Náttúruperlur í Sveitarfélaginu Vogum: Eldborg, Lambafellsgjá og Sóleyjakriki
Í dag, þriðjudaginn 26. júní göngum við á Eldborg og í Lambafellsgjá og Sóleyjakrika. Mæting kl. 19.30 á Höskuldarvöllum við Eldborg. Það er sérstök upplifun að ganga langt inn í fjall! Auðveld ganga.
Eldborg við Trölladyngju er einn af gígunum sem Afstapahraun rann úr árið 1151. Afstapahraun er næst yngsta hraunið í sveitarfélaginu.
(Yngst er Arnarseturshraun við Snorrastaðatjarnir, frá 1226, heimildarmaður um aldur hraunanna er Haukur Jóhannesson, jarðfræðingur.) Hin upptök Afstapahrauns eru í fallegum gíðum við Selsvelli nokkru sunnar. Tóin við malarnámuna og háspennulínuna, sem skoðuð var í gönguferð fyrir viku síðan, er lítil landspilda sem slapp naumlega við að lenda undir Afstapahrauni (óbrinnishólmi).
Vestara-Lambafell slapp auðveldlega við að lenda undir Afstapahrauninu, enda 160 m hátt. Því er svo lýst í bók Sesselju: “Í fellinu nyrst er djúp og mikilfengleg gjá, Lambafellsgjá, sem gaman er að skoða. Gjáin gengur inn í mitt fellið og er mjög þröng neðst, eða 1-3 m á breidd, en víkkar þegar ofar dregur, lengd sprungunnar er um 150 m og hærra veggstálið er 20-25 m hátt. Það er skemmtilegur “álfabragur” á því að geta gengið inn í fjall og síðan upp úr því.
Í fellinu er bólstrabrotaberg og í gjáveggjunum sést hver “koddinn” við annan. Önefnið Lambafellsklofi hefur einnig heyrst og þá er átt við gjána og ein heimild nefnir fellið sjálft Klofningsfell.” (Sesselja Guðmundsdóttir, 2007. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Lionsklúbburinn Keilir).
Þorvaldur Örn Árnason