Nú er nóg komið!
Enn er niðurskurðarhnífnum beint að Suðurnesjum, nú með mun óvægnari hætti en fyrr. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er Heilbrigðisstofnun Suðurnesja gert að spara 400 milljónir eða sem svarar 25% af heildarútgjöldum stofnunarinnar. Sparnaðurinn skal þó allur verða á sjúkrahússviði sem þýðir um 50% niðurskurð þar. Ekki þarf fjörugt ímyndunarafl til að sjá að þetta hlýtur að þýða fjöldauppsagnir og skerðingu á þjónustu sem aldrei fyrr. Ekki er á bætandi, en atvinnuleysi á Suðurnesjum er nú með því mesta sem þekkst hefur í seinni tíð.
Niðurskurður er óumflýjanlegur. Nú er neyðarástand í ríkisfjármálum og ekki hægt annað en horfast í augu við þá staðreynd að þjónustustörf hjá ríkinu skila ekki tekjum í kassann heldur þvert á móti. En hvað þýðir þetta fyrir Suðurnesin? Skila þessar aðgerðir tilætluðum árangri? Er samhengi milli niðurskurðar og sparnaðar? Allt eru þetta spurningar sem leita á hugann þegar horfst er í augu við yfirgripsmiklar aðgerðir af þessu tagi.
Eins og ávallt þegar skorið er niður í heilbrigðismálum er hætt við að skerðingin komi harðast niður hjá þeim sem síst skyldi, þ.e. öldruðum, langveikum og öðrum sem eiga um sárt að binda. Þetta fólk mun í auknum mæli þurfa að leita til höfuðborgarinnar eftir þjónustu. Hvað kostar það? Er það tekið með í reikninginn þegar ákvarðanir af þessu tagi eru teknar? Fyrir utan óþægindin sem það veldur, vinnutapi hjá ættingjum sem þurfa að aðstoða og svo framvegis. Allt væri þetta þó skiljanlegt ef þjónustuaðilar í Reykjavík væru vel í stakk búnir til að taka við auknu álagi og þjónustan þar væri ódýrari og skilvirkari en hún er á Suðurnesjum. En svo er ekki. Landspítalinn er yfirfullur og ekki bætandi á álagið þar og sama gildir um göngudeildir þeirrar annars ágætu stofnunar sem og sérfræðiþjónustu í Reykjavík, sem reyndar mun eiga að skera verulega niður einnig á komandi árum.
Sem leikmanni sýnist manni því í fljótu bragði að ólíklegt sé að þessar aðgerðir skili þeim árangri sem réttlætir fjöldauppsagnir og stórfellda þjónustuskerðingu fyrir Suðurnesin. Enn á ný sýnist manni að lækka eigi þjónustustigið á landsbyggðinni til að halda uppi atvinnu í Reykjavík. Þetta er ekki boðlegt. Það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu að nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum séu hugsaðar á þann hátt að hagkvæmni sé sem mest, að haldið sé uppi nauðsynlegu þjónustustigi á landsbyggðinni og sparnaður sé ekki gerður að engu með stórfelldum fólksflutningum á milli landshluta. Gerum þá kröfu að niðurskurður skili raunverulegum sparnaði og að hagsmunir landsbyggðar séu ekki endalaust látnir víkja fyrir hagsmunum höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Sif Gunnarsdóttir,
varabæjarfulltrúi sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.