Nokkur sátt um D-álmuna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar
Svo virðist sem nokkur sátt ríki um málefni D-álmu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja innan bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Fulltrúar allra flokka innan bæjarstjórnar tjáðu sig um málefni stofnunarinnar á bæjarstjórnarfundi þann 6. apríl sl. en Kjartan Már Kjartansson óskaði eftir umræðum um málið.
Bæjarfulltrúar voru sammála um að D-álman yrði nýtt undir langlegudeild fyrir aldraða sjúka á meðan unnið væri að því að nýtt hjúkrunarheimili yrði reist. Töluverðar umræður sköpuðust um málið og reyndu Sjálfstæðismenn að fá sameiginlega bókun samþykkta um málið, en eftir viðræður fulltrúa allra flokka var það sameiginleg niðurstaða að fresta bókun um málið.
Kjartan Már Kjartansson framsóknarflokki
„Á meðan við höfum ekkert annað fast í hendi þá á að nýta D-álmuna á þann hátt sem upphaflega var ætlað, þ.e. sem langlegudeild fyrir sjúka aldraða. Samhliða þarf að huga að annarri lausn ef það er rétt sem læknar og stjórnendur stofnunarinnar segja að D-álman sé ekki framtíðarlausn fyrir sjúka aldraða. Ég legg mikla áherslu á að D-álman verði á meðan nýtt undir það sem upphaflega var ætlað.“
Árni Sigfússon sjálfstæðisflokki
„Við teljum mjög mikilvægt að hér rísi hjúkrunarheimili og við teljum að nútímakröfur um hjúkrunarheimili kalli á stærri einingu en D-álman býr við í dag. Við óskum eftir skýrum svörum frá heilbrigðisráðuneytinu varðandi framkvæmdaleyfi til byggingar hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ.
Á meðan unnið er að málinu er eðlilegt að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja brúi það bil sem skapast og að fagfólk stofnunarinnar tilgreini hvernig það mál er leyst.“
Guðbrandur Einarsson Samfylkingu
„Við horfum á það að D-álman var ætluð sem hjúkrunarheimili fyrir aldraða og hafi menn hug á því að nýta hana með öðrum hætti þá skal það vera tryggt að annað úrræði sé til staðar.
Ef að sú staða er komin upp að meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar ætli sér að sækja um framkvæmdafé til byggingu nýs hjúkrunarheimilis, þá verður Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að tryggja úrræði þar til það hjúkrunarheimili er tekið í notkun.“
Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra
Í hvaða farveg innan ráðuneytisins fer beiðni um byggingu hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ?
„Ég þarf nú að fá erindið fyrst. Ég veit ekki um hvað það snýst hvað snýr að magni og eða hugmyndum. Erindið mun fá hefðbundna meðhöndlun hér í ráðuneytinu, en við erum með mikinn stafla af umsóknum hér. Ég vil fá að sjá hugmyndirnar fyrst áður en ég tjái mig um þær.“
Telurðu að ríkið hafi fjármagn til að byggja slíkt heimili og að reka það?
„Það er rekstrarfjármagnið sem er mesta vandamálið. Það er gífurlegur þrýstingur í málum sem þessum hér á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og á Selfossi þar sem við erum með stór verkefni í gangi. Það er alltaf á brattan að sækja í þessum efnum, en við munum fara yfir þessa umsókn þegar hún kemur og skoða það hvaða möguleikar eru í stöðunni. En ég get ekkert sagt um það núna.“
Myndin: Konráð Lúðvíksson yfirlæknir HSS ræðir við Steinþór Jónsson bæjarfulltrúa á bæjarstjórnarfundi á dögunum.