Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nærumst við á neikvæðni?
Föstudagur 7. desember 2018 kl. 06:00

Nærumst við á neikvæðni?

Lokaorð Örvars Þórs Kristjánssonar fjalla um Klaustursmál og fleira sem honum finnast áhugaverðari

Nokkrir alþingismenn á Klaustri lítilsvirtu samstarfsmenn sína með afar niðrandi baktali og kynferðislegum athugasemdum á dögunum. Ekki nóg með það heldur dúndruðu þeir eiturpílum yfir nánast allt og alla í samfélaginu, fáeinir sluppu. Afsökunarbeiðnirnar sem fylgdu á eftir voru svo langt frá því að vera einlægar eða frá hjartarótum. Það er ekki hægt að skella skuldinni á áfengi, þótt vissulega hagi menn sér öðruvísi þegar þeir eru blekaðir eða aumingja, Marvin. Þetta var ekki létt glens hjá þingmönnunum, þetta var illa innrætt baktal. Höfum það á hreinu. Meira að segja Suðurnesin fengu létt skot á sig en það kemur manni svo sem ekkert á óvart, það er nóg að skoða fjárframlög ríkisins hingað suður til að sjá að það er litið niður á svæðið og hefur alltaf verið. Allir þingmenn samsekir í því máli. Áfengisneysla á vinnutíma, það er ljómandi gott að vera á Alþingi.

En það er komið meira en nóg af umræðunni um þetta mál, ekki er hægt að þverfóta fyrir réttlætisriddurum og sjálfskipuðum siðapostulum þessa lands sem aldrei hafa sagt eða gert neitt rangt, þeir heltaka umræðuna. Reyndar hefðu þessir ágætu þingmenn átt að segja af sér daginn eftir að mínu mati en það þekkist varla að axla ábyrgð hér á landi. Þá hefði þetta mál sennilega fjarað út? Ekki hjá þessum hópi sem gaggar hæst, hann heimtar blóð. Sennilega gapastokk á Austurvöll. Samfélagsmiðlar eru svo vettvangur skoðanaskipta, það er eðli þeirra. Hver og einn sem hefur aðgang að samfélagsmiðlum getur sagt sína skoðun á öllu milli himins og jarðar. Í athugasemdakerfinu eru engar siðareglur og fjölmiðlar keppast um að hafa sem mest „kjöt“ á beinunum og þá trekkir hið neikvæða mest að því miður. Það finnst mér stóra frétt þessarar viku, öll athyglin sem þetta mál hefur fengið og allur sá ótrúlegi fjöldi frétta sem sagður hefur verið um málið.

Nú vil ég benda á tvær magnaðar fréttir í liðinni viku sem svo sannarlega hefðu átt skilið meiri athygli og umfjöllun en voru í raun kaffærðar af Klaustursmálinu. Hin fyrri er frétt af ágóðaleik fyrir Bjarka Má Sigvaldason sem fór fram í Kórnum en þar mættust erkifjendur HK og Breiðabliks. Bjarki Már er fyrrum leikmaður HK sem hefur barist við krabbamein í sex ár og á nú lítið eftir. Viðtalið við hann og konuna hans á Stöð 2 er svo sannarlega þess virði að grafa upp, - magnað fólk. Hin fréttin er af ótrúlegu afreki Einars Hansberg Árnasonar sem réri 500 km til styrkar Kristínu Björgvinsdóttur og börnum hennar, en hún missti mann sinn skyndilega nú í lok október. Ungur maður sem í blóma lífsins sem tók eigið líf, sú sorglega staðreynd að sjálfsvíg eru ein helsta dánarorsök ungra karlmanna hér á landi vekur mikinn óhug. Kannski eitthvað sem þingmenn ættu að eyða meira púðri í að skoða og finna lausnir á? Að róa 500 km er eins og að taka tólf maraþon og er afrek Einars því magnað. Þarna eru tvær fréttir um ótrúlegan náungakærleik og öfluga samstöðu fólks sem hverfa í hafsjó neikvæðninnar.

Veljum meira af jákvæðum fréttum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024