Nú hefur eplið fallið langt frá eikinni
Í Víkurfréttum 26. september sl. birtist grein undir yfirskriftinni: „Skurðstofur HSS teknar niður. Ekki fýsilegt að uppfæra skurðstofurnar og nýta af Landspítala. Síðasta aðgerðin í nóvember.“
Markús Ingólfur Eiríksson forstjóri HSS sagði að ekki væri fyrir hendi peningar til reksturs né endurnýjunar tæknibúnaðar. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur því samþykkt að skurðstofurnar verði teknar niður.
Því kom upp í huga minn „eplið fellur ekki langt frá eikinni“ með öfugum formerkjum. Þegar Svavar Gestsson, faðir Svandísar, var heilbrigðisráðherra var hlúð að landsbyggðinni og nutu Suðurnesjamenn þess. Hann veitti stöðugildi fæðingar- og kvensjúkdómalæknis við sjúkrahúsið. Samfélagið var þakklátt fyrir þá skipan og flestir foreldrar á Suðurnesjum og víða af landinu vildu fæða börn sín og njóta annarar þjónustu við sjúkrahúsið. Yfirmenn sjúkrahússins og heilsugæslu voru heimamenn sem höfðu tilfinningu fyrir þörfum íbúanna.
Það voru ekki eingöngu ráðamenn sem gerðu vel við sjúkrahúsið á þeim tíma. Sveitarfélögin voru öll einhuga í að vinna að uppbyggingu heilbrigðismála á Suðurnesjum. Almenningur gerði einnig sitt, þá voru virk félagasamtök sem lögðu hönd á plóginn eins og Styrktarfélag sjúkrahússins og Félag foreldra sem hét Börnin og við. Flest öll góðgerðarfélög og klúbbar styrktu uppbyggingu og tækjakaup til heilsugæslu og sjúkrahússins. Því svíður mörgum að sjá fréttir um að skurðstofur HSS verði teknar niður. Það er af sem áður var þegar menn voru með uppbyggingu í huga en ekki niðurrif.
Sólveig Þórðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.