Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Njarðvíkinni fórnað – til hvers?
Fimmtudagur 14. október 2004 kl. 10:38

Njarðvíkinni fórnað – til hvers?

Nú horfir Njarðvíkin sögunni til. Þessari náttúruperlu og fuglaparadís hefur verið raskað svo rækilega að hún minnir helst á stórskipahöfn. Náttúruleg tengsl hennar við Stakksfjörðinn og úthafið eru rofin. Úr lofti er grjótgarður þessi mest áberandi mannvirkið í Reykjanesbæ!
Í þágu hvers var náttúruperlunni fórnað? Í besta falli var það fyrir misskilning - mikil mistök. Í versta falli stórbrotið skemmdarverk.
Það hefur lítið verið fjallað um þessa framkvæmd á opinberum vettvangi. Í ársgömlu bréfi frá Umhverfisstofnun kemur m.a. þetta fram um framkvæmdina sem þá var fyrirhuguð:
„Í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila kemur fram að fyrirhugað sé að byggja tvo samtals um 740 m langa sjóvarnargarða utan við Njarðvíkurleirur og verði um 175 m breið sjórás á milli garðanna. Gert sé ráð fyrir að vestari garðurinn verði  7,5 m hár og 33 m breiður en sá austari  5,0 m hár og 26 m breiður. Göngustígur verði á um 6 m breiðri fyllingu innan við sjóvarnargarðana og gert sé ráð fyrir þrepum upp á útsýnispalla á krónu garðanna á nokkrum stöðum og göngubrú yfir sjórásina. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 1995-2015 sé gert ráð fyrir tengibraut yfir Njarðvík á fyrirhuguðum sjóvarnargarði en ekki sé fyrirhugað að ráðast í umrædda vegtengingu við fyrirhugaðar framkvæmdir. Grjót og kjarnaefni í sjóvarnargarðinn, samtals um 67.000 m3, verði tekið úr námu á iðnaðarsvæði í Helguvík. Fram kemur að tilgangur framkvæmdarinnar sé að verja útivistarsvæðið á Fitjum og fyrirhugað Víkingaland og naust fyrir flóðatjóni og landbroti og að staðsetning garðanna sé valin til að tryggja að heildarmynd svæðisins haldist og leiran verði ekki klofin frá Fitjum og Víkingalandi með sjóvörn. “


Hvað vinnst og hverju er fórnað?
Í tilvitnaða bréfinu hér fyrir framan kemur fram hvílík ferlíki þessir garðar eru. Fróðlegt væri að vita hvað framkvæmdin öll kostar og hver borgar. Hvað borgar ríkið og hvað borgar Reykjanesbær? Var ekki hægt að verja þessum fjármunum í neitt þarfara?  Lesa má milli línanna að þarna verður komin akbraut eftir fáein ár – þvert ofan í gefin fyrirheit.
Það er ljóst að þeim tilgangi „að tryggja að heildarmynd svæðisins haldist” verður ekki  náð. Leiran er að vísu ekki klofin frá fitjunum, en hún er klofin frá hafinu. Það tekur fyrir útsýni til sjávar á stóru svæði. Var ekkert hugað að þessum geigvænlegu sjónrænu áhrifum framkvæmdarinnar?
En er ekki bráðnauðsynlegt að „verja útivistarsvæðið á Fitjum og fyrirhugað Víkingaland og naust fyrr flóðatjóni og landbroti?“ En ég spyr á móti: Er meira um flóðatjón á þessu svæði en almennt í byggðum Suðurnesja? Hvaða ár hafa orðið stór tjón þarna? Hvað hefur skemmst? Hvar á meint landbrot sér stað?
Jú, ætlunin er að verja fyrirhugað „Víkingaland“ með sjóvörn. En bygging Víkingalands er enn ekki hafin og því varla of seint að færa það ögn fjær fjörunni svo ekki þurfi að fela það bak við sjö metra háa grjótgarða.
Í Njarðvík eru mestu leirur á Suðurnesjum og í framhaldi af þeim sjávarfitjar sem sjór flæðir sjaldan um, þökk sé skerjum og grynningum úti fyrir og náttúrulegum fjörukambi efst. Leirur og sjávarfitjar njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er.
Fjaran er vinaleg og vel fallin til útivistar. Þar er fjölskrúðugt fuglalíf, einkum vor og haust. Lengi vel var sá hængur á að víkin var menguð af mannasaur. Skólpið frá ameríska hernum var leitt út á leiruna. Fyrir nær 3 árum var lögð ný skólplögn langt á haf út. Þá varð fjaran í Njarðvík aftur ómenguð og ákjósanleg  fyrir fugla og menn. En sú dýrð stóð ekki lengi.


Gömul lumma og önnur ný
Hugmyndir um að þvera Njarðvíkina komu fram seint á síðustu öld við gerð aðalskipulags fyrir Njarðvíkurbæ. Náttúruverndarfélag Suðvesturlands hóf þá fræðsluátak um náttúru svæðisins og lukust upp augu margra en hugmyndin komst þó í skipulagið.
Eftir sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna var gert aðalskipulag fyrir sveitarfélagið Reykjanesbæ. Þá var enn klifað á nauðsyn þess að byggja veg og brú þvert yfir Njarðvík, bæði til að stytta vegalengd milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur en þó einkanlega til að hægt væri að leggja nýja skólplögn einmitt þar. Mér er minnisstætt að þrír nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja köfuðu í málið og boðuðu pólitíkusa og starfsmenn Reykjanesbæjar á fund milli jóla og nýjárs. Mættu þar margir og ræddu málið af yfirvegun. Hugmyndin var engu að síður sett í hið nýja aðalskipulag sem framtíðarsýn.
Menn fundu auðvitað betri leið fyrir skólpið og eru þau rök úr sögunni. Í staðinn koma rök um að verja óbyggða víkingabyggð og hindra landbrot sem erfitt er að koma auga á. E.t.v. var  meginástæða þess að rokið var af stað einmitt nú, að koma þurfti í lóg gríðarlegu magni af grjóti sem sprengt var úr berginu við Helguvík til að útbúa lóð fyrir stálpípuverksmiðju. Óvíst er að sú verksmiðja verði byggð og vissara að réttlæta rándýra lóð með því að grjótið úr henni komi altént að gagni!


Grjót og meira grjót
Grjóthleðslur eru víða til gangs og prýði. Hafnargatan í Keflavík er t.d. orðin steinlagt stræti og lítur vel út. Nú er hægt að byggja mikla garða með stórvirkum vélum og kunna menn sér oft ekki hóf. Menn hafa farið offari með þessi tæki í flestum sveitarfélögum á Suðvesturhorninu, m.a. fyrir neðan Hafnargötuna í Keflavík, þar sem öll fjaran og allar minjar um útræði frá Keflavík eru horfnar  undir stórgrýti. Þegar loks tekst að koma skólpinu úr fjörunum verða engar fjörur eftir í þéttbýli til að njóta, aðeins klunnalegir manngerðir grjótgarðar.
Það er eðlilegt að sjór brjóti land. Að vísu hafa menn oft af óvitaskap byggt of nærri sjó og er þá nokkur vorkunn að loka sig af frá hafinu með grjóti og fórna útsýni til  hafs og möguleika ungra sem aldinna að leika sér í sand- og klettafjörum. Nútíma skipuleggjendur eiga að vita betur. Það mætti halda að hér á þessu strjálbýla landi sé hvergi byggingarland að hafa nema að fyllt sé upp í fjörur og víkur. Svokölluð bryggjuhverfi spretta upp á höfuðborgarsvæðinu en þau eru öll byggð á uppfyllingum - fyrst í Grafarvogi, svo Arnarnesvogi, og stefnt er að þess háttar byggð við Kársnes, Gufunes og jafnvel Ánanaust. Skyldum við eiga efir að sjá eitt slíkt hverfi rísa á hluta leirunnar í Njarðvík í skjóli nýja garðsins?


Mildari sjóvarnir
Það er hægt er að verjast sjávarrofi með öðru en stórgrýti. Við aðgrunnar víkur eins og Njarðvík veldur gróður þessu verkefni. Gæti mönnum hafa yfirsést að fyrir botni Njarðvíkur er látlaus “sjóvarnargarður” gerður úr sandi sem melgresi og aðrar jurtir hafa bundið? Slíkir garðar halda sér oftast við sjálfir. Sjór rýfur skörð í þá þegar mikið gengur á en gróðurinn byrjar strax viðgerðir á hljóðlátan hátt. Þeir sem vilja sjá mátt melgresis til að mynda volduga garða ættu að líta niður í fjöru í Stóru-Sandvík á Reykjanesi.
Hollendingar eru frægir fyrir að nema land til sjávar. Ég hef séð hvernig þeir nota grófgerðan strandgróður til að vinna hluta af því verki. Slíkar sjóvarnir duga þó ekki þar sem mikið mæðir á, svo sem við aðdjúpar strendur og annes. Auðvitað þarf stundum að nota grjót, en gæta þarf hófs í því eins og öðru.
Myndirnar tala sínu máli.
Í von um að óafturkræf mistök sem þessi verði aldrei aftur gerð.
Þorvaldur Örn Árnason, vinstri grænn líffræðingur og kennari í Vogum.  [email protected]

Ljósmyndir/Þorvaldur Örn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024