Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Mótun menningarstefnu í Sveitarfélaginu Vogum
    Frá skólaþinginu í Stóru-Vogaskóla.
  • Mótun menningarstefnu í Sveitarfélaginu Vogum
    Frá menningarfundinum í Álfagerði.
Mánudagur 15. febrúar 2016 kl. 09:41

Mótun menningarstefnu í Sveitarfélaginu Vogum

Frístunda- og menningarnefnd sveitarfélagsins hefur sent til umsagnar tillögu að menningarstefnu. Með henni er ætlunin að efla menningarstarf og virkja og samhæfa betur kraftana. Tilgangur menningarstefnu Sveitarfélagsins Voga er að íbúar bæjarins fái notið menningar. Leiðarljós stefnunnar er að efla áhuga, löngun og möguleika bæjarbúa til að skapa menningu og njóta menningar.

Markmiðið er að Sveitarfélagið Vogar verði betri staður að búa á. Menningarstarf verði veigamikill þáttur í bæjarlífinu árið um kring; markvisst verði unnið að listrænu uppeldi barna og unglinga og upplýsingar um menningarstarfsemi bæjarbúa verði aðgengilegar og vel kynntar. Þá verður starfsemi safna aukin, fjölmenning fái notið sín og bætt tengsl við vinabæ Voga sem er Fjaler í Noregi.

Burðarásar menningar í Vogum


Stofnanir sveitarfélagsins gegna þar lykilhlutverki. Þar má nefna grunnskólann, leikskólann, íþróttamiðstöð, félagsstarf bæði með unglingum og öldruðum og bæjarstjórn og bæjarskrifstofu.
Í sveitarfélaginu eru u.þ.b. 20 frjáls félög, mis stór í sniðum, sem öll gegna menningarhlutverki. Ungmennafélagið Þróttur og kvenfélagið Fjóla eru öflugust. Að auki má nefna golfklúbbinn, Sögu- og minjafélagið, lionsklúbbinn Keili, björgunarsveitina Skyggni, landgræðslu- og skógræktarfélagið Skógfell, Norræna félagið, Vélavini, smábátafélagið og félag eldri borgara.

Í fyrirtækjunum þróast starfsmenning og þau styðja menningarstarfsemi á ýmsan hátt. Framleidd eru margs konar matvæli, vélbúnaður, ljósmyndir og veitt margs konar þjónusta.

Síðan eru býsna margir einstaklingar sem iðka listir og handverk fyrir sig og sína og einnig til að selja. Þeir fást við sjónlistir, handverk, hannyrðir, tónlist, ritlist, varðveislu fornleifa, örnefna og sagna og rannsóknir af ýmsu tagi.

Fundur um menningarmál


Fyrir viku síðan var haldin opinn fundur í Álfagerði í Vogum þar sem tillagan að menningarstefnu var kynnt og litið yfir menningarakurinn sem er blómlegri en margur heldur sökum hlédrægni margra og ónógrar kynningar á því góða sem gert er. Á fundinum kom fram vilji til að ráða bót á því, m.a. að nýta vef sveitarfélagsins betur. Einnig að sveitarfélagið styðji betur metnaðarfull menningarverkefni. Fram kom áhugi á að efla tónleikahald en í sveitarfélaginu eru ágætir salir til að flytja margs konar tónlist. Dregið hefur úr leiklist hin síðari ár og kom fram ákveðinn vilji til að ráða þar bót á.

Talsvert var rætt um ímynd Sveitarfélagsins Voga og möguleika þess til að hafa þar áhrif. Aðkomumenn og fólk sem flytur í sveitarfélagið verður jafnvel undrandi á því sem þar er í boði og hvað umhverfið er kyrrsælt og fallegt en íbúar mættu gera meira af því að kynna kostina fyrir öðrum. Nálægðin við höfuðborgarsvæðið og flugvöllinn gefur mikil tækifæri, en bitnar jafnframt á menningar- og félagslífi vegna þess hve auðvelt er að sækja allt mögulegt annað.



Grunnskólinn kjarni menningar í Vogum
Stóru-Vogaskóli er stærsta stofnunin í Vogum og þungamiðja menningarlífsins. Þar fá börnin fjölþætt veganesti út í lífið og barnafjölskyldur eru nátengdar skólanum um árabil. Það sem gerist í skólanum hefur mikil áhrif á mannlífið, bæði í nútíð og framtíð - og einnig í fortíð, enda er þetta einn af elstu skólum landsins, hefur starfað í nær 144 ár. Þegar fólk sem nú er um nírætt var þar í skóla um 1930 var skólinn sjálfur á miðjum aldri, hafði þá starfað í nær 60 ár!. Myndin sýnir skólaþing sem haldið var í vikunni sem leið, þar sem nemendur í öllum bekkjum, nema þeim allra yngstu, sitja í 10 aldursblönduðum vinnuhópum og ræða undir stjórn eldri nemenda hvernig þau geti bætt starf skólans. Stjórn skólafélagsins (nemendur) höfðu kafað í könnun um líðan nemenda (skólapúlsinn) og búið til umræðuspurningar út frá því, stjórnuðu síðan hver sínum hópi og skráðu niðurstöðurnar beint í tölvu. Þetta er eitt lítið dæmi um hvernig lagður er góður grunnur að menningu okkar til frambúðar.

Þorvaldur Örn Árnason

(varaformaður Frístunda- og menningarnefndar)


(Þessi grein hafði beðið birtingar í hálfan mánuð hjá Víkurfréttum og taka verður mið af því við lestur greinarinnar.)

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024