Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 13. ágúst 2002 kl. 11:30

Mörgum mannslífum hefði verið hægt að bjarga

Ástmar frændi minn drukknaði, vegna þess að sjórinn flæddi inn um opnar dyr, að mati sjóslysanefndar. Í gegnum aldirnar hafa íslendingar tapað mörgum ástvinum sínum í faðm Ægis. En margir hafa einnig bjargast vegna bætts öryggis. Frá því að íslendingar hófu fyrst fiskveiðar hefur mikið vatn runnið til sjávar hvað öryggisbúnað og reglur varðar. Enn betur má ef duga skal. Hvers vegna að hafa vatnsþétta lokun ef henni er ekki lokað? Hvers vegna að setja reglur um neyðarbjöllur ef þeim er ekki fylgt eftir? Er ekki kominn tími til að við íslendingar gerum kröfur um að skip og bátar fylgi þeim öryggisreglum sem fyrir eru. Til þess að slíkt sé gert þarf einhver að vera ábyrgur. Hver er ábyrgur fyrir því að neyðarbjöllur séu í skipum og bátum? Að mínu mati hljóta það að vera útgerðarmenn. Sá sem er ábyrgur fyrir neyðarbjöllu er jafnframt ábyrgur fyrir þeim mannslífum sem bjallan á að þjóna. Mín skoðun er sú að mörgum mannslífum hefði verið hægt að bjarga með því að framfylgja reglum til hins ýtrasta. Ef forráðamenn Unu í Garði hefðu átt yfir höfði sér stórsekt fyrir að láta skipið fara til sjós með enga neyðarbjöllu hefðu þeir eflaust hugsað sig um. Ef skipstjórinn hefði haft minnsta grun um þær afleiðingar sem opnar dyr hefðu, hefði hann umsvifalaust lokað þeim. Hvernig stóð á því að hann vissi ekki betur? Er það ekki á hans ábyrgð, að öllum öryggisreglum sé fylgt um borð? Nú veit hann betur, en vita aðrir skipstjórarnir betur? Eða láta þeir öryggið fyrir bí, því að of heitt er í vistaverunum? Sjóslysanefnd kom með tillögur um úrbætur, verður þeim fylgt eftir? Hver ber ábyrgðina á því að þeim sé fylgt eftir?
Hvers vegna eru skip og bátar sem uppfylla ekki öryggiskröfur, hversu smávægislegar sem þær kunna að vera, ekki kyrrsettir? Þorir enginn að takast á við útgerðarmennina? Eru menn hræddir um að kostnaðurinn vegna öryggisbúnaðs sé aurinn sem leiði útgerðina í gjaldþrot? Það hlýtur að koma að því að útgerðarmenn verði látnir borga skaðabætur, fyrir þau mannslíf sem tapast, vegna þess að öryggisreglum er ekki fylgt eftir. Ef þeir halda að öryggisbúnaður sé of dýr ættu þeir að fara að hugleiða hvað eitt mannslíf kostar.
Tveir ungir menn dóu með Unu í Garði, því sjórinn flæddi inn um opnar dyr. Árni Pétur Ólafsson og Ástmar frændi minn. Mannleg mistök og ekkert annað urðu þeim að bana. Lærum af mistökunum, krefjumst þess að útgerðarmenn og skipstjórar fylgi öryggisreglum eftir til hins ítrasta.

Guðrún Guðmundsdóttir
Borgarveg 36, 260 Njarðvík
Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024