Myntráð virkar, sjáið Singapore
Aðsend grein frá Sigurjóni Vídalín Guðmundssyni
Ég er heillaður af Singapore, samt hef ég aldrei komið þangað enda er Singapore nokkuð langt frá okkur og ekki alveg í alfaraleið. Samt er ég heillaður. En hvað veldur þessari hrifningu minni á Singapore ? Þeir eru með stöðugan gjaldmiðil. Þeir eru með lágt vaxtastig. Þeir eru með myntráð.
Árið 1985 tóku þeir upp gengisskráningu á myntinni sinni með myntráði. Þeir höfðu reynt hinar ýmsu leiðir til að skrá gengið með lélegum árangri. Allar tilraunir til að beintengja við annan gjaldmiðil mistókust.
Árið 1985 voru þeir því með um og yfir 10% vexti af húsnæðislánum (lán til 15 ára, óverðtryggð) og í kringum 6% vexti á innlánum. Hljómar kunnuglega?
Án þess að fara nákvæmlega út í tæknileg atriði þá fóru þeir þá leið að tengja gjaldmiðil sinn myntkörfu sem samanstendur af myntum þeirra landa sem þeir eiga mest viðskipti við og einnig er eitthvað tillit tekið til gjaldmiðla þeirra landa sem þeir eru í mestri samkeppni við.
Og hvað gerðist svo? Jú, vextir á húsnæðislánum lækkuðu á fyrstu árunum nokkuð hratt niður í 7% og í dag eru vextir á húsnæðislánum í kringum 3% (ekki gleyma að þetta eru lán til 15 ára, óverðtryggð). Vextir á innlánum lækkuðu niður í 0,11% á sama tímabili.
Árið 1985 var ég 11 ára. Í dag vildi ég helst óska þess að íslensk stjórnvöld hefðu verið jafn framsýn og stjórnvöld í Singapore voru árið 1985. Ég hef það hins vegar á tilfinningunni að stjórnvöld þá og nú hafi ekki haft neinn sérstakan áhuga á því að skapa hér efnahagslegt jafnvægi fyrir alla landsmenn. Það er fjármagnseigendum sérstaklega hagstætt að hér sé hátt vaxtastig, verðtrygging á húsnæðislánum og óstöðugur gjaldmiðill. Við sjáum það leynt og ljóst að fjármagnseigendur hafa sterk ítök á stjórn landsins í gegnum ákveðna stjórnmálaflokka þar sem silfurskeiðungar ganga erinda þeirra, þvert á hagsmuni almennings.
Augljóslega vilja fjármagnseigendur engar kerfisbreytingar enda eru þeir búnir að koma sér upp frábæru viðskiptamódeli. Innanlandsfjármagnið vex og dafnar í háu vaxtaumhverfi, þegar gengið er sterkt flæða peningarnir til Tortóla og bíða þar í sólinni eftir að gengið veikist en þá er þeim kippt heim enda hafa þeir margfaldast í verðgildi. Þannig er hægt að græða og græða og græða. Gallinn er bara sá að við hin, nánast öll þjóðin, getum ekki tekið þátt í þessari snilld. Við fáum bara að borga og borga og borga.
Í dag eru fullt af börnum 11 ára eins og ég var árið 1985. Munurinn á þeim og mér er sá að núna er kominn fram flokkur sem hefur það á stefnuskránni að taka upp myntráð og berjast gegn sérhagsmunum fyrir hagsmuni almennings. Knýja fram breytingar á peningastefnunni sem gerði það að verkum að verðtrygging yrði óþörf og vextir á húsnæðislánum yrðu samkeppnishæfir við vexti húsnæðislána í löndunum sem við berum okkur saman við.
En til þess að það verði að veruleika verður fólk að þora að standa í lappirnar. Þora að standa með sjálfu sér og veita þeim flokkum brautargengi sem tala fyrir breytingum. Vegurinn til bættra lífskjara liggur fram á við en ekki í stöðnun og að verjast breytingum á kerfi sem er ekki að þjóna okkur öllum heldur bara sumum.
Sigurjón Vídalín Guðmundsson
6. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi