Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nóg komið af óeiningu og sundrung!
Mánudagur 17. október 2011 kl. 15:20

Nóg komið af óeiningu og sundrung!

Gagnsæi er af hinu góða

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Skólasamfélag er eitthvað sem varðar okkur öll. Starf kennara viðkemur marga. Það er löngu liðin tíð að kennari sé einvaldur í skólastofunni og geti nánast leyft sér að segja hvað sem er. Þannig kennsluhættir heyra sögunni til. Við vitum það, sem höfum tengst skóla bæði sem börn og fullorðnir, að margir hverjir eiga ekki góðar minningar frá grunnskólaárunum. Í bæklingnum, Einelti meðal barna og unglinga sem ráðlegging til foreldra eftir Dan Olweus segir að rannsóknir í Noregi og víða annars staðar í Evrópu og Norður – Ameríku bendi því miður á þá alvarlegu staðreynd að einelti sé bæði grófara og algengara í dag en fyrir tuttugu árum. Framkoma kennara og annars starfsfólks skiptir líka miklu máli. Rannsóknir á heimsvísu benda líka á þá dapurlegu staðreynd að einelti gerist að mestu leiti í lífi barns í skólanum en einnig á leikskólum, leikvöllum, íþrótta- og félagsmiðstöðvum. Ljóst er að lífi barns á degi hverjum er ekki lokið þegar skóla lýkur.

Einelti er ofbeldi

Við vitum að einelti er dauðans alvara. Við í Gerðaskóla gerum okkur vel grein fyrir því að einelti er eitthvað, sem enginn á að þola. Drögum ekki dul á það að hér innan dyra eru líka foreldrar og við höfum þá sömu sýn og berum líka umhyggju fyrir okkar börnum alveg eins og aðrir foreldrar. Sumir hafa jafnvel þá reynslu sem börn og fullorðnir að hafa orðið fórnalömb eineltis. Við teljum okkur hafa ágætan skilning á því hvað einelti er í vel upplýstu samfélagi og skiljum vel þá vondu tilfinningu sem því fylgir. Við erum ekki tilfinningalausir einstaklingar með bleik gleraugu og horfum upp í skýin og teljum okkur trú um það að Gerðaskóli sé hreinsaður af einelti. Við erum að glíma við þennan vanda daglega eins og allir skólar á landinu og erlendis eins og fyrr segir. Eins og gefur að skilja þá er skólasamfélag hreyfanlegt þar sem nýir nemendur koma og aðrir fara. Það segir okkur að vinna við einelti tekur í raun engan endi.

Einstaklingar misjafnir eins og þeir eru margir

Svo ég haldi áfram að vitna í bækling Dan Olweus þá er útlistað um hvaða einstaklingar eru meira í hættu á að vera lagðir í einelti og hvaða einstaklingar eru í meiri hættu á að leggja í einelti. Þolendur eineltis eru oft á tíðum hlédrægir, varkárir, viðkvæmir og stutt í tárin. Síðan eru þeir einstaklingar, sem kallast ögrandi þolendur. Þeir þykja eirðalausir, skapbráðir og jafnvel almennt litið á þá sem erfiða. Þeir reyna jafnvel sjálfir að leggja meira veikburða einstaklinga í einelti. Síðan eru það þeir sem eru að leggja í einelti. Þeir einstaklingar hafa meiri þörf en aðrir á að ráðskast með aðra og valta yfir viðkomandi, upphefja sig með valdi og hótunum til að fá sínu framgengt. Auðvitað eru þetta sláandi lýsingar en engu að síður staðreyndir á borðinu. Þetta sýna rannsóknir og við skulum styðja okkur við þær að þessu sinni.

Aðkoma foreldra

Skóli er stór hluti af lífi barna. Þau verja mörgum mánuðum yfir árið í skólanum. En eins og gefur að skilja þá á skólinn ekki einn og sér að standa í þeirri baráttu að sporna við einelti. Foreldrar og önnur félög spila einnig stóra rullu inn í það samstarf. Ég veit að flestir foreldrar myndu vilja verja öllum sínum tíma með börnum sínum. En vegna annarrar ábyrgðar þá er það ekki hægt. Fólk þarf að sækja vinnu eins og gefur að skilja. Verum samtaka í því að bera sameiginlega ábyrgð og styðjum börnin okkar í því að einelti á aldrei rétt á sér. Útskýrum og styðjum börnin okkar í því að þekkja sínar eigin tilfinningar og hjálpum þeim einnig að skilja tilfinningar annarra. Dan Olweus útlistar upplag þolenda og gerenda eins og kemur hér fram að ofan. En með samstilltu átaki þá geta allir lært umhyggju og virðingu fyrir náunganum þó sumir þurfi meira aðhald en aðrir.

Hlutverk skólanefndar

Ég geri ráð fyrir því að það hafi ekki farið fram hjá neinum sú neikvæða umræða sem hefur átt sér stað í samfélaginu gagnvart Gerðaskóla. Ég spyr hvaða gagn er í því að rífa niður þær grunnstoðir, sem skólinn byggir á, sem er samvinna? Samvinna er skólinn og skólinn er samvinna. Hvert er hlutverk skólanefndar? Ég geri mér fulla grein fyrir því að pólitískt kjörnir fulltrúar skipa í skólanefnd. Eins og gefur að skilja þá er mikilvægt að kynna sér það hlutverk ítarlega áður en lagt er af stað í þá vinnu sem skólanefnd þarf að inna af hendi. Skólanefnd er hluti af stoðkerfi skólans. Í upphafi eineltisumræðunnar þá hefur ekki komið sú sýn eða sá vilji skólanefndar að vera styðjandi. Í allri þeirri umræðu, sem hefur átt sér stað og því niðurrifi sem er búið að eiga sér stað þá hefur skólanefnd ekki talið sig knúna til að veita andlega aðstoð og stutt starfsfólk Gerðaskóla. Með aðgerðaleysi, sem þessu eins og stjórnsýslan hefur sýnt og sannað þá brotnar skólinn innan frá og hvað er þá eftir? Skólakerfið virkar þannig að það getur ekki funkerað nema með samvinnu foreldra og skólayfirvalda. Skólinn er lifandi afl ekki dauður hlutur sem hægt er að ráðskast með eftir eigin geðþótta.

Pólitískt sjónarspil?

Ég tel að upphaflegur vilji bæjastjóra sé að gera vel. En ég spyr mig í dag hvort að um auglýsingaherferð eða um lobbíisma sé að ræða eftir að hafa lesið viðtal við bæjarstjóra sem birt var í Víkurfréttum 13. október s.l. Eins og fram kemur að ofan þá er skólinn lifandi afl. Bæjarstjóri vitnar í skýrslu frá 2008, sem kom að einhverju leyti ekki vel út. Gleymst hefur þó í umræðunni að hún var líka jákvæð en eins og við vitum öll þá er oft meiri tilhneiging að leka neikvæðni en jákvæðni. Það þekkist vel í okkar mannlega lífi að við sjáum tíu góða hluti og einn slæman og þá er því miður oft á tíðum fókusinn á þann eina slæma. Mér skilst að eftir niðurstöðu skýrslunnar hafi strax verið tekið á mörgum praktískum málum innan skólans. Því miður verður að segjast að neikvæðnin í garð skólans er með öllu ólíðandi til að mynda alhæfingar eins og ekkert sé að gert í eineltismálum í Gerðaskóla og slæmur skólabragur. Í raun er verið að segja að allt starfsfólk Gerðaskóla séu viljalaust verkfæri og við göngum um eins og höfuðlaus her innan um máttlausa stjórnendur? Blaðamaður spyr bæjarstjóra hvort að skólinn sé í gíslingu? Hér segir orðrétt: „Ég er ekki að segja það að hann sé í gíslingu en það er margt í skólabragnum sem má betur fara. Hér eru góðir kennarar og það er lýsandi fyrir góða kennara að þeir eru sterkir persónuleikar og láta mikið að sér kveða. Það þarf að beisla það góða í þeim og skólanum, börnunum til heilla. Kennararnir eru þjónar barnanna, ekki öfugt.” Á bæjarstjóri við að við séum ekki nógu skynsöm og höfum ekki þá vitsmunalegu þekkingu að skilja hlutverk okkar í skólanum? Að reynsla okkar sem manneskjur og fagaðilar hafi ekkert að segja heldur sé okkar faglega þekking í molum? Að við gerum okkur ekki grein fyrir því að án barna og foreldra væri skólinn ekki starfandi? Ég get ekki orða bundist. Að mínu mati er þetta hroki og valdnýðsla af hálfu bæjarstjóra að tala svona niður til sinna undirmanna. Að beita sér með þessum hætti er engan veginn faglegt! Hann segir einnig: ,,Það er ekki tekið nógu fast á málunum og þeim er ekki alltaf fylgt eftir þegar þau koma upp.” Að leyfa sér að halda því fram að ekkert sé að gert í þeim málum sem koma upp hér á borð í Gerðaskóla?! Það er augljóst að dagleg samskipti eru óumflýjanleg hér vegna þess að enn og aftur er skólinn lifandi afl! Enn tekur bæjarstjóri til máls; ,,Það segja mér foreldrar sem koma til mín og leita hér skjóls í málum sínum gagnvart skólanum. Foreldrar sem vilja flytja úr bænum með börnin sín og segjast vera að gefast upp á samstarfi sínu við skólann. Við, sem stjórnum bænum og starfsfólk skólans, verðum að taka höndum saman um það að koma þessum málum í lag. Þau lagast ekki með því að vilja ekki sjá ekki vandann. Hér verða allir að leggjast á eitt og taka á þessum alvarlegu vandamálum saman, samfélagið, foreldrar og kennarar. Við í meirihluta bæjarstjórnar erum tilbúin í það.” Það er mjög leitt að heyra það að fólk þurfi að flytja vegna eineltis. Eitt slíkt dæmi er of mikið. Enginn á að þurfa að flýja af vettvangi, flýja nærumhverfið sitt vegna ofbeldis eins og einelti er. Mér finnst það líka leitt þegar samstarf nær ekki fram að ganga því við vitum það sem eigum hlut að máli að samstarf er lykilforsenda þess að slík mál eins og einelti nái að upprætast. Yfirleitt er viðkomandi fórnarlamb brotið og foreldrar sjá ekkert annað í stöðunni en að flýja með barn sitt úr aðstæðunum. Þetta eru líka staðreyndir sem liggja á borðinu. Ég er sammála bæjarstjóra með það að allir þurfa að leggjast á eitt en ég set spurningamerki við merkingu hans á því. Mér líður eins og ég sé að horfa á kosningabaráttu bæjarstjóra þar sem neyð og tilfinningauppnám nokkurra foreldra er notað í þeirri persónulegu baráttu. Hann segir að þau í meirihluta bæjarstjórnar séu tilbúin í þá vinnu að uppræta einelti. Hefur það einhvern tímann hvarflað að bæjarstjóra að styðja við foreldra, sem koma til hans, með þeim hætti að hjálpa þeim að vinna á sínum málum innan skólans þar sem hluti af vandanum á sér stað? Skólinn getur ekki einn og sér borið alla þá ábyrgð þegar um einelti er að ræða. Það vita allir. Því miður hef ég ekki upplifað neitt samstarf af hálfu þessa ágæta fólks. Ég endurtek að það er verið að rífa skólann í sundur innan frá. Það er verið að grafa undan allri vinnu skólans. Hér er unnið gott starf daglega og sem betur fer er þorri nemenda og foreldra ánægður í skólanum. Það er miður að allir hafi ekki þá sömu upplifun en til þess að hægt sé að vinna með þá nemendur þá er líka mikilvægt að stjórnsýslan gefi skólanum færi á því að vaxa og blómstra í þeirri vinnu. Svona áföll sem hafa dunið á skólanum gerir vinnuumhverfið erfiðara um vik. Það er vegið að starfsháttum og starfsheiðri allra sem koma að skólanum og einnig tel ég að verið sé að gera lítið úr þeim foreldrum og börnum þeirra, sem eru í góðri samvinnu við skólann og hafa góða reynslu af skólanum. Sú sýn og umræða hefur aldrei komið til tals frá stjórnsýslu Garðs. Rannsóknir sýna einnig að best er að vinna á erfiðum málum þar sem þau eiga upptök sín. Svo ég vitni enn og aftur í Dan Olweus þá segir að einelti flokkist sem andfélagsleg hegðun og það snúist gegn reglum. Einnig segir að gerendur séu fjórfalt í meiri hættu á að brjóta af sér seinna meir á lífsleiðinni þannig að það er ekki bara mikilvægt að vinna með þolendur heldur líka gerendur. Sú vinna á sér stað í Gerðaskóla. Það er líka til eitthvað sem heitir samfélagsleg ábyrgð ekki satt? Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og þess vegna er mikilvægt að allir standi saman að uppeldi barnanna því þau eru jú Garðbúar framtíðarinnar.

Anna Elísabet Gestsdóttir, grunnskólakennari í Gerðaskóla.