. Þeir eru með villandi málflutning.
Hér er kaupmáttur með mesta móti, skólakerfið gott og almenn velmegun. Alltaf má betur gera. En við gerum það ekki með því að koma á ríkisstjórn sem leggur bara áherslu á að koma Davíð Oddssyni frá og reyna síðan að tjasla saman málefnaskrá.
Vinstri flokkarnir eru Samfylking og Vinstri grænir. Framsókn er á miðjunni eins og vanalega, Frjálslyndir eru með mjög óljósar línur en segjast ætla að starfa með vinstri stjórn. Sjálfstæðisflokkurinn spannar litrófið frá miðjunni og til hægri. Ef þú ert á þessu bili, þá hvet ég þig til að kjósa x-D.
Í 5. sæti á lista okkar í Suðurkjördæmi er Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar. Ég hef starfað með Böðvari s.l. 5 ár í bæjarstjórn. Hann er duglegur og skynsamur. Við megum fagna því að hann er reiðubúinn að vinna fyrir okkur sem alþingismaður, ef hann fær stuðning til. Styðjum unga fólkið okkar, sem hefur sýnt að það er traustsins vert.

Þorsteinn Erlingsson,
skipstjóri og bæjarfulltrúi
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024