Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nú styttist í kosningar
Sunnudagur 21. maí 2006 kl. 13:37

Nú styttist í kosningar

Nú er tækifæri til að horfa til framtíðar og velta því fyrir sér hvernig við viljum hafa komandi kjörtímabil. En til að geta byggt upp framtíðina þarf maður að þekkja fortíðina.

Það er ýmislegt sem bæjarbúar þurfa að huga að áður en þeir ganga að kjörborðinu, til að kjósa sér nýjan meirihluta í Sandgerðisbæ.

Fráfarandi meirihluti hefur verið við völd á annan áratug og mjög eðlilegt að hann geti bent á ýmislegt gott sem hann hefur gert. Hinsvegar er það ljóst að það er ýmislegt sem betur má fara. Á kjörtímabilinu var seldur stór hluti af eignum bæjarfélagsins fyrir u.þ.b. 500 milljónir. Um 200 milljónir fóru í fjárfestingu og viðhaldsverkefni, þetta eru peningar sem voru teknir af söluverðinu og runnu aftur til Fasteignar ehf, þar af fóru rúmar 80 milljónir í hlutafé. Eftir stóðu 300 milljónir sem varið var í að greiða niður skuldir.  Nú er staðan þannig að búið er að taka að láni aftur 225 miljónir til að standa undir fjárfestingum í Vörðunni og rekstri bæjarfélagsins. Þannig að eignir bæjarfélagsins voru seldar til að hægt væri að byggja Vörðuna. Við skuldum sem sagt álíka mikið og áður en eigum ekki lengur eignirnar á móti. Þarna er pottur brotinn í fjármálastefnu bæjarins. Þetta ætlar S-listinn að endurskoða og tryggja að skynsemi ráði ferðinni í fjármálastefnu bæjarins.

Samkomuhúsið var byggt á sínum tíma af hugsjónafólki af myndarbrag og eigum við bæjarbúar margar góðar minningar þaðan. Í dag leigjum við Samkomuhúsið á u.þ.b. 750 þúsund krónur á mánuði. Þetta gera 9,0 milljónir á ári og fer hækkandi í samræmi við gengi evrunnar, þar sem 55% leiguverðsins er bundið gengi hennar. Vissulega er Samkomuhúsið allt hið glæsilegasta og vissulega hefði það kostað bæjarfélagið nokkra tugi milljóna að koma því í það horf sem það er í dag. Við erum mjög stolt af Samkomuhúsinu okkar. En hafa ber í huga að meirihlutinn hefur í áratugi leyft húsinu að grotna niður án þess að huga að eðlilegu viðhaldi.  Þar af leiðandi var mun dýrara að koma því í viðunandi ástand heldur en ef skynsemin hefði fengið að ráða ferðinni.

Við á S - listanum teljum okkur geta staðið við okkar loforð og bjóðum um leið ábyrga fjármálastefnu sem tryggir góða þjónustu og uppbyggingu í bæjarfélaginu okkar.  Við bjóðum upp á jöfnuð og lýðræði þar sem bæjarbúar taka þátt í ákvörðunum.

S-listinn býður fram gott, traust og duglegt fólk með mikla þekkingu til að standa vörð um hagsmuni allra Sandgerðinga.

                                   Nú er tækifærið, grípum það.

                            Allir með látum X við S í Sandgerði

                     Guðrún Arthúrsdóttir skipar annað sæti á S-lista
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024