Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Niðrandi ummæli Jóhanns Geirdal
Miðvikudagur 9. júní 2004 kl. 21:04

Niðrandi ummæli Jóhanns Geirdal

Jóhann Geirdal, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, skrifar grein í málgagn Samfylkingarinnar sem út kom fyrir Sjómannadaginn. Greinin fjallar um núverandi kjörtímabil bæjarstjórnar og kosningaloforð síðustu kosninga. Í greininni segir meðal annars: „Svo langt gengu blekkingar að ungir sjálfstæðismenn fjölmenntu með mótmælaspjöld þess efnis að fólk sem starfaði á vellinum mætti ekki kjósa frá sér vinnuna. [...] Þetta var ekki illa meint af þeim, þeir vissu bara ekki betur greyin litlu, þeir höfðu lifað sig inní sýndarveruleika sinna forystumanna.“
Sem herstöðvarandstæðingur í gegnum árin er Jóhann kannski vanur að svona aðgerðum sé beint gegn honum. Því var þó ekki að heilsa í þetta skiptið því umræddar aðgerðir voru fyrir alþingiskosningarnar 2003. Aðgerðirnar beindust því ekki gegn minnihlutanum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og klárt er að þær voru ekki hluti af kosningabaráttu vegna sveitarstjórnarkosninga sem voru löngu afstaðnar. Með aðgerðunum voru ungir sjálfstæðismenn að benda á afstöðu einstaklinga í landsforystu Samfylkingarinnar til veru Varnarliðsins á Íslandi.

Stjórnmálaáhugi ungs fólks er dýrmætur
Það er öllum sveitarfélögum mikilvægt að hafa öflugar stjórnmálahreyfingar; öflugt fólk í stjórnmálastarfi sem af óeigingirni vill vinna bæjarfélagi sínu og samborgurum gagn. Gildir þá einu hvaða stjórnmálahreyfingu fólk tilheyrir. Þó ungliðahreyfing Sjálfstæðisflokksins hafi verið virkasta hreyfing ungs fólks í stjórnmálum í Reykjanesbæ er langur vegur frá því að hér hafi nægilega margt ungt fólk áhuga á því að taka þátt í stjórnmálum.
Ungir sjálfstæðismenn hafa í gegnum árin reynt eftir bestu getu að hvetja ungt fólk til áhrifa og hafa jafnframt átt góð samskipti við ungliðhreyfingar hinna stjórnmálaflokkanna. Það er afskaplega dapurt að sjá kennaramenntaðan oddvita Samfylkingarinnar tala með svo niðrandi hætti um ungt fólk sem vill taka þátt í stjórnmálum og gera því skóna að það sé heilaþvegið af flokksforystunni.
Auðvita taka ungir sjálfstæðismenn gagnrýni á störf sín eins og aðrir en hljóta um leið að harma alla vanvirðingu í garð ungs fólks. Jóhann Geirdal væri meiri maður ef hann bæðist afsökunar á niðrandi ummælum sínum um ungt fólk og viðhefði málefnalegri málflutning í framtíðinni. Þannig myndi hann vera sínum ungliðum betri fyrirmynd og síður fæla ungt fólk frá því að taka þátt í stjórnmálastarfi.

Georg Brynjarsson
f.v. formaður Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024