Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nú er gott að eiga góða stíga!
Nýjasti heilsustígurinn frá Heiðarenda niður í Gróf.
Sunnudagur 11. apríl 2021 kl. 17:43

Nú er gott að eiga góða stíga!

Uppbygging göngu- og hjólastíga í Reykjanesbæ hefur verið á dagskrá frá 2014 og því verið sinnt eins og fjárhagur bæjarins hefur leyft hverju sinni. Betri fjárhagsstaða bæjarins - þökk sé ábyrgri fjármálastjórn - hefur gert það verkum að hægt hefur verið að setja stóraukinn kraft í uppbygginguna undanfarin ár.

Eldri göngustígar hafa verið uppfærðir í heilsustíga, malbikaðir, breikkaðir, upplýstir og settir niður bekkir meðfram þeim með reglulegu millibili. Gerðir hafa verið nýir heilsustígar um Vatnsholtið og frá Heiðarenda um „sveitina“ í Grófinni niður að smábátahöfninni. Í vor verður svo næsti leggurinn lagður frá undirgöngunum undir Þjóðbraut við Hlíðarhverfi að nýja gervigrasvellinum og áfram niður á Strandleiðina okkar fallegu og þar með verðum við komin með heilsuhring um Keflavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Næstu áfangar á heilsustígunum eru svo áætlaðir á þessu ári í Njarðvík; frá Bolafæti inn í Njarðvíkurskóga að fjölskyldusvæðinu (með þrautabrautinni, grillaðstöðunni, folfvellinum og hundagerðinu) og tengja Bolafótinn niður að sjó við Strandleiðina og þá lokum við heilsuhringnum um Njarðvík. Þá verður á lagður á árinu stór heilsustígshringur um Ásbrú sem tengjast mun stígakerfinu sem fyrir er.

Áður höfðum við tengt Reykjanesbæ við Leifsstöð með hjóla- og göngustíg upp af Vesturgötunni og gert náttúrustíga, þjappaða malarstíga, í Vatnsholtinu, í Njarðvíkurskógum og á Fitjum. Samhliða þessu hafa gangstéttir og stígar í Dalshverfunum í Innri-Njarðvík verið byggðar upp jafnt og þétt undanfarin ár– og var kominn tími til.

Hringtengjum Suðurnesin

Stígagerð er fyrirhuguð í Höfnum og leitast þarf í náinni framtíð við að tengja Hafnirnar við hin hverfi bæjarins með hjóla- og göngustíg ásamt því að tengja við Suðurnesjabæ út í Garð. Hjóla- og göngustígur útí Garð væri mikilvæg tenging við Leiruna og myndi vera gerður í samvinnu við Vegagerðina og Suðurnesjabæ og stígurinn út í Hafnir yrði einnig fyrsti áfanginn á hjóla- og göngustíg alla leið út á Reykjanestá.

Annar hjóla- og göngustígur sem Vegagerðin gæti komið að væri tenging Reykjanesbæjar við útivistarsvæðið okkar í Sólbrekkum. Þar er unnið eftir nýsamþykktu skipulagi, kominn er náttúrustígur í kringum Seltjörn, verið er að gera bílstæði og vonandi rís þar bálskýli með útikennslustofu og umhverfisvænum salernum í sumar eins Skógræktarfélag Suðurnesja stefnir að með aðstoð Reykjanesbæjar.

Stigurinn í Sólbrekkur gæti komið í beinu framhaldi af Strandleiðinni eftir Stapagötu - gömlu þjóðleiðinni - og yfir Vogastapann niður í Sólbrekkur og svo áfram til tengingar við stíg sem Grindvíkingar hafa lagt. Þá höfum við tengt Reykjanesbæ og Grindavík með hjóla- og göngustíg og náð mikilvægum áfanga í hringtengingu hjóla- og göngustíga á Suðurnesjum sem er lokamarkmiðið.

Undirritaður er einn þeirra sem undanfarið kóf-ár hefur nýtt sér hjóla- og göngustígana okkar til líkamlegrar og ekki síst andlegrar heilsubótar og er ekki einn um það, það sést á mælingum á notkun stíganna og öllum þeim fjölda sem maður hittir á röltinu. Vandað stígakerfi er ekki síður lýðheilsumál en samgöngumál og góðar viðtökur bæjarbúa hvetja okkur til þess að halda áfram markvissri uppbyggingu stígakerfisins.   

Eysteinn Eyjólfsson,
formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar