Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 23. febrúar 2006 kl. 15:22

Næsti framhaldsskóli Suðurnesja í Grindavík

Ljóst er að farið er að blása til sóknar með að nýr framhaldskóli þurfi að rísa á Suðurnesjum. Um það ritaði Hjálmar Árnason ágæta baráttugrein í Víkurfréttir þar sem hann kastar m.a. fram hugmynd um Stapaskóla.

Í framhaldi af því tók Böðvar Jónsson upp þráðinn viku síðar með grein um skólamál í stórsókn þar sem hann fer yfir sviðið og að í febrúar 2003 hafi sveitarfélögin skrifað undir samning við ríkisvaldið um stækkun Fjölbrautaskóla Suðurnesja og sú stækkun hafi nú þegar verið tekin í notkun.

Ekki þarf að fjölyrða um að framtíðin liggur í menntuninni og FS hefur sýnt og sannað tilverurétt sinn rækilega á þessum 30 árum sem hann hefur starfað. Án öflugs framhaldsskóla hefði samfélag okkar ekki verið samkeppnisfært í framhaldsskólamenntun og ungmennin flæmst í burtu af svæðinu. Sveitarfélögin stækka ört á skólasvæðinu og ekki er séð fyrir enda á því.

Margt hefur breyst á þessum 30 árum og er Fjölbrautaskóli Suðurnesja nú orðin stór og öflug menntastofnun með um 1000 nemendur og svo til fullnýtt athafnasvæði til frekari stækkunar. Og hvað er þá til ráða? Annan skóla segja flestir og það er alveg rétt. Aðrir kostir eru ekki í stöðunni. En svo kemur önnur spurning sem ég hef ekki séð að velt hafi verið upp. Í hvaða sveitarfélagi á hann að rísa?
Málið er einfalt. Næsti framhaldsskóli landsins á að rísa í Grindavík og fyrir því liggja margar ástæður. Í fyrsta lagi að Grindavík er fjölmennasta sveitarfélag á Íslandi sem ekki hefur framhaldsskóla. Telja má víst að þegar hann verður risinn innan fárra ára muni íbúafjöldi í Grindavík væntanlega vera á bilinu 3200-3500 manns a.m.k. Það er nægilega stórt samfélag til reksturs framhaldsskóla. Ekki er ásættanlegt fyrir samfélag af þeirri stærð að senda þá fjölmörgu nemendur sína 50 km leið á hverjum degi í skóla sem jafnframt væri byggður til að taka við þessum nemendum. Með þessu móti fækkar nemendum í FS, sem af leiðir að hann verður nægilega stór næstu árin þar á eftir.

Með þessum hugleiðingum mínum tek ég enga beina afstöðu til þess hvernig eða hvort Fjölbrautaskólinn í Grindavík og Fjölbrautaskóli Suðurnesja verði á einhvern hátt tengdir menntalega og er það annarra og sérfróðra í menntamálum að ráða bót á en næsti framhaldsskóli á að rísa í Grindavík.

Bygging framhaldsskóla er samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga þar sem ríkið greiðir 85% og sveitarfélögin 15%. Hvernig því uppgjöri er síðan háttað þar sem Grindavíkurbær á nú sína hlutdeild í 15% greiðslu til Fjölbrautaskóla Suðurnesja má gera á ýmsa vegu en væntanlega væri eðlilegast að eignaraðilar FS stæðu sameiginlega að byggingu fjölbrautarskóla í Grindavík sem verður að sjálfsögðu mun minni að umfangi en FS er nú og þar með séu íbúar Grindavíkur kvittir gegn FS.
Röðin er einfaldlega komin að Grindavík. Þetta er staðreynd sem ekki verður litið hjá hvort sem um er að ræða meðal sveitarfélaga á starfssvæði FS eða á landsvísu. Ráðamenn sveitarfélaganna þurfa að koma þessu ljóst til skila til þingmanna og ráðherra menntamála. Ætti það að vera ráðamönnum Grindavíkurbæjar keppikefli að draga þar vagninn.

Hallgrímur Bogason,
bæjarfulltrúi í Grindavík
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024