Nú verða allir að taka á honum stóra sínum
Hjúkrunarráð lýsir yfir þungum áhyggjum vegna hlutaúttektar Landlæknisembættisins. Það er ljóst að ýmsu þarf að breyta til þess að mönnunarmál hjúkrunarfræðinga og öryggi sjúklinga fari í betri farveg.
Á meðan komufjöldi t.d á bráðamóttöku hefur aukist gríðarlega þá er mönnun hjúkrunarfræðinga ófullnægjandi miðað við fjölda skjólstæðinga. Slysa- og bráðamóttaka HSS er með minnstu mönnun miðað við aðrar stofnanir á landinu þrátt fyrir að vera ein af þremur stærstu slysa- og bráðamóttökum landsins. Á bráðamóttökunni eru tveir hjúkrunarfræðingar á morgnana og tveir á kvöldin, enginn hjúkrunarfræðingur er á næturnar þrátt fyrir ítrekaða beiðni hjúkrunarráðs á sl. tveimur árum til framkvæmdarstjórnar. Þetta er óásættanlegt og kemur skýrt fram í úttektinni.
Einnig hefur álagið á legudeildinni aukist mikið, mjög oft eru sjúklingar innlagðir á „ganginn“, sem sagt lagðir inn á ganga deildarinnar og einnig í dagsstofu sjúklinga. Álagið á heimahjúkrun og skólahjúkrun hefur einnig aukist, sem og hjúkrunarmóttöku. Það er vel þekkt hvað gerist við langvarandi álag á heilbrigðisstarfsfólk, þá aukast veikindi starfsmanna, aukin hætta er á kulnun í starfi og hætta er á að góðir starfsmenn með mikla reynslu fari til annarra starfa eða starfsgreina þar sem launin eru betri og álagið minna. Svo að dæmi séu nefnd eru 4 af 11 hjúkrunarfræðingunum á bráðamóttöku HSS búnir að minnka við sig í starfi eða eru að fara að starfa alfarið annars staðar. Þetta eru næstum 25% starfsmanna deildarinnar.
Ljóst er að stefnumótun og stjórnun heilsugæslu HSS uppfylla í mörgum tilfellum ekki kröfur um góða stjórnun og skýra stefnumótun. Það er því erfitt að meta gæði og öryggi þjónustunnar. Það liggur því nokkuð ljóst fyrir að umbóta er þörf og telur hjúkrunarráð ansi brýnt að það sé farið í þá stefnumótunarvinnu.
Læknar eru einir á næturvöktum á bráðamóttökunni, enginn hjúkrunarfræðingur er á næturvakt og að sögn framkvæmdastjórnar hefur ekki fengist fjármagn til að ráða hjúkrunarfræðing á næturvaktir. Mikið álag er því á vakthafandi lækni. Lítið má bera út af vegna mönnunar lækna. Það þarf ekki annað en að einn veikist, þá skapast mikil vandræði. Húsnæði heilsugæslunnar í Keflavík er barn síns tíma og mjög þröngt miðað við þá starfsemi sem þar fer fram. Skoðunar- og viðtalsherbergi eru lítil og ekki vistleg. Bráðamóttakan er sömuleiðis mjög lítil þótt hún taki við mörgum sjúklingum og er ástandið á húsnæði þar mjög ábótavant. Þrátt fyrir að búið sé að gera einhverjar breytingar til hins betra þá er langt í land. Um helgar sinna læknar sólarhringsvöktum með einn hjúkrunarfræðing frá kl. 11 til 19 en annars eru þeir einir á slysa-og bráðamóttöku HSS sem er er óásættanlegt og ógnar öryggi þjónustunnar.
Upptökusvæði HSS er stórt, 24 þúsund manns og til viðbótar er millilandaflugvöllurinn og allir sem þar starfa, auk ferðamanna. Heilsugæslan þjónustar einnig íbúa á Ásbrú sem margir eiga lögheimili annars staðar á landinu. Því er fjármagni ekki úthlutað á sanngjarnan hátt til stofnunarinnar þar sem miðað er við lögheimili þeirra. Hjúkrunarráð hvetur þingmenn umdæmisins til þess að bregðast við þessari skýrslu á sanngjarnan hátt með hærri fjárframlögum til HSS.
Mikill mönnunarvandi hefur einnig verið í geðteyminu og vantar meðal annars hjúkrunarfræðing þar og yfirsálfræðing og lækna sem þurfa að sinna geðheilbrigðismálum en íbúasamsetning svæðisins kallar á slíkt.
Ekki hefur verið starfandi yfirhjúkrunarfræðingur á heilsugæslu síðan 2015. Tvívegis hefur hjúkrunarráð síðan 2015 haft samband við framkvæmdastjórn HSS til að reyna að fá úr þessu bætt en það hefur ekki ennþá gerst.
Í skýrslu Landlæknisembættisins eru ábendingar sem hjúkrunarráð hvetur framkvæmdarstjórn til þess skoða. Það þarf að sinna þeim brýnu málefnum sem fyrst til að auka öryggi skjólstæðinga og halda utan um þann mannauð sem vinnur á HSS og skapa þeim viðunandi aðstæður til þess að vinna sína vinnu faglega og örugglega.
Við sem störfum á HSS vitum að það hefur verið naumt skammtað af fjármunum af hálfu stjórnvalda og vissulega hefur framkvæmdastjórn farið fram á úrbætur og reynt að fá auka fjárveitingar en ekki haft erindi sem erfiði.
Framundan er samstarfsverkefni stjórnenda og starfsmanna HSS ásamt þingmönnum þar sem allir verða að taka á honum stóra sínum. Nú er lag að í ljósi þessarar hlutaúttektar að fara fram á frekari fjárveitingar HSS til handa til þess að geta haldið áfram að stækka og dafna og þannig haldið áfram að geta tryggt okkar skjólstæðingum það öryggi og þjónustu sem þeir þurfa á að halda.
Hjúkrunarráð HSS, Jón Garðar Viðarsson, Katrín Guðmundsdóttir , Steina Þórey Ragnarsdóttir , Vigdís Elísdóttir.