Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nemendur sem við erum stolt af
Þriðjudagur 27. apríl 2010 kl. 11:41

Nemendur sem við erum stolt af

Í ljósi umræðna og umfjöllunar um slakan árangur nemenda í grunnskólum á Suðurnesjum langar stjórnendur Heiðarskóla til að koma eftirfarandi á framfæri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Þegar fjallað er um gæði skólastarfs þarf að líta til margra þátta. Í góðum skóla líður nemendum vel og þar þarf að ríkja vingjarnlegt andrúmsloft. Góð samskipti þurfa að vera milli allra aðila sem koma að skólastarfinu. Nemendur þurfa að vera metnaðarfullir, færir í samskiptum og sýna góðan árangur í því sem þeir taka sér fyrir hendur.


Í Heiðarskóla vinnur metnaðarfullt starfsfólk, sem sífellt er að leita leiða til að bæta skólastarfið, líðan nemenda, félagsfærni og námsárangur þeirra. Grunnskólar eiga að meta sitt innra starf, skoða hvað vel er gert og hvað þarf að bæta. Á nokkurra ára fresti tekur Menntamálaráðuneytið út sjálfsmatsaðferðir skóla og vorið 2008 voru matsaðferðir Heiðarskóla skoðaðar. Skólinn fékk góða umsögn og uppfyllti að öllu leyti viðmið ráðuneytisins.


Fjölmargar kannanir eru lagðar fyrir nemendur, foreldra og starfsmenn skólans með það að markmiði að efla starfið. Þegar veikleikar greinast eru unnar áætlanir til umbóta. Í könnunum sem, Samband íslenskra sveitarfélaga, Heiðarskóli og aðrir hafa unnið er m.a. spurt um líðan nemenda og viðhorf þeirra og foreldra til skólastarfsins. Niðurstöður sýna að nemendum líður vel í Heiðarskóla og viðhorf foreldra til skólans er mjög gott. Þegar skólastarf er metið horfum við því ekki einungis til samræmdra könnunarprófa í 4., 7. og 10. bekk en að sjálfsögðu nýtum við okkur niðurstöður úr þeim könnunum og skoðum hvað við getum gert betur.

Nemendur Heiðarskóla hafa undanfarin ár verið að standa sig mjög vel í þeim samræmdu prófum sem fyrir þá hafa verið lögð. Í langflestum tilfellum eru þeir yfir landsmeðaltali og í nokkrum tilfellum eru nemendur vel yfir því.

Á töflunum hér til hliðar má sjá árangur nemenda skólans haustið 2009 og meðaltal á samræmdum prófum 2005 – 2009. Einkunnir eru normaldreifðar á bilinu 0 – 60 og landsmeðaltal er 30.


Gaman er að geta þess að þeir nemendur sem við útskrifum í vor úr 10. bekk, náðu að vera með þriðju hæstu einkunn í stærðfræði yfir landið. Í íslensku eru þeir í 10. – 11. sæti og í ensku með 13. hæstu einkunn yfir landið.
Ef við skoðum aðra þætti, en hefðbundið bóknám, þá getum við t.d. nefnt að lið Heiðarskóla hefur síðastliðin þrjú ár komist í úrslitakeppni í Skólahreysti. Keppnin hefur verið sýnd í beinni útsendingu á RÚV og stóð Heiðarskóli uppi sem sigurvegari á síðasta skólaári.


Þegar við lítum yfir nemendahópinn sjáum við kröftuga, áhugasama og hæfileikaríka einstaklinga, sem leggja sig fram af metnaði. Gildir þá einu hvort um hefðbundið skólastarf er að ræða eða frábær atriði á árshátíðum. Við vitum að nemendur eru ekki einungis að standa sig vel í skólanum, heldur stunda þeir tónlistarnám af miklu kappi og ná frábærum árangri í hinum ýmsu íþróttagreinum svo eitthvað sé nefnt. Margoft hafa nemendur sýnt og sannað hvers þeir eru megnugir og getum við sannarlega verið stolt af þeim.


Gunnar Þór Jónsson,
skólastjóri Heiðarskóla


Sóley Halla Þórhallsdóttir,
aðstoðarskólastjóri Heiðarskóla


Bryndís Björg Guðmundsdóttir,
deildarstjóri Heiðarskóla


Sigurbjörg Róbertsdóttir,
deildarstjóri Heiðarskóla