Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nám í ævintýraferðamennsku hjá Keili
Mánudagur 3. júní 2013 kl. 10:03

Nám í ævintýraferðamennsku hjá Keili

Thompson Rivers University í Kanada býður upp á nýtt og spennandi leiðsögunám í ævintýraferðamennsku á Íslandi (Adventure Sport Certificate) í samstarfi við Íþróttaakademíu Keilis. Um er að ræða 30 eininga, átta mánaða nám á háskólastigi, sem hentar vel þeim sem hafa mikinn áhuga á ferðamennsku og útivist við krefjandi aðstæður. Útskrifaðir nemendur hafa möguleika á að vinna á óhefðbundnum og fjölbreyttum starfsvettvangi með góðum starfsmöguleikum víða um heim í ört vaxandi grein ævintýraferðamennsku.

Námið er grunnur að helstu þáttum ævintýraferðamennsku. Það hentar þeim sem vilja: Kynnast starfi ævintýraleiðsögumannsins. Bæta við þekkingu sína á ævintýraferðamennsku. Skoða möguleikann á að gera ævintýraleiðsögn að starfsframa. Fara í hlutfallslega stutt og hnitmiðað nám. Hafa möguleika á að fara í nám sem gefur möguleika að fá metið í framhaldsnám.

Uppsetning námsins
Boðið er upp á námið í nánu samstarfi við Thompson Rivers University (TRU) í Kanada og útskrifast nemendur með alþjóðlegt skírteini frá þeim (Adventure Sport Certificate). TRU er einn virtasti háskóli í heimi sem býður nám í ævintýraleiðsögn, en meðal útskrifaðra nemenda þeirra eru nokkrir íslenskir leiðsögumenn.

Kennarar verða flestir íslenskir en námið verður á ensku. Námið byggir að miklu leyti á vettvangsnámi í náttúrunni ásamt þéttri dagskrá í bóklegum fögum. Allar einingar námsins eru matshæfar í framhaldsnám innan TRU á sviði ævintýraferðamennsku. Nemendur sem hyggja á áframhaldandi nám í ævintýraferðamennsku innan TRU, geta farið beint inn í eftirfarandi nám: Adventure Guide Diploma, Adventure Management Diploma eða í fullt nám til BS gráðu í Adventure of Tourism Management.

Námið leggur áherslu á eftirfarandi þætti:
    Bakpokaferðalög
    Gönguleiðsögn
    Ísklifur
    Jöklaferðir
    Fjallamennsku
    Flúðasiglingar
    Straumvatnskajak
    Straumvatnsbjörgun
    Sjókajak
    Skyndihjálp í óbyggðum

Thompson Rivers University býður upp á eitt virtasta og yfirgripsmesta leiðsögumannanám í ævintýraferðamennsku sem völ er á. Skólinn skapar einstaka námsupplifun sem þróar með nemandanum líkamlegan, andlegan og tilfinningalegan þroska sem nýtist á alþjóðlegu sviði ævintýramennsku og leiðsagnar. Nánari upplýsingar um Thompson Rivers University, leiðsögunám í ævintýraferðamennsku og möguleika á framhaldsnámi, má nálgast á heimasíðu TRU.

Boðið verður upp á námið frá ágúst 2013 og opnað verður fyrir umsóknir í lok maí.
Nánari upplýsingar um uppbyggingu námsins, verð og innihald námskeiða verða birtar á heimasíðu Keilis fljótlega. Þangað til má nálgast upplýsingar um námið hjá Arnari Hafsteinssyni, forstöðumanni Íþróttaakademíu Keilis í síma 578 4000 eða á netfangið: [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024