Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Nokkur orð um fasteignaskatt
  • Nokkur orð um fasteignaskatt
    Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
Föstudagur 13. febrúar 2015 kl. 09:26

Nokkur orð um fasteignaskatt

– Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri skrifar

Síðustu daga hefur talsverð umræða farið fram um hækkun fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði í Reykjanesbæ, sem sumpart byggist á misskilningi og vert er að leiðrétta. Það þarft vart að taka það fram að umrædd hækkun er neyðarúrræði sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti samhljóða vegna bágrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins sem við þekkjum öll.

Ekki 67% hærri en annars staðar
Með því að hækka skatthlutfallið um 0,2 prósentustig, úr 0,3% í 0,5% af fasteignamati, er Reykjanesbær kominn í hóp 33 annarra sveitarfélaga á Íslandi, af alls 72, sem leggur á sama skatthlutfall þ.e. 0,5% af fasteignamati. Það er því ekki rétt að fasteignaskattur í Reykjanesbæ sé 67% hærri en hjá öðrum sveitarfélögum, eins og hefði mátt skilja af fréttum sumra fjölmiðla, heldur er hann sá sami og hjá nær helmingi sveitarfélaga á Íslandi. Þetta þýðir að fasteignaskattur af 30 milljón króna eign hækkar um kr. 60 þús. á ári.

Mismunandi fasteignamat
Þetta segir samt ekki alla söguna því eins og fram kemur hér að framan er skatturinn 0,5% af fasteignamati sem er misjafnt eftir sveitarfélögum, bæjarhlutum, hverfum og jafnvel götum í stærstu sveitarfélögunum. Fasteignamat er endurreiknað árlega og á að endurspegla markaðsverð húsnæðis á hverjum stað. Allir kaupsamningar sem gerðir eru í febrúar eru notaðir til þess að meta og reikna út fasteignamat fyrir næsta heila ár á eftir. Fasteignamatið fyrir fasteignir í Reykjanesbæ árið 2015 byggir því á öllum kaupsamningum sem gerðir voru í Reykjanesbæ í febrúar 2014. Þannig getur 0,5% fasteignaskattur á 100 fermetra íbúð í Reykjanesbæ verið lægri í krónutölu en 0,5% fasteignaskattur á sams konar íbúð í einhverju öðru sveitarfélagi á Íslandi þar sem markaðsverð íbúðarhúsnæðis er hærra eða lægra.

Fasteignaskattur v.s. fasteignagjöld
Það eru ýmis fleiri gjöld sem þarf að greiða af fasteignum s.s. lóðarleiga, fráveitugjald, vatnsgjald og sorpgjald. Þessi gjöld eru einnig mismunandi eftir sveitarfélögum. Saman eru þessi gjöld einu nafni nefnd fasteignagjöld. Með hækkun fasteignaskatts úr 0,3% í 0,5% munu fasteignagjöld í Reykjanesbæ í heild sinni verða lítillega hærri en á Akureyri en lægri en á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar þar sem fasteignamat er hærra.

Með vinsemd og virðingu

Kjartan Már Kjartansson,
bæjarstjóri Reykjanesbæjar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024