Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mót hækkandi sól
Sunnudagur 8. janúar 2012 kl. 22:11

Mót hækkandi sól


Um áramót þykir við hæfi að líta yfir liðið ár um leið og skyggnst er til framtíðar. Að sjá hvað vel hefur verið gert og hvað væri vert að bæta.

Það er óhætt að segja árið 2011 hafi verið viðburðarríkt ár fyrir samfélag okkar hér í Reykjanesbæ. Afar þung fjárhagsstaða bæjarins eftir tíu ára valdatíma sjálfstæðismanna er nú jafnvel þeim orðin ljós. Þeir hafa nú áttað sig á að staðan er ekki öðrum um að kenna, heldur heimatilbúin í l loftherbergjum ráðhússins að Tjarnagötu 12, þar sem ákvarðanir hafa verið teknar meira af kappi en af forsjá.

Alvarleg staða bæjarsjóðs

Víst er að árangri hefur verið náð undir stöðugu aðhaldi Eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga. Enn höfum við þó ekki náð landi og áframhaldið veltur á hvort takist að selja skuldabréfið í HS Orku og jafnvel hlut í HS Veitum. Bærinn þarf nú að selja eignir að verðmæti 5,5 milljarða króna til að nálgast það takmark að jafnvægi verði náð í rekstri bæjarins. Líkja má þeirri gjörð við að selja bílinn sinn til þess að eiga fyrir brauðinu. Svo alvarleg er staða bæjarins nú þrátt fyrir stöðugan flaum flennifyrirsagna um milljarða hagnað bæjarsjóðs undanfarin ár. Leikur að tölum sem lítið hefur átt skylt við raunveruleikann.

Skuldir og skuldbindingar bæjarins

Komið er að skuldadögum og nánast allar eigur bæjarins eru nú falar. Á sama tíma er leitað leiða til að kaupa aftur til baka þær fasteignir bæjarins sem seldar voru á sínum tíma. Vandamálinu er velt yfir á komandi kynslóðir. Hugmyndafræðin um yfirburði einkarekstrar í opinberri þjónustu hefur ekki reynst sú töfralausn sem vonast var eftir. Það sanna örlög óskabarns meirihlutans EEF sem nú er komið að fótum fram og leitar nú samninga við lánadrottna sína.

Við höfum undanfarin ár fylgst með þeim vandræðagangi sem einkennt hefur uppbyggingu Álvers í Helguvík. Hvernig stjórnmálamenn sem setið hafa allt í kringum borðið hafa tekið ákvarðanir, vakið væntingar og skrifað undir bindandi samninga, án þess að innstæða fyrir þeim væri fyrir hendi. Úrskurður Gerðardómsins í málefnum álversins á nú að hafa kennt okkur að betur er heima setið en af stað farið, ef forsendur sem þurfa að vera til staðar fyrir framgang þessa verkefnis sem þessa eru ekki fyrir hendi. Það bíður nú fulltrúa HS Orku og Norðuráls það erfiða verkefni að finna leiðina út úr þeim samningum sem stjórnmálamennirnir í stjórn Hitaveitunnar sálugu skrifuðu undir, um leið þurfa fulltrúar bæjarins að finna leiðir út úr ótímabærum skuldum hafnarinnar verkefninu samhliða.

Aðkoma ríkisins

Það er óhætt að segja að undanfarið ár hafi verið róinn lífróður fyrir bæjarfélagið okkar í þeirri von að snúa við þeirri stöðu sem stefna núverandi meirihluta hefur valdið. Að forða bænum frá því gjaldþroti sem fyrirsjáanlegt var yrði ekkert að gert. Seldar hafa verið eignir til greiðslu brýnustu skulda, og tryggja framtíðarþjónustu í bænum. Þar hefur hin svokallaða „alvonda ríkistjórn“ ekki látið sitt eftir liggja, nema síður sé.

Vegna íhlutunar ríkisins var horfið af þeirri vályndu braut að afhenda einkavinum meirihlutans Nesvöllum framtíðaryfirráð yfir hjúkrunarþjónustu aldraðra. Framundan er uppbygging sextíu rýma hjúkrunarheimilis með tilheyrandi atvinnusköpum þeirra starfstétta sem hvað verst hafa farið út úr hruninu. Einnig hafa verið gerðir fjárfestingarsamningar vegna uppbyggingar Álvers, Kísilvers og Gagnavers. Framhald þeirra mála er nú í höndum framkvæmdaraðila.

Tryggður hefur verið rekstrargrunnur Keilis sem nú er kominn fastur inn á fjárlög, um leið og ljóst er að með varfærnum höndum hefur verið farið í niðurskurð hjá HSS sökum þess atvinnuástands er hér varir. Gengið hefur verið frá kaupum ríkisins á landi bæjarins á Reykjanesi (á yfirverði) til greiðslu helmings fjármagnstekjuskatts vegna sölu bæjarins á HS Orku. Auk alls þessa hefur ríkið haft aðkomu að fjölda smærri verkefna sem ætluð eru til þess að greina ástandið og koma með tillögur til framtíðarlausna. Það verður hlutverk okkar að nýta þær til fulls.

Þennan árangur getum við þakkað öllum þingmönnum okkar sem auðnast hefur að standa saman fyrir Suðurnesin í ljósi stöðunnar , en ekki þó síst Oddnýju Harðardóttur fyrrum formanni fjárlaganefndar og nú nýorðnum fjármálaráðherra landsins. Segja má að áherslur ríkistjórnarinnar á málefni Suðurnesja lýsi sér vel í vali hennar . Suðurnesin hafa nú eignast sinn fyrsta ráðherra, jafnaðarmann sem í gegnum störf sín hefur sýnt að hjarta hennar slær fyrir afkomu fjöldans frekar en afkomu fárra útvaldra. Ég held ég tali fyrir hönd allra Suðurnesjamanna þegar ég óska henni velfarnaðar í því erfiða og ábyrgðarfulla starfi sem framundan er .

Nýtt ár, nýjar vonir
Undanfarin þrjú ár hafa verið okkur öllum erfið. Heimilin hafa þurft að taka á ósanngjarnar byrðar sem hlotist hafa af gegndarlausri innleiðingu frjálshyggjunnar. Samfélagsleg ábyrgð þurfti að víkja fyrir haftalausu valdi og græðgi fjármagnsaflanna. Staðan hefur að nokkru verið endurstillt um leið og framundan eru spennandi tímar uppbyggingar eftir efnahagshrun hagkerfis sem vart á sér hliðstæðu í víðri veröld.

Þrátt fyrir þunga og erfiða stöðu bæjarsjóðs og áframhaldandi baráttu við að ná tökum á rekstri hans er ástæða til að ætla að brátt fari að rofa til í atvinnumálum bæjarbúa. Á nýju á verða hafnar framkvæmdir í Reykjanesbæ sem skapa eiga fjölda starfa gangi vonir eftir. Hjúkrunarheimili, kísilverksmiðja, auk þess sem gera má ráð fyrir stórauknum fjölda ferðamanna á svæðið með tilheyrandi aukningu starfa á svæðinu . Allt eru þetta tækifæri sem gefa okkur ástæðu til að álykta að tekið sé að rofa til og ástæðu til að brosa mót hækkandi sól.

Þá má gera ráð fyrir að auknar líkur séu á því að álverið í Helguvík verði að veruleika og framkvæmdir við það fari aftur af stað á árinu. Gerðardómurinn sem gekk á dögunum færir vonir um að þessi stórframkvæmd gangi nú fram. Nú skiptir öllu að stríðandi aðilar slíðri sverðin og setjist að samningaborði út frá dómsniðurstöðunni. Rætist þetta ásamt stækkun gagnaversins á Ásbrú munu verða þáttaskil í atvinnumálum á Suðurnesjum. Í fyrsta sinn frá brotthvarfi hersins fyrir röskum sex árum sjái til sólar á atvinnumarkaði svæðisins. Með samstöðu heimamanna og þingmanna getum við lyft grettistaki í öllu því sem máli skiptir. Látum það verða sameiginlegt markmið á nýju ári sem við fögnum með nýjum sólstöðum.


Með bestu óskum um gjöfult og gott nýtt ár,

Hannes Friðriksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024